Innan til í firði einum bjó ekkja er Ketilríður hét; hún var mesti búforkur og atorkukona, en nokkuð þótti hún einþykk og þétt í lund. Ketilríður þessi átti son einn, Sæmund að nafni; hann var einbirni og kominn undir tvítugt, er saga þessi gerist. Nokkuð agasöm hafði Ketilríður þótt við Sæmund í uppeldinu, og kom það snemma fram í fari hans; hann varð fáskiptinn og fálátur og fór jafnan einförum; ágerðist þetta nokkuð með aldrinum. Svo háttaði til þar, er Ketilríður bjó, að það var nærri...