Kenny Baker yfirþjálfari hjá SBG South West í Englandi kemur til landsins á miðvikudaginn og verður gestaþjálfari hjá Mjölni næstu tvær vikurnar. Kenny er brúnt belti í BJJ sem jafnframt hefur keppt sem atvinnumaður í MMA. Á sínum yngri árum keppti hann reyndar einnig og vann til verðlauna í Kickboxi, Karate (svart belti) og boxi. Kenny æfir reglulega út um allan heim með heimsklassa atvinnumönnum bæði í BJJ og MMA. Koma hans hingað til lands er því mikill fengur fyrir Mjölni en auk þess að kenna í Mjölni mun Kenny taka þátt í undirbúningi Gunnars Nelson fyrir heimsmeistaramótið í BJJ sem fer fram í byrjun júní. Á myndinni má sjá Kenny (í bol) glíma við engan ófrægari en Eddie Bravo en þessi mynd var tekin fyrir UFC 70 í Manchester.