Kjarnorkuárásir Bandaríkjamanna á Hiroshima og Nagasaki eru í dag af mörgum úthrópaðar sem alveg einstök illvirki í mannkynssögunni. Þær voru vissulega hroðalegar, en í sögulegu samhengi - og frá samtíma-sjónarhorni - eru þær “börn síns tíma”. Afleiðing og endir skelfilegrar styrjaldar þar sem menn voru orðnir ónæmir fyrir fjöldadrápum á óvininum.
Á Kyrrahafinu hafði þetta grimmdaræði viðgengist og magnast í fjögur ár. Áður en Bandaríkjamenn fengu stóru sprengjurnar sumarið 1945, höfðu þeir þegar drepið hundruðir þúsunda af japönskum borgurum í “venjulegum” loftárásum. Í stríði sem Japanar höfðu reyndar hafið, og háð af mikilli grimmd og óvirðingu fyrir almennum borgurum og stríðsföngum. Í ágúst 1945 var því ekki mikið um “móralskar skrúplur” hjá Bandaríkjamönnum varðandi eyðingu japanskra borga eða Japana yfirleitt. Kjarnorkusprengjurnar vour einfaldlega “More Bang for the Buck”.
Þetta plakat er frá 1944, ári fyrir kjarnorkuárásirnar, og lýsir áliti Bandaríkjamanna á “Japs” á þeim tíma, og er bara eitt fjölmargra í svipuðum dúr. Aðeins al-hörðustu mannvinum og/eða friðarsinnum þótti eitthvað athugavert við að útrýma Japönum í stórum stíl með árásum sem voru sérsniðnar í þeim tilgangi.
Í dag er þetta að sjálfsögðu umdeildara. Mörgum (en alls ekki öllum) þykja loftárásirnar á Japan og sérstaklega kjarnorkuárásirnar hafa verið hrein og klár villimennska, hernaðarlega óþarfar og framkvæmdar aðeins til að svala því hatri- og hefndarþorsta sem þetta plakat sýnir.