Hér sést John F. Kennedy með varnarmálaráðherra og einum helsta ráðgjafa sínum, Robert S. McNamara. Hann var einn af hinum “góðu og gáfuðu” (The Best and the Brightest), en svo var ráðgjafahópur Kennedys síðar nefndur í frægri bók blaðamannsins David Halberstam, og ekki laust við að nokkurar kaldhæðni gætti í titlinum.
Þegar Kennedy tók við embætti árið 1961, lagði hann sig fram um að fá sprenglærða sérfræðinga í helstu embætti frekar en flokksgæðinga. Með slíku einvalaliði skyldi nú aldeilis tekið til hendinni við stjórn Bandaríkjanna, eftir doða Eisenhower-tímans.
McNamara var að vissulega að mörgu leyti feykivel gefinn, og hafði gert mjög góða hluti við skipulagningu hernaðarframleiðslu í Seinni heimsstyrjöld, og síðan hjá Ford-bílarisanum. Tölur voru hans ær og kýr, og var hann oft nefndur “reikningshausinn” eða “tölvan”.
Eftir fráfall Kennedys hélt McNamara áfram störfum í Johnson-stjórninni, og kom því hitinn og þunginn af Víetnam-stríðinu mest í hans hlut. Við stríðsreksturinn reyndi hann að beita sömu aðferðum og áður við rekstur Ford verksmiðjanna: Tölur voru fyrir honum allt. Framleiðsla og tap á hergögnum, “bodycount” eigin manna og óvinanna o.s.frv. Þessi ofuráhersla hans á tölfræðina kom honum í koll, því hann tók alls ekkert tillit til annara þátta, eins og mórals hermannana, óánægju almennings í Víetnam o.fl. Einnig fóru að verða brögð að því að undirmenn hans “hagræddu” tölum til að þóknast honum, því hann þótti harður húsbóndi.
Að lokum þegar allt var komið í óefni, varð hann að sæta ábyrgð og segja af sér embætti. Gerðist hann forstjóri Alþjóðabankans. Mörgum þykir í dag ferill hans sem varnarmálaráðherra svipa til Donalds Rumsfeld, og vissulega eru nokkur líkindi til staðar.
http://en.wikipedia.org/wiki/Robert_McNamara