Hér sjást tveir af mestu herforingjum Þjóðverja í Fyrri heimsstyrjöld, Hindenburg og Ludendorff, skoða og íhuga stöðuna á Vesturvígstöðvunum.
Báðir voru þeir af Prússneskum aðalsættum, og hernaður hafði verið þeirra ævistarf. Fyrst fyrir Prússneska konungsdæmið og síðan fyrir hið sameinaða Þýska keisaradæmi. Þóttu þeir báðir (ásamt Vilhjálmi II keisara) vera týpískir holdgervingar Þýskalands, með sinn stífa prússnesk-aristókratíska hernaðaranda sem undirstikaður var með snúnum yfirvaraskeggjum og skrautlegum gadd-hjálmum.
Eftir hinn nöturlega ósigur Þýskalands í WWI, með hruni keisaradæmisins og stofnun Weimar-lýðveldisins, áttu örlög þeirra beggja eftir að leiða þá saman við austurrískan fátækling og fyrrum korporál í hinum mikla her þeirra, Adolf Hitler.
Ludendorff, í biturð sinni, gerðist um hríð stuðningsmaður hins smáa Nazistaflokks Hitlers í Bæjaralandi og átti nokkurn þátt í “Bjórkjallara-uppreisninni” í München árið 1923. Snerist þó gegn Hitler síðar, en þá var það afskrifað sem elliglöp.
Hindenburg var hinsvegar í krafti orðspors síns kosinn forseti Weimar-lýðveldisins, sem var meira formlegt en valda-embætti. Hann var yfir áttræður að aldri og farið að förlast árið 1933 þegar nazistar unnu sinn stærsta kosningasigur, og lenti hann þá í eldlínu þýskra stjórnmála. Hitler tókst smám saman fyrir rest að þvinga gamla manninn til að veita sér kanslaraembættið, og þegar Hindenburg lést árið 1935 beið Hitler ekki boðanna að sameina kanslara- og forsetaembættið í eitt, kallað “Führer”.
Þannig höfðu báðir þessir gömlu þýsku herforingjar og aðalsmenn óbeint hjálpað “austurríska liðþjálfanum” til æðstu valda.
Algjörlega til gamans má geta þess að Goebbels áróðursráðherra fór þess á leit við Zeppelin loftskipafélagið árið 1936, að hið nýja og glæsilega loftskip þess yrði skírt “Adolf Hitler”. Forstjóri félagsins, sem var ekki vel við nazista, tók það ekki í mál og skipið var skírt eftir þjóðhetjunni og forsetanum nýlátna. Eftir á að hyggja hafa nazistar líklega verið fegnir :D