Hér sjást Kennedybræðurnir frægu – John, Robert og Edward (kallaðir Jack, Bobby og Ted). Elsti bróðirinn, Joseph jr. féll í Seinni heimsstyrjöldinni.
Annars voru bræðurnir fjórir úr stórum systkinahópi, enda fjöldskylda þeirra írskir kaþólikkar. Fjölskyldufaðirinn Joseph Kennedy hafði fyrr á öldinni komist til ríkidæmis og valda í Boston, á vafasaman hátt töldu margir. Hann vænti stórra verka af sonum sínum, helst ekkert minna en forsetaembættið.
Gamla manninum varð síðan að ósk sinni árið 1960 þegar Jack, sem þá hafði verið þingmaður í nokkur ár, náði naumlega kjöri í forsetakosningum. Varð hann svo einn af dáðustu bandaríkjaforsetum fyrr og síðar, þó umdeildari hafi síðar orðið. En eins og við vitum endaði forsetatíð hans á hörmulegan hátt þremur árum síðar.
Bobby hafði verið dómsmálaráðherra í stjórn bróður síns, en var kosinn á þing eftir að hafa verið ýtt útúr Johnson-stjórninni. Það kom engum á óvart þegar hann lýsti yfir framboði sínu til forseta árið 1968. Telja margir að hann hefði orðið betri forseti en Jack, sérlega á þeim erfiðu árum sem voru í vændum. En af því varð ekki, því áður en hann náði tilnefingu Demókrataflokksins hlaut hann sömu örlög og bróðir sinn fimm árum áður.
Ted hafði í samanburði við bræður sína allaf verið “svarti sauðurinn”. Gekk ekki jafn vel í skóla og hafði lag á að koma sér í allskonar klandur. Einhverjir vildu endilega munstra hann í forsetakosningar 1972, en þær vonir urðu að engu þegar hann kom sér í enn eitt klandrið, með ölvunarakstri sem kostaði unga konu lífið. Önnur atlaga hans að forsetaframboði, árið 1980, var herfilega misheppnuð og fjaraði fljótt út.
Þrátt fyrir þetta hefur Ted Kennedy átt sitt örugga fylgi í þingsæti undanfarna áratugi. Hefur hann öðlast virðingu fyrir þingstörf sín, en þar þykir hann mjög frjálslyndur og leggur oft óvinsælum málefnum lið. Var t.d. gallharður á móti Írak-stríðinu 2003, ólíkt flestum Demókrötum sem lúffuðu fyrir Bush og greiddu stríðinu atkvæði sitt. Nú berast fréttar af hrakandi heilsu hans, en víst er að stuðningsmönnum þætti illt að missa þennan síðasta Kennedybróður alveg strax.