Um uppruna jólatrésins er flest á huldu, en talið er að rætur þess liggi í einhverskonar trjádýrkun djúpt í mannkynssögunni. Í Róm og víðar skreyttu menn til dæmis í fornöld hús sín um nýárið með grænum trjágreinum eða gáfu þær hver öðrum, og átti það að boða gæfu. Mistilteinninn í Englandi var afsprengi sömu hugsunar. Einnig er til fjöldinn allur af goðsögum og sögnum, þar sem alheimstré er látið tákna heiminn. Það ber ýmis nöfn, eftir því hvaðan vitneskjan er runnin, en alltaf er það sama...