Njáls saga
Stiklað á stóru - kafla fyrir kafla
Forsagan
Upphaf, kynning persóna
1. Kynntur Mörður gígja og Unnur dóttir hans. Kynntir Höskuldur Dala-Kollsson og Hrútur Herjólfsson, Hallgerður Höskuldsdóttir fyrst nefnd. Hrútur sér þjófsaugu.
Fyrri forleikur: Hrúts þáttur
2. Hrútur biður Unnar, hann fer í skyndi utan til Noregs að heimta arf. Brúðkaupi frestað, Unnur heima í festum þrjá vetur.
3. Hrútur gengur í hirð Haraldar gráfelds Eiríkssonar og gerist friðill Gunnhildar konungsmóður.
4. Hrútur fær 2 skip hjá Gunnhildi og 2 hjá Haraldi og fer með Úlfi óþvegnum að leita Sóta, sem geymdi arfsins.
5. Hrútur drepur Atla og fleiri, aflar fjár og frægðar en finnur ekki Sóta. Kemur til hirðar og skiptir feng með kóngi. Gunnhildur hefur látið drepa Sóta og náð fé Hrúts. Hann gefur henni hálft við sig.
6. Hrútur fer heim til Íslands í óþökk Gunnhildar. Álög. Hrútur kvænist Unni en þau mega ekki njótast vegna álaganna. Unnur kvartar við föður sinn.
7. Unnur fer aftur til þings til föður síns, síðan heim að ráði hans og lýsir skilnaði við Hrút að honum fjarverandi. Mörður lýsir skilnaði á Lögbergi og tekur Unni heim til sín.
8. Hrútur grípur í tómt, fer með Höskuldi til þings næsta ár. Mörður reynir að ná fé Unnar af Hrúti en Hrútur skorar hann á hólm og heldur bæði fé og sæmd. (Sjá Kaupa-Héðins þátt, kafla 21 - 24.)
Seinni forleikur: Fyrri hjónabönd Hallgerðar Höskuldsdóttur
I. Þorvaldur Ósvífursson.
9. Hallgerður nánar kynnt. Þjóstólfur kynntur til sögu. Þorvaldur Ósvífursson biður Höskuld um hönd Hallgerðar, fær.
10. Hallgerður bregst illa við fregnum. Brúðkaup haldið, en Þjóstólfur og Svanur á Svanshóli, móðurbróðir Hallgerðar, makka með henni. Hrútur með varnagla.
11. Hallgerður hefur allt í sukki og lítillækkar Þorvald þegar hún má. Hann reiðist: Kinnhestur hinn fyrsti. Þjóstólfur drepur Þorvald í Bjarnarey og þótti henni ekki verra.
12. Þjóstólfur kemur heim, Hallgerður sendir hann til Svans á Svanshóli, hún fer heim til föður síns. Með göldrum villir Svanur fyrir þeim sem vilja ná Þjóstólfi. Höskuldur greiðir Ósvífri sonargjöld að ráði Hrúts.
II. Glúmur Óleifsson
13. Kynntir Glúmur og bræður hans, Ragi og Þórarinn Ragabróðir. Glúmur vill biðja Hallgerðar, hún samþykkir og Hrútur samsinnir. Glúmur fastnar sér Hallgerði og allt er kyrrt og hún ánægð.
14. Brúðkaup Hallgerðar og Glúms, þau setjast að á Varmalæk, jörð Þórarins, hún er sæl og fólki líkar við hana vel. Svanur hverfur!
15. Þjóstólfur fær Hallgerði til að leyfa sér að vera - í óþökk Glúms.
16. Deila Þjóstólfs og Glúms, Hallgerður styður Þjóstólf, Glúmur slær hana. Kinnhestur númer tvö. Þjóstólfur glottir.
17. Þjóstólfur drepur Glúm í óþökk Hallgerðar. Hún sendir hann til Hrúts (til að láta Hrút drepa hann). Höskuldur bætir Þórarni bróðurmissi að ráði Hrúts.
Gunnars saga Hámundarsonar
18. Mörður gígja deyr. Unnur bruðlar mjög með fé.
19. Kynntur Gunnar Hámundarson (lýsingin mikla), bræður hans Kolskeggur og Hjörtur.
20. Kynnt hjónin á Bergþórshvoli, Njáll Þorgeirsson og Bergþóra Skarphéðinsdóttir.
Gunnar heimtir fé Unnar, Kaupa-Héðins þáttur
21. Unnur biður Gunnar frænda sinn að heimta fé að Hrúti. Gunnar tekur það að sér og fær ráð Njáls.
22. Fyrsta ráð Njáls: Njáll segir fyrir um ferð Kaupa-Héðins til að villa um fyrir Hrúti og láta hann segja til um málssóknaraðferðir.
23. Allt fer sem Njáll hafði sagt, Gunnar stefnir Hrúti.
24. Gunnar "klúðrar" málinu á þingi, skorar Hrút á hólm, Hrútur vill ekki en greiðir Gunnari fé Unnar. Gunnar mjög sæmdur en því er spáð að þetta verði honum síst til heilla síðar.
25. Kynntir Valgarður grái og Úlfur aurgoði Jörundarsynir. Valgarður biður Unnar og fær hennar án samráðs við ættingja hennar. Fæddur Mörður Valgarðsson, varð síðar slægur og illgjarn og illa til Gunnars.
Njálsssynir
Kynntir synir Njáls, Skarphéðinn, Grímur, Helgi og Höskuldur. Njáll fær Skarphéðni og Grími kvonfangs og þeir eiga bú en sitja þó í foreldrahúsum.
26. Kynntur Ásgrímur Elliða-Grímsson og börn hans, Þórhallar tveir, Grímur og Þórhalla. Njáll vill fá hana fyrir konu Helga sonar síns.
27. Brúðkaup Helga og Þórhöllu. Njáll tekur Þórhall í fóstur, kennir honum lög svo hann verður síðar mestur lögmaður á Íslandi.
Utanferð Gunnars, heimkoma og kvonfang
28. Gunnar ætlar utan með Hallvarði hvíta, vill í austurveg. Njáll gætir bús Gunnars á meðan.
29. Gunnar og Kolskeggur fara utan. Hákon jarl Sigurðarson ræður Noregi. Hallvarður útvegar Gunnari skip og menn Ölvis frænda síns.
30. Gunnar brest við Vandil og Karl, grípur spjót á lofti (a), hlýtur fé og frægð. Gunnar herjar í Austurvegi, hefur jafnan sigur. Gunnar hittir Tófa, fær síðan atgeirinn í bardaga við Hallgrím. Stekkur aftur fyrir sig yfir rá (1). Græðir fé mikið.
31. Gunnar siglir úr Austurvegi með Kolskeggi, Hallvarði og Tófa. Koma til Danmerkur, dvelja hjá Haraldi Gormssyni konungi, skiptast á gjöfum. Gunnar fer til Hákonar jarls í Noregi, leggur hug á Bergljótu frænku hans.
32. Gunnar heldur heim til Íslands sæmdur mjög, öfund í hans garð vex við það. Gunnar brýtur gegn ráði Njáls, fer til þings.
33. Gunnar slær um sig á þingi. Situr dagpart og hjalar við Hallgerði og biður hennar og fær fulltingi Hrúts og Höskuldar. Stefnt er að leynilegu brúðkaupi. Njáll fréttir strax og spáir illu um eftirmál þessa ráðahags.
34. Brúðkaup Gunnars og Hallgerðar. Skyndilegur skilnaður Þráins Sigfússonar við konu sína, Þórhildi skáldkonu, og brúðkaup hans og Þorgerðar, dóttur Glúms og Hallgerðar. (Móðurbróðir Gunnars kvænist dóttur Hallgerðar!) Breytt sætaskipan kvenna.
Deilur Hallgerðar og Bergþóru
35. Vetrarboð að Bergþórshvoli. Bergþóra móðgar Hallgerði. Hallgerður leitar styrks hjá Gunnari, en hann styður Bergþóru gegn konu sinni. Konur hafa í hótunum.
36. Gunnar og Njáll fara til þings. Hallgerður lætur Kol drepa Svart, húskarl Bergþóru. Hallgerður sendir mann til að segja Gunnari. Gunnar og Njáll semja um gjöld eftir Svart, 12 aura silfurs. Bergþóra ræður Atla í "vinnu". Gunnar og Njáll og synir hans fara til þings næsta sumar. Njáll tekur með sér féð eftir Svart. (1:0)
37. Bergþóra lætur Atla drepa Kol, húskarl Hallgerðar. Hallgerður sendir mann til að segja Gunnari. Njáll og Gunnar semja - og peningarnir, 12 aurar silfurs, ganga til baka. (1:1)
38. Gunnar og Njáll fara enn til þings. Hallgerður eggjar Brynjólf rósta vinnumann sinn til að drepa Atla, vinnumann Bergþóru, það gerir hann. Hallgerður sendir enn til þings að segja Gunnari. Þeir Njáll semja og Gunnar greiðir Njáli full manngjöld, hundrað silfurs. (2:1)
39. Enn fara Gunnar og Njáll til þings. Bergþóra fær Þórð Leysingjason, fóstra Njálssona, til að drepa Brynjólf. Smalamaður tilkynnir Hallgerði og hún hefur í hótunum um grimmar hefndir. (2:2)
40. Njáll lætur segja sér fregnir af vígsmáli Þórðar þrem sinnum. Þeir Gunnar semja og manngjöldin ganga til baka.
41. Kynntur Sigmundur Lambason frændi Gunnars (Sigmundur og Rannveig móðir Gunnars bræðrabörn). Hallgerður fær Sigmund og Skjöld til að drepa Þórð með aðstoð Þráins Sigfússonar. Gunnar og Njáll fara enn eina ferðina til þings. Blóðugur hafur og spá Njáls. Bergþóra sendir Þórð í opinn dauðann.
42. Sigmundur, Skjöldur og Þráinn drepa Þórð Leysingjason. Hallgerður sendir menn að tilkynna vígið á Bergþórshvoli og segja Gunnari á þingi. (3:2)
43 Njáll og Gunnar semja og Gunnar bætir Þórð með tvennum manngjöldum. Skarphéðinn lofar að halda sátt nema Sigmundur og Skjöldur brjóti gegn þeim.
44. Hallgerður níðir Njál og syni hans: Karl hinn skegglausi/taðskegglingar. Hún fær Sigmund til að yrkja um þetta, hann er henni eftirlátur. Förukonur bera Bergþóru róginn. Bergþóra eggjar synina til að hefna fyrir níðið og dráp Þórðar. Njáll undrast er synir hans ætla vopnaðir í sauðaleit eða laxveiði. Aftur sauðaleit í 92. kafla.
45. Skarphéðinn drepur Sigmund, Grímur og Helgi Skjöld. Njáll hrósar þeim. Þrjú sumur líða uns Njáll og Gunnar semja, tvöföld manngjöld koma til baka. (3:3)
Samskipti Gunnars og Otkels
46. Kynntir Gissur hvíti Teitsson og Geir goði. Mörður Valgarðsson sagður illur.
47. Kynntur Otkell Skarfsson í Kirkjubæ og bræðurnir Hallkell og Hallbjörn hvíti svo og Skammkell á Hofi, vinur Otkels. Í matar- og heyskorti leitar Gunnar Hámundarson eftir að kaupa af Otkatli, en hann neitar. Þráinn vill æsa Gunnar í hasar, en Gunnar neitar, kaupir Melkólf þræl hins vegar. Njáll tekur þessu illa, tekur saman hey og vistir og færir Gunnari. (Góðar eru gjafar...) (Þáttur Bergþóru.)
48. Gunnar og Njáll eru á Þingi. Hallgerður sendir Melkólf til að stela mat í Kirkjubæ. Hann týnir hníf og belti. Hallgerður ber stolinn mat á borð, Gunnar ærist og slær hana. Þriðji kinnhestur.
49. Skammkell finnur hníf og belti. Hann og Otkell fá ráð hjá Merði til að sanna þjófnaðinn. Gunnar vill bæta en Skammkell fær Otkel til að neita. Hallbjörn skammar Otkel fyrir að hlýða Skammkatli (illt er að eiga þræl að einkavin).
50. Skammkell leitar ráða hjá Gissuri og Geir, þeir vilja sættir en Skammkell lýgur öllu þegar hann kemur til Otkels. Skammkell og Otkell fara til Gunnars og stefna honum fyrir þjófnaðinn. Gunnar sér að þetta eru falsráð Skammkels.
51. Hrútur ræður Gunnari að skora Gissur, Geir og félaga á hólm. Gissur reiðist Skammkatli og lygarnar komast upp. Gissur býður Gunnari sjálfdæmi. Gunnar mælir fram skilmála án þess að ráðfæra sig við aðra (!). Neitar að friðmælast við Otkel meðan Skammkell stjórnar öllum hans gerðum.
52. Kynntur Runólfur Úlfsson í Dal og kynni þeirra Otkels.
53. Otkell og Skammkell heimsækja Runólf í Dal. Gunnar fer út að sá í guðvefjarskikkju og með öxi (!), (sjá einnig 111. kafla um Höskuld Þráinsson), hestur Otkels fælist, hann ríður á Gunnar og særir. Skammkell hæðir Gunnar og egnir hann til hefnda. Runólfur spáir þeim vinum dauða.
54. Otkell, Skammkell, Hallbjörn o.fl. á leið heim frá Dal. Gunnar fregnar af ferðum þeirra og af illmælgi Skammkels í Dal. Fer einn til móts við þá en Kolskeggur eltir. Þeir drepa þá vinina og alls 8 menn. Kona(?) biður Mörð að skakka leikinn en hann neitar, liggur inni. Gunnar grípur spjót á lofti öðru sinni (b). Gunnar segir að sér þyki fyrir að vega menn.
55. Njáll ræður Gunnari að vega aldrei meir í sama knérunn og rjúfa aldrei sátt er góðir menn gera, ella muni hann fá bana. Gissur og Geir fá engan til að sækja mál Otkels á Gunnar. Hlutkesti ræður hvor þeirra neyðist til þess.
56. Geir lýsir vígsökum á hendur Gunnari. Gunnar reynir að ónýta málið og lítur út fyrir stórmæli. Njáll kemur að málinu og samið er um að hinir vitrustu menn dæmi. Við þetta vex virðing Gunnars að mun og margir heita honum tryggðum.
Samskipti Gunnars og Starkaðarsona
57. Kynntur Starkaður Barkarson og synirnir Þorgeir, Börkur og Þorkell og dóttirin Hildigunnur læknir (ekki sú sama og giftist Höskuldi Þráinssyni, kafli 95 og áfr.).
58. Kynntur Egill Kolsson á Sandgili og synirnir Kolur, Óttar og Haukur, vinir Starkaðarsona, og dóttirin Guðrún náttsól, fríð og kurteis. Hildigunnur etur bræðrum sínum til hestaats við Gunnar. Njáll spáir Gunnari sigri en spáir mannfalli og vandræðum í kjölfarið.
59. Höskuldur Dala-Kollsson deyr. Fæddur Höskuldur Þráinsson á Grjótá. Kynntir synir Gunnars og Hallgerðar, Högni og Grani. Hestaatið fer fram, Starkaðarsynir svindla og Þorgeir Starkaðarson hótar Gunnari bana. Gunnar gerist vinur Ólafs Pá, hálfbróður Hallgerðar.
60. Gunnar skorar Úlf Uggason á hólm til að hjálpa Ásgrími Elliða-Grímssyni. Njáll varar Gunnar við Starkaðarsonum. Gunnar fer ásamt bræðrum sínum að heimsækja Ásgrím - vill ekki taka Njálssyni með.
61. Þeir bræður heimsækja Ásgrím. Starkaður og menn hans og Egill í Sandgili og menn hans sitja 30 fyrir Gunnari og þeim bræðrum við Knafahóla við Rangá.
62. Bræður á heimleið. Gunnar dreymir fyrir bardaganum og dauða Hjartar.
63. Bardaginn við Knafahóla fer eins og Gunnar dreymdi. Hjörtur veginn og 14 af 30 hinna áður en þeir leggja á flótta.
64. Steinvör, systir Starkaðar, kona Egils í Sandgili fær Þorgrím austmann til að taka við búi, gefur honum dóttur og fé. Gunnar fær ráð hjá Njáli um eftirmál víganna við Knafahóla. Gunnar og Njálssynir grafa upp líkin og stefna öllum.
65. Mörður eggjar Þorgeir Starkaðarson til málaferla á hendur Gunnari. Mörður afræður að biðja Þorkötlu Gissurardóttur og þau eru gefin saman. Þetta er pólitískt brúðkaup, sjá aftur t.d. 135. kafla. Bæði lið til þings: Gunnar og hans menn og Þorgeir/Mörður og þeirra lið.
66. Gunnar og Njálssynir og Sigfússynir ganga um snúðugt, andstæðingarnir ganga í hóp Gissurar og Geirs. Njáll og Mörður fara með málin og deila. Hjalti Skeggjason fær Gunnar til að samþykkja að góðir menn dæmi. Samið og enginn talinn jafningi Gunnars að sæmd á Suðurlandi. Hann á mikið fylgi en margt hatur.
Samskipti Gunnars og tveggja Þorgeira, Starkaðarsonar og Otkelssonar
67. Kynntur Þorgeir Otkelsson. Mörður ræður Þorgeiri Starkaðarsyni að flækja Þorgeiri Otkelssyni í málin. Þannig geti hann látið Gunnar drepa hann og vega með því tvisvar í sama knérunn. Með því verði unnt að koma fram hefndum við Gunnar.
68. Þorgeir Starkaðarson ginnir nafna sinn Otkelsson til vináttu. Gunnar sendir alla karla að heiman til starfa. Þorgeir Otkelsson fær nafna sinn með sér í aðför að Gunnari.
69. Þeir nafnar verða syfjaðir. Njáll fregnar af aðförinni, sendir til Gunnars svo hann safni liði á Grjótá en fer sjálfur til nafnanna og segir þeim að Gunnar sé að koma með liði. Þeir flýja óttaslegnir heim. Njáll leggur til að fyrir fjörráðin komi fébætur og hann geymi féð ef Gunnar þurfi að nota það síðar.
70. Nafnarnir fela Njáli óttaslegnir að leita sátta og dæma í málinu. Njáll dæmir þá til mikilla fjársekta og geymir féð. Gunnar ríður vestur í Dali til Ólafs pá og þiggur gjafir, gullhring, skikkju Mýrkjartans og hundinn góða, Sám. Ólafur segir Gunnar ágætastan mann um land allt.
71. Enn leita þeir nafnar til Marðar, þykjast hafa tapað á fyrra ráði og vilja annað betra. Mörður vill að Þorgeir Otkelsson fífli Ormhildi frændkonu Gunnars til að magna hjá honum hatur. Enn að ráði Marðar sitja nafnar, alls 26 manna lið, fyrir Gunnari og Kolskeggi við Rangá.
72. Barist við Rangá. (Blóð féll á atgeirinn.) Þorgeir Starkaðarson eggjar nafna sinn til að fara gegn Gunnari og hefna föður síns, Gunnar vegur hann (hefur þá vegið tvisvar í sama knérunn). Hinir flýja í snatri, enda tilgangi Þorgeirs Starkaðarsonar og Marðar náð.
73. Njáll varar Gunnar við, síðasta hlámstráið að halda sætt sína eftir víg Þorgeirs Otkelssonar, annars fái hann bana. Gunnar lofar í fyrsta sinn að halda sætt. Gissur hvíti sækir mál Þorgeirs á þingi.
74. Njáll leggur til að málið verði lagt í gerðardóm 12 manna. Svo dæmist að Gunnar greiði fé, hann (og Kolskeggur) fari utan í þrjá vetur, sé ella réttdræpur. Njáll spáir Gunnari sæmd og löngum aldri ef hann fer utan, fái ella skjótt bana. Gunnar lofar öðru sinni.
Utanförin, sem aldrei var farin, og undirbúin aðför að Gunnari
75. Þráinn Sigfússon fer utan. Grímur og Helgi vilja fara, Njáll vill ekki og spáir vandræðum ef þeir fari, lætur þó undan. Gunnar og Kolskeggur undirbúa ferð sína. Hesturinn hnýtur - Fögur er hlíðin, Gunnar snýr aftur en Kolskeggur vill ekki níðast á því sem honum er til trúað, fer. Hallgerður gleðst yfir að Gunnar skuli ekki fara. Ólafur pá býður Gunnari vestur en hann fer ekki. Gissur lýsir Gunnar sekan og óvinalið hans kemur sér saman um aðför, 40 saman. Flestir vinir Gunnars eru farnir utan. Njáll vill að Skarphéðinn og Höskuldur verði með Gunnari, hann afþakkar. Gunnar biður Njál fyrir Högna son sinn, Grani er að hans mati upp á móðurhöndina. Gunnar gerir ekkert til að dyljast heldur fer víða sem ósekur maður.
76. Gunnar einn karlmanna heima. Óvinaflokkurinn sendir mann af næsta bæ til að lokka Sám burtu. Sámur er drepinn.
77. Gunnar vaknar (Sárt ertu leikinn Sámur fóstri...), fjandmannafjöld ræðst að Gunnari sem verst með boga út um glugga. Þeir hörfa þrisvar og þá skýtur Gunnar að þeim einni ör þeirra. Tvívegis leggur Mörður til að brenna Gunnar inni. Gissur neitar, þekjan er rofin og höggvinn bogastrengur. Hallgerður man kinnhestinn. Gunnar verst hetjulega en fellur fyrir ofurefli.
Hefndir, þáttur Skarphéðins og Högna
78. Rannveig heimtar hefnd, Hallgerður og Grani hrekjast undan henni til Grjótár. Gunnar birtist tvisvar sitjandi og glaður í haugnum. Segist ekki hafa viljað vægja fyrir óvinum sínum. Högni og Skarphéðinn undirbúa hefnd.
79. Högni tekur atgeirinn, þeir Skarphéðinn fara og drepa Hróald og Tjörva að Odda, Starkað og Þorgeir að Þríhyrningi og ætla síðan að drepa Mörð á Hofi. Mörður biður þá vægðar og býður alsættir. Skarphéðinn vill að Högni fái sjálfdæmi, Högni hafði ekki ætlað að sættast við föðurbana en lætur til leiðast.
80. Gert út um málin, fullar sættir. Geir goði og Högni sættast og eru úr sögunni - eftir að Njáll hefur gift Högna.
81. Eftirmáli, um Kolskegg þegar Kristur vitrast honum í Danmörku. Hann tekur skírn, gerist væringi í Miklagarði, kvænist og er úr sögunni.
Saga Njáls og sona hans
Inngangur: Utanför Gríms og Helga og vandræði af Þráni
82. Þráinn Sigfússon er í Noregi, fer á fund Hákonar jarls, notfærir sér skyldleika við Gunnar á Hlíðarenda, sem jarl telur að ekki eigi sinn jafningja á Íslandi. Þráinn tekst á hendur fyrir jarl að drepa útlagann Kol, fær skip og menn, fellir Kol og græðir í víkingu. Jarl launar Þráni með vináttu og skrautbúnu skipi. Fall Gunnars spyrst til Noregs, jarl vill ekki að Þráinn fari heim.
83. Grímur og Helgi lenda í villum og hrakningum á leið til Noregs. Lenda í víkingum við Skotland og berjast við ofurefli.
84. Kári Sölmundarson stekkur inn í söguna frelsandi engill. Gengur til liðs við Njálsyni. Er eins og Gunnar, berst hetjulega, stekkur aftur fyrir sig yfir rá, (2) en grípur ekki spjót á lofti eins og Gunnar í þetta sinn, víkur sér undan því.
85. Kári er hirðmaður Sigurðar jarls á Orkneyjum, tekur Njálssyni með sér þangað. Helgi er forspár eins og Njáll og segir jarli af yfirvofandi uppreisn.
86. Njálssynir og Kári í herförum með jarli. Nú grípur Kári spjót á lofti (c) eins og Gunnar. Þeir félagar hljóta mikla sæmd. Njálssynir vilja fara til Noregs, Kári ætlar á eftir þeim þangað.
87. Hrappur Örgumleiðason: Svíkur sér far til Noregs með mútum, kjaftar sig inn á Guðbrand í Dal, vin jarls, skemmtir fólki, barnar Guðrúnu dóttur Guðbrands, drepur Ásvarð verkstjóra Guðbrands og hælist af, storkar Guðbrandi og leggur á flótta, leynist í grenndinni, á leynifundi með Guðrúnu, er dæmdur útlægur og fé lagt til höfuðs honum.
88. Njálssynir koma til Noregs og bíða Kára. Þráinn búinn til heimferðar. Hrappur brennir hús Guðbrands meðan jarl er þar í veislu. Hann leitar ásjár Njálssona en þeir neita. Leitar ásjár Þráins, mútar honum og Þráinn felur hann á skipi sínu. Jarl veitir Hrappi eftirför, leitar hjá Njálssonum, þeir vilja Þráni vel og segja ekki til Hrapps. Jarl margleitar á skipi Þráins en finnur ekki. Njálssynir bíða byrjar við ey, skammt frá. Þráinn siglir til Íslands, fær Hrappi bú á Hrappsstöðum en hann er mest heima á Grjótá og spillir öllu, m.a sagður í tygjum við Hallgerði (hæfir kjafti skel?).
89. Jarl ræðst á Njálssyni í reiði gegn ráðum Sveins sonar síns. Njálssynir teknir og bundnir, ekki mátti vega þá um nótt (=morð). Þeir sleppa og finna Kára, sem kemur á sáttum fyrir orð Eiríks jarlssonar. Hljóta af honum virðingu og gjafir. Fara til Orkneyja, eru í hernaði með Kára gegn því að hann komi til Íslands með þeim.
90. Kári og Njálssynir fara til Íslands. Kári kvænist Helgu Njálsdóttur, þau eiga bú á Dyrhólmum en eru stöðugt heima á Bergþórshvoli, eins og yfirleitt öll börn Njáls og Bergþóru.
Samskipti Njálssona og Þráins eftir heimkomuna
91. Njálssynir fá Ketil árangurslaust til að leita bóta hjá Þráni vegna vandræðanna sem þeir hlutu af að hylma yfir flótta Hrapps. Njáll ræður þeim að segja sem flestum frá svo óvild vaxi í garð Þráins, spáir að enda muni með vopnaskiptum. Njálssynir og Kári fara til Grjótár (allir séum vér velkomnir!), munnhöggvast við Þráin, Hrapp og Hallgerði. Njálssynir fara heim, ætla að sækja með vopnum, Bergþóra espar þá.
92. Þráinn og félagar fara til Runólfs í Dal, snauðar konur segja Bergþóru frá. Runólfur og Ketill í Mörk reyna að fá Þráin til sátta, án árangurs. Bergþóra, Njálssynir og Kári makka án vitundar Njáls, þeir fara glæsibúnir og vopnaðir, segja Njáli að þeir ætli í sauðaleit (sjá áður í 44. kafla). Bardagi við Markarfljót - fótskriða Skarphéðins. Heggur Þráin, jaxlar falla á ísinn. Skarphéðinn geymir jaxl í pússi sínum, sjá 130. kafla. Hrappur drepinn. Skarphéðinn tekur hvelpa tvo, Grana Gunnarsson og Gunnar Lambason, gefur þeim grið ásamt Lamba Sigurðarsyni og Loðni. Helgi spáir að eftir því muni hann sjá. Njáll spáir að af hljótist bani a.m.k. eins sona sinna.
Samskipti Njáls og Njálssona við Höskuld Hvítanesgoða
93. Ketill úr Mörk fær bætur hjá mágum sínum fyrir bróður fallinn. Njáll semur við Ketil um að Höskuldur Þráinsson komi til fósturs á Bergþórshvol. Þorgerður Glúmsdóttir samþykkir svo fremi Ketill hefni Höskuldar verði hann felldur.
94. Vinahjal Njáls og Höskuldar, sem fer með Njáli. Höskuldi lýst vöxnum sem sannri hetju.
95. Kynntur Flosi Þórðarson og bræður og kona hans Steinvör Síðu-Hallsdóttir. Kynnt Hildgunnur Starkaðardóttir Þórðarsonar, bróðurdóttir Flosa (fögur, grimm!). Allt önnur kona en alnafna hennar sem hvatti til hestaatsins (58. kafli).
96. Kynntur Síðu-Hallur Þorsteinsson og synir hans, m.a. Þorsteinn. Kynntur Holta-Þórir og synir, m.a. Þorgeir skorageir.
97. Njáll biður Hildigunnar Starkaðardóttur til handa Höskuldi fóstra. Hildigunnur og Flosi samþykkja svo fremi Höskuldur fái goðorð. Njáll biður um þriggja vetra frest, reynir að kaupa goðorð en enginn vill selja. Sagt frá klækjum Njáls: að sýna fram á nauðsyn þess að stofna Fimmtardóm og fjölga goðorðum. Hann fær að stofna goðorð í Hvítanesi handa Höskuldi. Brúðkaup, og Njáll kaupir hjúunum land í Ossabæ. Heit vinátta Njálssona og Höskuldar.
Lýtings þáttur (fyrri) og fall Höskuldar Njálssonar
98. Kynntur Lýtingur á Sámsstöðum, kona: Steinvör systir Þráins, þau fengu engar bætur eftir hann, hún er kona! Boð á Sámsstöðum, Höskuldur Þráinsson, Grani, Gunnar og Lambi. Þau hjón vilja að Höskuldur hefni föður síns og drepi nafna sinn Njálsson, hann neitar og fer í fússi. Grani og hinir neita allir að rjúfa góðra manna sátt. Lýtingur fer með bræðrum sínum Hallsteini og Hallgrími og drepur Höskuld Njálsson. Hróðný fer með líkið til Njáls, lætur Skarphéðin veita Höskuldi nábjargir og biður hann hefna. Bergþóra eggjar syni sína enn.
99. Njálssynir sitja fyrir Lýtingi og bræðrum hans. Skarphéðinn fellir bræðurna en Lýtingur kemst sár undan og fer til Höskuldar Hvítanesgoða, biður hann að leita sátta. Njáll og Höskuldur semja, öndvert við vilja Njálssona, sem voru ekki við.
Kristniþáttur
100. Ólafur Tryggvason hefur komið á kristni í Noegi, vill kristna Íslendinga. Njáli líst vel á nýju trúna, "þylur einn saman." Þangbrandur kemur, Síðu-Hallur og hans fólk taka skírn.
101. Kristniboð Þangbrands, aðstoð Halls, prímsigning Flosa.
102. Njáll og hjú taka kristni, Mörður og Valgarður faðir hans tala gegn trúnni. Þangbrandur lendir í ýmsu mótlæti.
103. Kynntur Gestur Oddleifsson, vitur og sér örlög manna. Tekur trú ásamt sínu fólki eftir jarteikn um að Kristur sé meiri en Þór.
104. Þangbrandur fer til Noregs, kvartar yfir Íslendingum. Ólafur konungur tekur Íslendinga í gíslingu. Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason ganga í ábyrgð og lofa að kristna Íslendinga. Heiðnir og kristnir á þingi.
105. Kynntur Þorgeir Ljósvetningagoði. Hart deilt á þingi og liggur við bardaga. Síðu-Hallur fær Þorgeir til að segja upp lög um trú. Liggur undir feldi. Segir upp kristin lög með undantekningum til bráðabirgða. Friður.
Viðauki við Lýtingsþátt: Ámundi blindi
106. Ámundi blindi, sonur Höskuldar Njálssonar, vill fá Lýting til að bæta sér föðurmissi. Kristilegt kraftaverk: Fær sjón, drepur Lýting og tapar sjóninni aftur. Sæst.
Samskipti Njáls og Njálssona við Höskuld Hvítanesgoða, framhald
107. Valgarður grái öfundast yfir því að Höskuldi Hvítanesgoða vegnar vel og menn fara til hans úr goðorði Marðar. Hann ráðgerir að vekja róg milli Höskuldar og Njálssona, þeir drepi Höskuld og verði drepnir fyrir. Minnir Mörð á að Skarphéðinn hafði af honum fé eftir fall Gunnars. Þeir feðgar deila um trú og Valgarður andast eftir að spilla kristnum táknum Marðar.
108. Mörður smjaðrar fyrir Njálssonum og Kára. Njál grunar að illt muni af leiða.
109. Höskuldur og Njálssynir hafa boð til skiptis, vinátta trygg. Mörður fer á milli með rógsögur, fjórar fyrir Höskuldi, fjórar fyrir Njálssonum. Höskuldur trúir aldrei en svo fer að Njálssynir trúa og leggja fæð á Höskuld. Höskuldur fer til Flosa, afþakkar að flytja þangað, þiggur skikkju fagra af Flosa, er vinsæll en óvild vex með honum og Njálssonum. Rifjað upp fóstur Njáls.
110. Mörður eggjar Njálssyni og Kára til að drepa Höskuld, þeir segja hvorki Njáli né Bergþóru en Njáll hefur illan grun.
111. Höskuldur sáir í skikkju Flosa, eins og Gunnar sáði í guðvefjarskikkjunni (53). Njálssynir Kári og Mörður fella Höskuld allir, svo sök lendi á öllum (Skarphéðinn fyrstur). Höskuldur biður guð hjálpa sér en fyrirgefa þeim. Mörður makkar en Njáll segir þetta boða dauða sinn, konu sinnar og sona sinna allra, Kári muni öllum drjúgari verða. Loks leggur Mörður hönd að sínum illverkum.
112. Hildigunnur varðveitir Flosanaut, skikkju Höskuldar, blóðuga. Þorgerður minnir Ketil á að hann hét því að hefna eftir Höskuld. Ketill í klemmu, mágur Njálssona og föðurbróðir Höskuldar. Mörður freistar þess að fá að búa málin. Njálssynir leita liðs Ásgríms Elliða-Grímssonar, hann lofar en líst illa á blikuna.
Eftirmál eftir Höskuld Hvítanesgoða: Undirbúningur heima í héraði
113. Kynntur Guðmundur ríki Eyjólfsson, mestur höfðingi nyrðra, vinur Ásgríms.
114. Kynntur Snorri goði Þorgrímsson og Þórdísar Súrsdóttur, vitrastur Íslendinga.
115. Flosi reiður en stilltur við frétt af víginu. Safnar liði til þingfarar, heimsækir Runólf í Dal, sem varar hann sérstaklega við Merði, biður hann að bíða góðra kosta frá hendi Njáls.
116. Flosi kemur í Ossabæ, Hildigunnur tekur á móti honum sem höfðingja, hann reiðist, veit að hún mun freista alls til að hann hefni. Hildigunnur hlær og grætur og hefur uppi látbragð, spyr hvernig hann ætli að hefna. Eggjar Flosa með því að steypa yfir hann blóðugri skikkjunni sem hann hafði gefið Höskuldi, hann verði að hefna allra sára á honum, ella heita níðingur. Flosi reiðist ofboðslega, roðnar, fölnar, blánar. Kynntur Ingjaldur á Keldum, móðurbróðir Höskuldar Njálssonar, kvæntur bróðurdóttur Flosa. Flosi krefur hann til fylgis, Ingjaldur í mikilli klemmu ætta og tengda (líkt og Ketill Sigfússon).
117. Sigfússynir og fleiri ríða til móts við Flosa. Ketill segist vilja sættir en neyðast til hefnda vegna eiða. Grani og Gunnar Lambason tala hátt um hefndir. Flosi vara menn við því þetta kunni að leiða til mikils mannfalls og fjárútláta. Mörður kjaftar sig inn á Flosa, Flosi vill binda hann að tryggðum með hjónabandi Rannveigar Marðardóttur og Starkaðar bróðursonar síns. Mörður vill fresta því fram yfir þing. Ríða til þings saman.
118. Njálssynir undirbúa þingför. Njáll ætlar sóma síns vegna að láta þá njóta þeirra vinsælda sem hann á. Njálssynir skopast að Þórhalli fósturbróður sínum, Njáll hrósar honum, enda strákur forspár. Holta-Þórissynir, Hjalti Skeggjason og Ásgrímur Elliða-Grímsson í liði Njálssona. Riðið til þings.
Málabúnaður á Alþingi
119. Síðu-Hallur reynir að biðja Flosa sátta, Flosi ekki beint á þeim buxum. Njáll og Ásgrímur ræðast við lengi, Ásgrímur hvetur Njálssyni til að tryggja sér allan stuðning sem þeir mega. Í einni röð: Ásgrímur, Helgi, Kári, Grímur, Skarphéðinn, Þórhallur og Holta-Þórissynir. (Hver er sá maður -> hæðni Skarphéðins.) Gissur hvíti játar liðsstyrk, Skafti Þóroddson neitar, Snorri goði lofar að vera ekki á móti, Hafur auðgi neitar, Guðmundur ríki lofar að vera ekki á móti, seinna geti komið til liðsstyrks. Kynntur Þorkell hákur Þorgeirsson Ljósvetningagoða og afrek hans.
120. Liðs leitað hjá Þorkeli hák, hann neitar. Lýst nákvæmlega útliti og klæðaburði Skarphéðins. Skarphéðinn og Þorkell deila og Skarphéðinn mokar fúkyrðum og hótar að drepa Þorkel, sem leggur niður skottið. Guðmundur ríki hrífst svo af þessu að hann skipar Einari Þveræingi að fara með allt sitt lið til liðs við Njálssyni.
121. Mörður hefur selt málssókn í hendur Sigfússonum. Liðsmenn Njálssona og Mörður hittast. Ágrímur rekur málavöxtu fyrir mönnum, bendir á að Mörður hafi verið valdur að því sári sem enginn hafði verið til nefndur, því sé líklegt að málið sé ónýtt. Þórhallur vill umfram allt að þetta fari leynt þar til málinu hefur verið lýst opinberlega á Lögbergi. Liðin standa hvort andspænis öðru við Lögberg, Sigfússynir flytja en Þórhallur lýsir málið ónýtt.
122. Njáll heldur langa tölu, segir að hann hefði heldur viljað missa alla syni sína en Höskuld o.s.frv. og vill að nú verði sæst og bestu menn dæmi. Síðu-Hallur fær Flosa loks til að sættast. Nefndir 12 menn í gerð og Njáll og Flosi og Sigfússynir takast í hendur.
123. Snorri goði, Síðu-Hallur og Guðmundur ríki taka forystu í dómnum. Höskuldur metinn til þrennra manngjalda, 6 hundraða silfurs. Dómendur heita að leggja fram helminginn en allt skuli greiðast á þinginu og eru þingmenn hvattir til að leggja fram skerf eftir getu. Fé borið saman og Njáll bætir við skartklæðum og slæðum. Skarphéðinn strýkur enni og glottir. Flosi skopast að slæðunum og hefur uppi róg um kynferði Njáls, Skarphéðinn tryllist og vænir Flosa um ergi. Sættir fjúka út í veður og vind, Gissur og Hjalti geyma féð til næsta þings.
Aðdragandi Njálsbrennu
124. Flosi stefnir sínum mönnum í Almannagjá. Þeir sverjast í bandalag að drepa Njálssyni síðla sumars, eftir heyskap. Að ráði Ketils er Flosi höfðingi hópsins, en hann vill leyna Síðu-Hall málabúnaði. Njáll, synir hans og Kári eru heima um sumarið. Hróðný fær Ingjald bróður sinn til að skorast undan bandalaginu, Njáll þakkar henni. Sæunn kerling klifar um arfasátuna. Fyrirboði.
125. Innskot: Hildiglúmur Runólfsson sér sýnir, gandreið. Hjalta Skeggjasyni sagt. Fyrirboði.
126. Flosi og þeir búa sig til ferðar, ganga í kirkju og hittast síðan á Þríhyrningshálsi allir nema Ingjaldur. Flosi segir að hann fái að kenna á því síðar.
127. Grímur og Helgi fara að heiman, hitta förukonur og frétta af liðssafnaði Sigfússona að Þríhyrningshálsi. Síðasta kvöldmáltið að Bergþórshvoli að forsögn Bergþóru. Spáir líka heimkomu Gríms og Helga. Njáll sér blóð um alla stofu. Skarphéðinn hvetur alla til að bera sig vel. Grímur og Helgi koma og Njáll biður alla að vaka. Fjölmargir fyrirboðar.
Aðförin að Bergþórshvoli - brennan
128. Flosi kemur með lið sitt að Bergþórshvoli. Njáll og lið hans, 30 manns, úti, en Flosi telur þá ósigrandi þannig. Skarphéðinn telur lið Flosa harðsnúið, en sér það hika. Njáll vill að allir gangi inn og verjist (eins og Gunnar gerði á Hlíðarenda). Skarphéðinn telur það óráð, hér séu ekki sömu heiðursmenn og þeir sem ekki töldu sæmandi að brenna bæ Gunnars. Njáll ávítar syni sína fyrir óhlýðni, þeir láta segjast. Skarphéðinn segist geta gert það föður sínum til geðs að brenna inni með honum. Kári lofar Skarphéðni að hefna nái hann að komast lifandi af. Flosi segir þá feiga þegar þeir ganga inn. Njálssynir verjast vel en Flosamenn geta fátt gert. Flosi sér tvær leiðir, flýja og verða drepinn eða brenna bæinn og hljóta óþökk guðs.
129. Kveikt bál, konur slökkva með sýru. Arfasátan umtalaða - og þakið logar. Njáll hughreystir fólk með guðsblessun, biður Flosa að sættast við syni sína en hann neitar, leyfir þó konum, börnum og húskörlum útgöngu. Helgi laumast úr dulbúinn en Flosi drepur hann. Hann býður Njáli og Bergþóru að ganga út. Njáll vill ekki við það búa að geta ekki hefnt sona sinna, Bergþóra vill vera með manni sínum, leggjast í flet með Þórð Kárason milli sín og breiða á sig húð, fela sig guði á vald. Skarphéðinn, Grímur og Kári skjóta úr brennandi bænum öllu sem þeir mega. Kári og Skarphéðinn deila um það hvor skuli fyrr fara brott og dyljast með reyknum. Kári fer, kemst í læk og slekkur eld.
130 Skarphéðinn reynir að fara sömu leið og Kári, mistekst. Gunnar Lambason klifrar upp vegginn og þeir Skarphéðinn hæðast hvor að öðrum uns Skarphéðinn kastar í hann jaxli úr Þráni, svo kemur í andlit Gunnari og liggur úti augað. Grímur og Skarphéðinn reyna að troða eldana, Grímur fellur dauður niður og Skarphéðinn verður undir er þekjan fellur. Flosa sagt að Kári hafi komist undan með sverðið Fjörsváfni sem hann ætlaði að herða í blóði brennumanna. Flosi telur að þeim sé hætta búin, vill að menn ríði þegar brott og býður mönnum heim með sér, telur hér unnið mikið illvirki og menn skuli ekki hælast af. Fyrst farið til Ingjalds í Keldum, Flosi vill fela honum sjálfdæmi en hann neitar. Flosi skýtur spjóti í fót Ingjaldi, hann drepur Þorstein bróðurson Flosa með sama spjóti og flýr. Flosi telur þetta til marks um ógæfu sem þeir hafi leitt yfir sig, ríða á Þríhyrning til að verjast.
Liðssafnaður Kára - gengið frá brunarústum að Bergþórshvoli
131. Kári ríður til Marðar og segir tíðindi af brennu, hvetur hann til að koma með sér. Fer til Hjalta Skeggjasonar, hittir Ingjald blóðugan. Þeir fara þrír með liði og leita Flosa, finna ekki. Menn hitta Þorgeir skorageir, bróðurson Njáls, hann býður Kára að vera, vill sektir og mannhefndir. Þeir eftirfararmenn hittast að Hofi og þykir miður að hafa engan fundið brennumanna. Sumir vilja fara og taka bú þeirra, Mörður aftekur það, menn muni þá ekki koma og vitja þeirra. Flosi skynjar þessa hættu og lætur brennumenn alla koma að Svínafelli. Flosi hælist aldrei af brennunni.
132. Hjalti fer með Kára að leita beina Njáls. Njáll, Bergþóra og Þórður finnast óbrunnin. Skarphéðinn finnst, brunnir af fætur en annað óbrunnið, hendur í kross og krossmark í bak og fyrir. Þorgeir skorageir fær öxi hans. Bein Gríms finnast og alls bein ellefu manna. Ásgrímur Elliða-Grímsson býður Kára að vera og öðrum frá Bergþórshvoli. Þórhalli Ásgrímssyni bregður svo við fregnir af dauða Njáls að blóð stóð úr báðum eyrum og hann féll í óvit. Ásgrímur fær Gissur hvíta til að skipuleggja framhaldið: mál á hendur Flosa fyrir víg Helga og Mörður skuli með góðu eða illu sækja brennumálið, enda sé flest runnið undan rifjum hans. Kári má ekki sofa, talar mjög um Njál og Skarphéðin en hallmælir aldrei óvinum sínum.
Undirbúningur brennumála
133. Draumur Flosa um jötuninn með járnstaf í hendi. Ketill ræður drauminn, allir séu feigir sem í drauminn komu. Eftir jól hvetur Flosi menn til liðsbónar.
134. Flosi fer liðsbón austur. Fyrst til Síðu-Halls, sem heitir stuðningi og ræður Flosa að fara allt norður til Vopnafjarðar. Flosi fær til liðs við sig fjölmarga mektarmenn, suma með fémútum en aðrir vilja styðja hann sem bróðir væri. Hallur ræður þeim Flosa að hafa kyrrt um sig og halda hópinn, senda menn á bú sín en dreifast ekki sjálfir.
135. Kári og Þórhallur ríða til Gissurar á Mosfelli. Gissur ræður Kára að ríða austur, taka með sér Þorgeir skorageir, Þorleif krák og Þorgrím mikla, fara svo til Marðar og láta hann taka að sér að fara með mál eftir Helga Njálsson, hafa í hótunum ef ekki vill betur til. Mörður færist undan, Kári hótar að taka frá honum konu hans, Þorkötlu Gissurardóttur hvíta. Sjá 65. kafla. Mörður tekur þá málið að sér og hefur mikinn vottaformála. Þórhalli lýst fullorðnum og sagt fá graftarmeini í fæti hans. Ásgrímur ræður því að þeir Kári og Þórhallur fara snemma til þings.
136. Flosi og brennumenn fara austan, Sigfússynir koma við á búum sínum. Flosi stefnir mönnum að Tungu að troða illsakir við Ásgrím. Ásgrímur og Kári sjá hvar þeir koma, fara inn og lagt er á borð. Brennumenn koma og er boðið til borðs, spenna magnast uns Ásgrímur grípur öxi og vill höggva Flosa, er stöðvaður. Flosi biður menn ganga brott, Ásgrímur hafi sannað að hann sé ofurhugi. Ríða til Laugarvatns og hitta aðra menn sína, Síðu-Hallur verður æfur út af aðförinni að Ásgrími.
137. Þorgeir skorageir kemur austan með miklu liði, taka Mörð með, síðan Hjalta Skeggjason, þá Ásgrím og loks Gissur. Brennumenn grípa til vopna af ótta þegar þetta lið kemur á þingstað. Ekki kemur til vopnaskaks að sinni.
138. Kynntur Eyjólfur Bölverksson, mikið höfðingjaefni, afar fégráðugur. Bjarni Brodd-Helgason ræður Flosa að fá hann til að flytja mál brennumanna. Flosi heldur áfram á þingi að kaupa sér stuðning með fé. Með miklu smjaðri Bjarna og gríðarlegu gullarmbandi Flosa fæst Eyjólfur til verks en vill að leynt fari um sinn. Snorri goði fregnar þó fljótt.
139. Kári og menn hans fregna frá Snorra um leynimakk Flosa. Fara liðsbón á þingi, Gissur, Hjalti, Ásgrímur, Kári og Þorgeir skorageir. Skafti Þóroddson neitar, Snorri goði segir fyrir um gang mála, heitir stuðningi ef þörf sé.
140. Liðs leitað hjá Guðmundi ríka, hann er manna fúsastur, segir Þorstein holmunn Skaftason í sínu liði og það muni hafa áhrif á andstöðu Skafta.
Brennumálin og bardagi á þingi
141. Mál borin upp á þingi. Mörður nefnir votta að vígi Flosa á Helga Njálssyni. Þorgeir nefnir votta að því að Glúmur Hildisson bar eld inn í bæ á Bergþórshvoli. Kári og hinir nefna votta að glæpum annarra brennumanna. Eyjólfur sér enga vörn nema Flosi selji Þorgeiri bróður sínum goðorð og eyða megi málum vegna þess að þau voru ekki flutt í réttum héruðum.
142. Mörður sækir mál og nefnir votta til allra illverka, Eyjólfur nefnir votta og ryður mönnum og gengur svo lengi uns hann ryður öllu máli Marðar. Sent til Þórhalls sem á það ráð til að nefna nýja menn í dóm og gengur svo aftur og aftur.
143. Eyjólfur skýtur fram leynivopninu, ranglega nefnt í dóma og Flosi sé ekki lengur goði. Enn eru óefni hjá Merði.
144. Þórhallur finnur eina smuguna enn. Mörður reifar mjög mál með formálum löngum. Verður enn á skyssa og Eyjólfur ónýtir málflutninginn sem fyrr.
145. Þórhallur reiðist svo að hann þrífur spjót og rekur í fót sér svo út gengur gröftur og blóð, veður svo í fimmtardóm og stingur Grím rauða á hol, frænda Flosa. Kári segir illt ef Þórhallur einn hafi manndóm til að hefna eftir Njálsbrennu. Hefst upp mikill bardagi á þingi, allur þingheimur berst þann dag. Næsta dag gengur Síðu-Hallur fram og fær hljóð, býður jafnsætti. Kári segist aldrei sættast á að felldir menn á þingi jafnist á við þá sem inni brunnu. Þorgeir samsinnir. Kári grípur sterkar til skáldskapar síns en fyrr, yrkir miklar háðvísur um Skapta. Hallur biður menn að sættast og vill að Gissur kveði upp dóma. Snorri goði flytur langa ræðu sama efnis. Góðir menn gera um brennumálin: Flestir skulu bættir mörgum manngjöldum. Flosi og allir brennumenn dæmdir til utanferðar, hafa þriggja ára frest til að koma sér úr landi og sumir mega ekki koma til baka (Grani Gunnarsson, Gunnar Lambason, Glúmur Hildisson og Kolur Þorsteinsson). Mikil heimboð hjá Gissuri, Hjalta, Ásgrími og þeim. Brennumenn fara austur og eru varir um sig, öfunda Síðu-Hall sem einn manna fékk bætur í þessari gerð.
Hefnd Kára og Þorgeirs skorageirs
146. Kári og Þorgeir ríða austur, hitta konur og síðan mann, sem vísa þeim á Sigfússyni. Koma að þeim sofandi við Kerlingardalsá. Taka frá þeim spjót og vekja. Þorgeir fellir Þorkel Sigfússon og annan með Rimmugýgi. Kári hafði spjót og sverð og felldi Sigurð Lambason og Mörð Sigfússon. Báðir fella Leiðólf en Lambi Sigurðarson hleypur á flótta og aðrir Sigfússynir flýja að Svínafelli. Um vorið kemur Síðu-Hallur og hvetur Flosa til að sættast við Þorgeir. Spáir að það bæti en samt verði nokkur mannlát. (Kári hefur við annan mann fellt 5 brennumanna.)
147. Síðu-Hallur fer að finna Þorgeir, Kári er þar. Hallur mælist til sátta og Þorgeir er jákvæður en Kári telur ekki fullhefnt. Þorgeir vill ekki sættir fyrr en Kári. Efnt til sáttafundar. Flosi mærir Kára, vildi engum frekar líkjast. Þorgeir og Flosi semja um að allt skuli standa sem dæmt var á þingi og hvergi slá af. Hallur ræður Flosa að halda þessa sátt.
Hefnd Kára með Björn hvíta að baki
148. Þegar Þorgeir kemur af sáttafundi vill Kári fara brott, vill síst að Þorgeir verði samsekur þegar hann taki til hefnda á ný. Felur Þorgeiri umsjá bús síns og fjölskyldu. Fer í Mörk, finnur Björn hvíta. Valgerður Þorbrandsdóttir neyðir Björn til að vinna karlmannlega með Kára. Björn ber út lygisögur um norðurferð Kára.
149. Flosi og félagar undirbúa utanför, fara austur á Hornafjörð, kaupa skip af Eyjólfi nefi. Fara þó ekki strax. Flosi áminnir menn enn að halda hóp og dreifa sér ekki. Rifjar upp draum sinn og ráðningu hans. Sigfússynir og fleiri fara þó til búa sinna að safna vöru o.fl. Björn hefur njósn af ferðum þeirra og segir Kára.
150. Kári og Björn fara austur í Skaftártungur, Ketill og félagar fara sömu leið og skipta liði. Nú er Björn að baki Kára. Kári vegur Móðólf. Grípur aftur spjót á lofti (d) og sendir til baka og neglir Grana Gunnarsson við jörð, særir en Grani lifir. Björn heggur hönd af manni en Kári heggur þann mann sundur í miðju. Kári drepur Lamba Sigurðarson, Þorstein Geirleifsson og Gunnar úr Skál. Björn særir 3 menn. Kári lýsir vígum í Skál (hefur bætt 5 mönnum á lista fallinna brennumanna).
151. Kári og Björn villa fyrir mönnum um stund en aftur hefst bardagi. Kári drepur Glúm Hildisson, Vébrand og Ásbrand. Ketill kastar spjóti að Kára, en Kári brýtur spjótið og grípur Ketil höndum. Björn vill drepa hann þar, en Kári segist aldrei munu drepa Ketil mág sinn, hvað sem á gangi. Flosi segir Kára engum manni líkan. Það er nú ekki í fyrsta sinn. (13 Brennumenn fallnir fyrir Kára.)
152. Kári og Björn koma í Mörk (Ber er hver að baki...) Fara í Holt til Þorgeirs, Kári segist eiga eftir að drepa Gunnar Lambason og Kol Þorsteinsson, þá séu felldir 15 og fullhefnt. Biður Þorgeir að skipta á jörðum við Björn, Björn fer að Ásólfsskála en Þorgeir tekur við Mörk. Kári heimsækir Ásgrím og Gissur og fer utan frá Eyrarbakka með Kolbeini svarta.
Utanfarir Kára og Flosa, Orkneyjar, Írland, England
153. Flosi fer með mönnum sínum úr Hornafirði, þeir lenda í hafvillum og taka land í Hrossey. Brennumenn fara til Sigurðar jarls, sem spyr eftir Helga Njálssyni hirðmanni sínum. Flosi segist hafa höggvið af honum höfuðið. Jarl ærist og lætur handtaka mennina. Þorsteinn Síðu-Hallsson, hirðmaður jarls, fær þá lausa. Sættir nást og Flosi verður hirðmaður jarls.
154. Kári og Kolbeinn svarti lenda í Friðarey milli Orkneyja og Hjaltlands, eru með Dagviði hvíta. Allt fréttist sem gerist í Hrossey. Jólaboð í Hrossey með stórmenni og kóngafólki. Gunnar Lambason stendur á stól og segir frá Njálsbrennu.
155. Kári, Kolbeinn og Dagviður koma til Hrosseyjar og heyra frásögn Gunnars. (Og um allar sagnir hallaði hann mjög til en ló víða frá.) Þegar hann segir frá gráti Skarphéðins stekkur Kári fram með brugðnu sverði og vísu á vör og heggur Gunnar Lambason. Sigurður jarl vill drepa Kára fyrir en Kári segist nú hafa hefnt Helga hirðmanns hans Njálssonar. Flosi segir Kára hafa gert þetta í fullum rétti. Kári fer. Jarl segir að engum manni sé Kári líkur. Það hafði Flosi margsagt áður. Flosi tekur við að segja söguna og gerir betur. Sagt frá Sigtryggi kóngi, Óspaki og Bróður.
Blóðsýnir og Brjánsbardagi
156. Bróðir sér blóðregn og óáran þrjár nætur, Óspakur spáir miklu stríði og mannfalli.
157. Sigurður jarl fer til Írlands, með honum m.a. 15 manna úr liði Flosa en ekki hann sjálfur. Brjánsbardagi. Flosi byrjar suðurgöngu sína, fer fyrst til Bretlands.
Lokahefnd Kára, suðurganga Flosa
158. Kári fréttir af ferðum Flosa, fer til Bretlands. Kári gengur fram á Kol Þorsteinsson "í borginni" þar sem hann telur silfur, heggur til hans "og nefndi tíu höfuðið er það fauk af bolnum." Nú eru þeir fallnir 15 brennumenn fyrir Kára og að fullu hefnt. Flosi gengur frá líkinu, segir aldrei neitt illt um Kára (þetta er síendurtekið). Gengur suður til Róms, hlýtur lausn af páfum, gengur norður á ný og siglir heim til Íslands.
Heimkoma Flosa og Kára og fullar sættir - sögulok
159. Kári fór til skips. Sigldi til Normandí og Dofra og norður til Kataness og sat veturinn. Þann vetur dó kona hans, Helga Njálsdóttir. Kári siglir heim, þeir brjóta skipið og ganga til Svínafells. Kári og Flosi fallast í faðma, sættast heilum sáttum. (Fyrirgefning syndanna.) Kári kvænist Hildigunni Starkaðardóttur, frænku Flosa. Flosi týnist í Noregsferð á fullorðinsárum. Kári og Hildigunnur eiga 3 syni: Starkað, Þórð og FLOSA.
apríl 2000 svp