Las þetta í Mogganum í gær og má til með að deila þessu með ykkur :)
Fjögurra sekúndna stef var hálft annað ár í smíðum
Það tók hálft annað ár að semja og fága fjögurra sekúndna opnunarstefið sem milljónir tölvunotenda eiga eftir að heyra í hvert sinn sem þeir kveikja á tölvu með nýja Windows Vista stýrikerfinu. Til að finna nákvæmlega réttu hljómana fékk Microsoft til liðs við sig tónlistarmanninn Robert Fripp.
Hann er þekktastur fyrir gítarleik með rokkhljómsveitinni King Crimson á áttunda áratugnum, en fyrir þessa fjögurra sekúndna hljómkviðu tók hann upp margar klukkustundir af gítarleik sínum undir vökulu auga Steves Ball, fulltrúa Microsoft.
Ball, sem er bæði tónlistarmaður og verkfræðingur, hlustaði síðan vandlega á allar upptökurnar til að finna fjóra hljóma sem bjóða eiga Vista-notendur velkomna.
Það er ekki tilviljun að hljómarnir eru fjórir og stefið fjórar sekúndur. Hugmyndin er að það hljómi eins og „Win-dows Vis-ta“, og hljómarnir vísi til litanna fjögurra í nýja Windows-merkinu sem birtist þegar stefið hljómar.