Ég ætla að útlista nokkra af hinum nýju fídusum sem hið nýja stýrikerfi Microsoft státar af. Ég verð að segja að ég er ekki með útgáfu af því, en hef lesið mér til um breytingar og þróun kerfisins og fylgst náið með framþróun þess og útgáfu.
Ég sé fáar, ef nokkrar ástæður til að kvarta yfir stolnum hugmyndum hér eftir sem hingað til, enda sýnist mér flest stýrikerfi byggja á sama grunni. Hvað hefði gerst ef einungis sá bílaframleiðandi sem tók bílbeltið upp á arma sína í fyrsta skipti hefði notað hugmyndina?
Gömlu góðu
Icon allra forritanna eru breytt. (Guð hjálpi okkur)
Paint
Þetta 21 árs forrit er enn við lýði og hefur nýst mörgum og er þekkt fyrir einfaldleika sinn og er það helsti kostur þess. Listsköpun í Paint var áður takmörkuð við þrjú mistök í röð, en er nú með ótakmarkaðan undo-lista. Útlitsbreytingar hafa einnig átt sér stað og það dubbað upp í Vista-stílinn sem sjá má hér.
Það er nú einnig hægt að “croppa” myndina.
Sound Recorder
Tvær stórar breytingar hafa verið gerðar á þessu litla forriti. Nýja útlitið má sjá hér. Svo er það sem hefur farið mest fyrir brjóstið á notendum þess, skortur á stuðningi við önnur snið en hið reginstóra og vanþjappaða WAV. Því miður skilaði 6 ára vinna við nýtt stýrikerfi einungis stuðningi við hið Microsoftíseraða WMA snið. Kannski MP3 eða OGG stuðningur komi með næsta stýrikerfi.
Nú er einnig hægt að taka upp skrár af ótakmarkaðri lengd.
Snipping Tool
Nett forrit til að taka myndir af öllum skjánum, myndir af völdum gluggum, kassalaga myndir eða myndir í súrrealískum formum. Myndirnar má senda sem vefpóst eða vista sem HTML, og auðvitað sem “venjulega” mynd.
DVD Maker
Brennslur DVD mynda voru ekki orðnar alger eðlilegheit þegar XP var gefið út en úr því hefur verið bætt. DVD maker leyfir manni að ráða útliti valmynda disksins, og þó ég sjái hvergi minnst á kaflaskiptingu er hægt að setja fleiri en eina og fleiri en tvær ljósmyndir og myndbönd á diskinn, sem hægt er að velja úr í fyrrnefndri valmynd.
Fyrir nördana: forritið getur einnig tekið við skipunum frá öðrum forritum gegnum XML skrár, svo brennsla DVD diska í öðrum forritum verður möguleg í gegnum Windows kjarnann.
Movie Maker
Stórt stökk var tekið, og farið beint úr Movie Maker 2 í Movie Maker 6 til að halda í við útgáfutal stýrikerfisins, líkt og önnur forrit gefin út í því.
Til að koma til móts við nýja tíma mun Movie Maker geta skilað frá sér myndböndum í HD (High Definition) gæðum.
Grunnuppbygging forritsins er eins og við eigum að venjast, að “Vistalæsuðum” grafíkunum undanskildum. Spilunarstýringarnar eru eins og þær í WMP 11.
Kerfið
Það tæki ár og öld að fara gegnum allar breytingar sem kerfið hefur orðið fyrir á þeim sex árum sem endurskrifun kóðans hefur tekið. Ég læt mér nægja að tipla á því sem notendum þætti vert að vita.
Leitin
Leitin er (sem betur fer) mikið hraðvirkari. Nokkurs konar atriðisorðaskrá (index) er búið til þegar skrár eru búnar til, nöfnum þeirra breytt eða þær færðar. Leitin fer fram á meðan þú skrifar og er því lokið áður en þú hefur skrifað inn leitarorðið eða um leið og þú ert búinn að því.
Sidebar
Hliðarstika með klukku, innbyggðum vefsíðum, RSS, púsluspili, myndum, veðurfréttum, dagatali og gengisreikni, með möguleika á viðbótum.
Previous Versions
Afturkallar skrá frá hvaða degi tilvistar hennar sem er. Fídusinn er felldur inn í Properties gluggann.
Speech Recognition
Hið velþekkta Speech Recognition (sem virkar betur en myndbandið “Speech Wreckognition” gefur til kynna) nemur tal frá notanda tölvunnar og getur skrifað eftir tali hans og opnað forrit, teiknað og í raun verið stýrt fullkomlega með tali.
——–
Ég vona að “drullarar” sjái að sér og líti á björtu hlið Vista, sem er öruggasta stýrikerfi Microsoft hingað til, og býður upp á marga fýsilega möguleika.