Öryggisglufur í nýjum vafra Opera Software gætu valdið því að óviðkomandi kæmust í persónuupplýsingar notenda vafrans, að sögn ísraelska vefhugbúnaðarfyrirtækisins GreyMagic Software. Fyrirtækið er þekkt fyrir uppljóstranir sínar um glufur í Internet Explorer vafra Microsoft.
Fimm öryggisglufur mun vera að finna í Opera 7 fyrir Windows en í Noregi mun vera unnið að því að fylla í þær. Ný útgáfa vafrans verður til í kvöld [04.02.2003] eða á morgun segir Live Leer, talsmaður Opera Software. Vafranum var hleypt af stokkunum fyrir viku síðan.
Að sögn GreyMagic gæti meðalfær hakkari skoðað harða drifið hjá notendum vafrans og kíkt í allar skrár. Fyrirtækið segir öryggisglufurnar liggja í því hvernig vafrinn höndlar Javascript og myndskrár. Glufurnar eru sagðar alvarlegar.
Þá gætu eigendur vesíðna, sem þannig eru innstilltir, séð hluta af ferðum notandans um vefinn. GreyMagic lét Opera Software vita af vandamálunum á föstudaginn var.
"Við höfum unnið að þessum hlutum frá því á föstudag og ætlum að senda frá okkur nýja útgáfu annað hvort í kvöld eða á morgun [05.02.2003]. Við viljum taka á þessum öryggisvandamálum eins fljótt og auðið er,“ sagði Live Leer í viðtali við Joris Evers á fréttastofu IDG.
Lee Dagon, yfirmaður rannsókna hjá GreyMagic segir auðvelt að notfæra sér öryggisglufurnar í Opera 7 vafranum. Samt sem áður segir hann Opera vafrann mun öruggari en Internet Explorer, jafnvel þótt nýjasta útgáfa Opera styðji script af ýmsu tagi.
”Áhrifin eru aftur mjög mismunandi þegar tengst er tölvu í gegnum annað hvort Internet Explorer eða Opera. Með aðgangi að heimasvæði [e. local zone] í Internet Explorer nær hakkari nánast fullri stjórn á tölvunni og getur gefið skipanir. Opera býður ekki upp á þann möguleika, þótt þar megi engu að síður gera ýmislegt af sér," sagði Lee Dagon.