Stysta útgáfan: grunneindir heimsins eru ekki punkteindir eins og önnur eðlisfræði gerir ráð fyrir, heldur lítil lykkja strengs. Eiginleikum eindanna er ráðið af sveiflutíðni strengsins. Í heiminum okkar eru svo, utan þeirra þriggja rúmvídda sem við þekkjum, sex rúmvíddir enn, líklega krumpaðar saman í örsmáar lykkjur sem strengirnir bærast í. Ástæðu þess að þyngdaraflið er svo mikið veikara en rafsegulkraftar eða kjarnakraftar má rekja til þess, kenningunni samkvæmt, að þyngdarkrafturinn berst í gegnum þessar víddir til viðbótar við “okkar” þrjár.
Heimurinn okkar er svo mögulega ekki sá eini, heldur eru fleiri heimar “þarna úti” sem við getum ekki greint með neinum beinum hætti. Þeir “fljóta” innan um hvern annan, og mögulega má rekja miklahvell til áreksturs tveggja þeirra. Sömuleiðis gæti þessi kenning leyst ráðgáturnar um “sogblettinn” (eða “niðurfallið”, þetta á engan opinberan íslenskan titil), blettur á himinhvolfinu sem virðist draga að sér vetrarbrautir og gæti verið aðdráttarkraftur annars heims að verki, og þá um hvers vegna grunnfastar heimsins okkar (planck-fastinn og fleiri) eru svo heppilegir fyrir tilvist lífs (að því gefnu að þeir séu það, sem er umdeilanlegt).