Ljósið eftir Richard Feynman er ágætis inngangur að skammtarafsegulfræði (fræðigrein um skammtafræðileg einkenni ljóss). Feynman var af mörgum talin besti eðlisfræðikennarinn vegna þess hversu vel honum tókst að koma hlutunum í orð og fá fólk til að skilja. Ég sé að það eru til nokkrar aðrar bækur um skammtafræði á íslensku á gegnir.is, en ég bara veit ekkert um hversu góðar þær eru því ég hef aldrei séð þær. Ég held að bókin eftir Feynman í útgáfu Hins Íslenzka Bókmenntafélags sé ágæt jólagjöf (fékk mína sjálfur í jólagjöf :).
Hinsvegar er til sería af bókum sem heiti “A Short Introduction”, í þeirri seríu er til m.a. Quantum Theory og Particle Physics, sem mér þykja ágætar. Sú fyrri er skrifuð af John Polkinghorn og hin síðari af Frank Close. Quantum Theory gerir skammtafræðinni skil á meðan Particle Physics gerir efniseindum skil, segir frá atómkröftunum, sögu efnisins o.m.fl.
Í þessum þrem bókum sem ég hef bent á er engin flókin stærðfræði heldur er kennilegur grundvöllur aðalega það sem útskýrt er. Skammtafræði er afar flókin svo jafnvel þetta efni sem inngangur er ekkert léttmeti, stærðfræðin bakvið þetta þarfnast hinsvegar góðrar menntunar í stærðfræði.