Nei, metaphysics er nafn á undirgrein heimspekinnar. Aristóteles nefndi hana ‘he prote filosofia’ eða ‘hin fyrsta heimspeki’ (þaðan er komin hugmyndin að okkar nafni, frumspeki). En þegar verk Aristótelesar voru gefin út löngu eftir hans dag raðaði ritstjórinn, Andróníkos, verkunum um frumspeki á eftir eðlisfræðiverkunum og kallaði þau ‘ta meta ta fysika’ sem þýðir 'þær [þ.e. bækurnar] á eftir þeim [þ.e. bókunum] um eðlisfræðina'. Þetta heiti festist við verkið og var tekið upp í latínunni sem ‘metaphysica’. Það fór síðan að verða notað um þá grein heimspekinnar sem Aristóteles fjallaði um í umræddum bókum. Þannig varð orðið til.
Frumspeki er sú grein heimspekinnar sem fjallar um eðli raunveruleikans í eins miklum grundvallaratriðum og hægt er. Hún fjallar um hluti sem eðlisfræðin fjallar ekki um (t.d. eðli, samsemd og orsakarlögmál) eða sem eðlisfræðin gengur að sem vísu (t.d. verufræðilegar spurningar um hvað sé á endanum til, en verufræði (ontology) er undirgrein frumspekinnar). Í stuttu máli fjallar frumspekin um þá hluti sem er ekki hægt að komast að með athugunum.
___________________________________