Þangflugur Þangflugur

Lýsing og flokkunarfræði
Coelopa spp. eru tvívængjur (diptera) og eru algerlega háðar þara (macroalgae). Þær eru frekar flatar, litlar til meðalstórar, stríðar (bristly) og með hlutfallslega þykka fætur (Chinery, 1993). Þær verpa aðallega á rotnandi þara. Eftir stormasamt veður skolast oft mikið af þara upp á strandir og byrjar hann að rotna, en rotnunin setur í gang mökunarferlið (Edward, 2008).
Lirfur þangflugna borða helst bakteríur sem lifa á rotnandi þara en geta líka borðað þarann sjálfan. Samsætugreining á flugunum styður þetta en það er algengt að auðgun á 13C og 15N samsætum verði á milli fæðuþrepa (Edward, 2008).
Coelopa frigida og C. pilipes eru tvær helstu tegundirnar en samtals eru 13 tegundir skráðar í Coelopa ættkvíslinni (Encyclopedia of life, 2011). Allar flugur innan Coelopidae ættarinnar flokkast sem þangflugur eða seaweed flies/kelp flies, en það eru um 40 tegundir í 13 ættkvíslum.
Tegundir Coelopa sýna hyglun á þarategundum og eru það oftast mismunandi tegundir þara fyrir samsvæða (sympatric) flugutegundir en þetta er hugsanleg aðlögun til að forðast beina samkeppni (Dunn, 2002; Edward, 2008).

Mökunarhegðun
Stórar karl-þangflugur (Coelopidae) eru líklegri til að ná að makast en litlar karlflugur. Þetta er vegna átaka um mökun á milli karlflugna og kvenflugna, þar sem kvenflugur streitast á móti öllum tilraunum til samfara frá karlflugu (Dunn, 2002). Tregða kvenflugnanna til að makast hefur líklega þróast vegna þess að mökunin ber með sér ákveðinn kostnað fyrir hana.
Í mörgum tvívængjum hafa prótín í sæði karlflugna áhrif á kvenflugur með þeim hætti að þær verpa eggjum fyrr en ella. Þessi kemíska stjórnun getur verið kostnaðarsöm fyrir kvenfluguna og afkvæmin ef góður varpstaður er ekki nærri. Þessi kemíska stjórnun virðist ekki vera til staðar hjá þangflugum, en það er líklega vegna þess hve eggvarpsstaðir eru óútreiknanlegir. Það er ekki ávallt til staðar rotnandi þari (Dunn, 2002).
Sú karlfluga sem nær sínu sæði inn seinast er sú eina sem getur frjóvgað eggin og því þurfa karlflugur að vera taktískar. Að auki hafa karlflugur Coelopa spp. líklega takmarkað magn af sæði. Þannig að ef karlfluga reynir að makast við kvenflugu þá þurfa líkurnar á getnaði að vera góðar til að vega upp á móti kostnaði (Dunn, 2002).
Nálægð við rotnandi þara eykur vilja karlflugna til að reyna mökun, minnkar tímann sem það tekur fyrir karflugur að reyna mökun, eykur tímann sem karlflugur eru viljugar til að eyða í baráttu til þess að makast, eykur mökunartímann sjálfan, eykur fjölda eggja sem kvenflugur verpa og minnkar líftíma kvenflugna vegna kostnaðs við mökun (Dunn, 2002).

Heimildir
Chinery, M. (1993). Collins field guide: Insects of britain & northern europe. Hong Kong: Printed Express Limited.
Dunn, D. W., Crean, C. S., & Gilburn, A. S. (2002). The effects of exposure to seaweed on willingness to mate, oviposition, and longevity in seaweed flies. Ecological Entomology, 27(5), 554-564. doi: 10.1046/j.1365-2311.2002.00445.x
Edward, D. A., Newton, J., & Gilburn, A. S. (2008). Investigating dietary preferences in two competing dipterans, Coelopa frigida and Coelopa pilipes, using stable isotope ratios of carbon and nitrogen. Entomologia Experimentalis Et Applicata, 127(3), 169-175. doi: 10.1111/j.1570-7458.2008.00692.x
Warren photographic (n.d.). Photos: Insects and invertebrates – Europe 9. Tekið af http://www.warrenphotographic.co.uk/sets.php?page=9&q=&w=041a 12. febrúar 2011.