Ég fer heldur frjálslega með sögu mannkyns í þessari færslu, þvert á boðskap hennar.
Frá örófi alda hefur mannkyn búið til skýringar á öllum þeim fyrirbærum sem fyrir augu þess bera. Sumar heppnuðust vel og aðrar illa, sumar eru heillandi og sumar torræðar. Tilgangur þeirra hefur verið af ýmsum toga, og ekki alltaf samfélaginu til framdráttar. Það sem þær eiga allar sameiginlegt er að vera líkön, kerfisbundin skýring á einhverju fyrirbæri. Líkön eru nátengd því hvernig hugur okkar virkar, þar sem hann skapar sjálfur líkan af heiminum öllum til að vita hvernig líkaminn getur best hegðað sér í honum. Efnisleg líkön, módel, eru sjálf formfestar hugarsmíðar, en fæstar skýringar á heiminum hafa verið byggðar á þann hátt. Þær liggja flestar í hugum okkar og mynda saman þá heimsmynd sem þar býr.
Tungumál
Eitt fyrsta, ef ekki alfyrsta, líkanið sem öðlaðist víðtækar vinsældir var tungumál. Það má segja að skrækir dýra séu einhvers konar líkön líka, þótt það sé kannski fulllangt gengið. Það sem þeir eiga hins vegar sameiginlegt með tungumáli er að skapa í hugum áheyrandans myndir sem endurspegla einhverja hugmynd sem skrækjarinn hefur, hvort sem hún hjálpar áheyrandanum að skilja heiminn betur eða ekki. Dæmi um hjálplegan skræk er viðvörunaróp hjarðdýra sem sjá rándýr. Hugmyndin að baki því ópi er nálægð rándýrs, en það þýðir ekki að rándýrið sé í raun og veru til staðar - kannski missást skrækjaranum, kannski var hann á eiturlyfjum og ofskynjaði það. Minna hjálplegur skrækur er viðvörunarhljóð gefið þegar ekkert rándýr er nálægt, til að fæla alla burtu frá matnum. Þá getur lygarinn étið hann sjálfur.
Mannlegt tungumál er öllu flóknara og lýsir formlega hugarheimi þess sem talar; það er líkan fyrir líkan. Með því er hægt að miðla hugmyndum og útskýringum sem aftur eru grundvöllur nýrra líkana, en það má einnig ljúga með því og dreifa ranghugmyndum og smíða líkön sem eru algert bull. Þannig hafa kynstrin öll af kreddum og vitleysum, þjóðsögum og trúarbrögðum orðið til.
Goðsagnir
Einfaldar skýringar á heiminum felast í því sem okkur er auðskiljanlegt, og fátt er okkur tamara en manneskjur og mannleg samskipti. Þess vegna þarf ekki að koma á óvart að fyrstu líkön heimsins byggðu að miklu leyti á þeim. Huldar verur sem stýrðu gangi náttúruafla, árstíða og gróðursæld, dríslar sem unnu skemmdir á henni og jafnvel andar forfeðra spruttu upp af ímyndunarafli mannsins. Fjölhæfni mannsins og almætti ímyndunar gerðu þeim ofurvirki eins og eldingar kleyfar, og sífelld leit mannsins að tilgangi krafðist alls kyns afsakana fyrir voðaverk náttúruaflanna: stríð á himnum, refsingar fyrir mannkyn og þess háttar. Þegar heil samfélög höfðu sæst á að svo væri málum háttað þurfti að taka til við að friðþægja guðina. Þetta kallaði á alls kyns aðgerðir, og líklega hafa þær hangið inni sem fólki hafa virst virka. Tilhneiging manneskjunnar til að staðfesta fordóma sína með hvaða smávægilegu uppákomu sem er hefur líklega fest vinsælar hefðir í sessi.
Oft á tíðum nýttu menn sér þessa tilhneygingu samborgara sinna til að auka eigin orðstír og völd. Prestar sögðust hafa beintengingu við almætti og tóku við fórnum til guðanna, sem hafa endað í mögum þeirra líkt og gjafir barna til jólasveinsins enda í mögum foreldra. Einvaldar á miðöldum nýttu sér trú almennings á kristinn guð og vinskap sinn við kaþólsku kirkjuna til að réttlæta einveldi sín með guðlegum blessunum.
Upplýsing
Nú leið og beið og yfir margar aldir urðu þessar skýringar margslungnari og fjölbreyttari, þegar ímyndunarafl og atburðir árþúsunda hlóðu á þær. Grískir spekingar höfðu reynt að koma skynsemi á óreiðu trúarbragða og hjátrúar og vinsa út rétt frá röngu, en traust þeirra á skynsemi var sterkara en atorka þeirra í rannsóknum, svo kenningar þeirra urðu bara ögn háfleygara rugl en það sem fyrir var. Það að fjöldi þeirra, og tíminn sem þeir gáfu sér í þessar vangaveltur, hafi leitt af sér sumar kenningar sem voru nær því að standast skoðun nútímavísinda en aðrar er ekki endilega vísbending um að þeir hafi verið á réttum heimspekilegum slóðum.
Það voru tvær mikilvægar hugmyndir og ein stórmerkileg sem sigruðust á þessum vandræðum. Sú fyrsta var að bera líkönin kerfisbundið saman við raunveruleikann. Þau höfðu oft verið prófuð, en sjaldan af mikilli reglufestu. Þegar þrumuveður var úti fyrir þá var það bara Seifur að skralla, en lítið var um athuganir á því hvers vegna guðirnir væru í góðu skapi þess á milli - þótt margar hugmyndir hafi verið skáldaðar upp. Því síður var athugað reglulega hvort fórna væri raunverulega þörf til að njóta gæða jarðarinnar og veðurfarsins, eða hvort aðrir sem ekki fórnuðu töpuðu einhverju á því. Mikið til var það ótta við hið óþekkta að kenna, ótta við barbarana utan landamæranna, ótta við mögulega hefnd guðanna ef fórnum væri sleppt.
Önnur hugmyndin, öllu mikilvægari með tilliti til goðsagna, var að sannreyna hvern part kenningarinnar og sleppa þeim pörtum sem ekki var hægt að prófa. Hvernig væri hægt að athuga hvort það væri í raun og veru guð sem kastaði eldingunni? Er það nokkur skýring að skálda bara guð og drísla uppí hvern óskýranlegan atburð? Til að taka skýringuna alvarlega þyrfti að vera hægt að prófa hana, og ef svo væri ekki skyldi hún lögð á hilluna, geymd til betri tíma.
Sú þriðja var að formfesta skýringarnar, setja þær fram stærðfræðilega, þannig að bera mætti saman gæði skýringanna. Prófun á slíkum kenningum væri laus við alla tilfinningasemi, enda svarið augljóslega rangt eða rétt, en á móti væri gagnsemi kenningarinnar mun meiri. Munurinn á gagnsemi kenningar sem segir okkur að hlutir detti til jarðar og kenningar sem segir okkur hve hratt þeir geri það er augljóslega gríðarlegur.
Með þessi tæki að vopni voru gömlu skýringarnar skornar niður að beini, grandskoðaðar og þeim útrýmt miskunnarlaust, einni af annarri. Í staðinn komu varkárar, einfaldar og oft sértækar kenningar sem voru fyrr eða síðar prófaðar af natni, og hlutu oft sömu meðferð. Hægt og rólega byggðist upp safn skýringa sem mátti raða saman í heimsmynd fyllta af táknum og tölum. Útskýringar á hvað táknin þýddu voru smíðaðar stranglega innan ramma þess prófanlega.
Óformlegar kenningar og líkingar
Þessi lýsing á best við eðlisfræði, en formlausari kenningar hafa líka verið smíðaðar. Þróunarkenningin er líkan af tilurð lífvera, sérstaklega til að skýra hvernig flókið líf getur orðið til úr einföldum forfeðrum. Þótt kenningin sjálf sé ekki stærðfræðileg eru forspár hennar, um uppbyggingu forsögulegra dýra, lágmarksaldur jarðar og landfræðilegar uppskiptingar lífvera, engu að síður til staðar, og hafa allar verið sannreyndar. Til að tryggja slíkar kenningar í sessi þarf mikið magn af gögnum, öfugt við stærðfræðileg líkön þar sem nákvæm mælitæki geta komið manni langa leið.
Stundum má svo sjá líkindi með hegðun ólíkra fyrirbrigða. Umferð í stórborg hegðar sér eins og vökvi í leiðslum og svarthol hegðar sér eins og vatn að renna niður úr baðkari - eða eins og vatn að renna í vask, afturábak. Stundum eru líkindin óformleg og yfirborðsleg, en stundum djúpstæð. Hegðun maura í mauraþúfu, þar sem hver maur virðist reika stefnulaust og óskipulega, tekur á sig kerfisbundna mynd þegar stórir hópar af þeim vinna saman og skapa skipulegt samfélag. Eru líkindi milli þeirra og starfs stakra taugafrumna? Þetta er svipað og málfarslegar líkingar, þar sem við lýsum einu fyrirbæri með orðum notuðum fyrir annað. Við brjótum ísinn í samræðum eða tökum í taumana á börnunum, stórstjörnur slá í gegn og við sjáum stjörnuhrap - eða er það ekki málfarsleg líking?
Eins gagnlegar og þær eru, og eins hrífandi og þær virka þegar við heyrum þær fyrst, þá geta þær líka verið villandi. Sannfærandi líkingar geta verið yfirborðslegar, og ályktanirnar sem við drögum af þeim geta verið rangar. Þótt maurar myndu hegða sér svipað og taugaboð þýðir það ekki að við höfum drottnignartaugaboð, eða að þegar þau deyji berjist hin um að verða arftakar þeirra. Ef við höfum ekki varann á erum við auðveld bráð auglýsenda, svikahrappa og stjórnmálalegra kennismiða - jafnvel allra í einum!
Alkemistinn
Til að falla ekki í sömu gryfju og fórnarlömb trúarmangara fortíðar þurfum við að hafa í huga þumalputtareglur vísindalegu upplýsingarinnar. Þótt við séum farin úr raunvísindakápunni og sest í hægindastólinn, lesum blöðin og horfum á sjónvarpið, þurfum við ekki að slökkva á efahyggjunni. Óformlegar kenningar þurfa að styðjast við gögn og mega ekki gera ráð fyrir forspám umfram þau, nema að þær styðjist við enn frekari gögn. Formlegar kenningar, þótt slíkar séu sjaldnast misnotaðar, þurfa að vera prófaðar. Umfram allt megum við ekki falla fyrir því einu að eitthvað hljómi rétt, skynsamlegt eða trúverðugt. Því það gerði goðafræðin líka.