Fólk kann vel að væla. Allir geta vælt yfir öllu, alltaf og alls staðar. Það er einn af hæfileikum krúttkynslóðarinnar; að geta kvartað yfir rétt um það bil öllu.
“Kreppan” gaf öllum tækifæri til að væla vel og vandlega, fólk hefur talað um afturvarp Íslands til steinaldar. Það sem fólk áttar sig ekki á er að aðstaða okkar nú er varla það sem kalla má vandamál.
Tengingarleysi fólks við hluti sem skipta máli, vísindum sögunnar, jarðarinnar og heimsins eru gerð svo slæm skil í hugum nútímafólks að undrun sætir. Til dæmis, af öllum fréttum sem náðu eyrum almennings um LHC fuku allar inn um annað eyrað og út um hitt nema þær sem innihéldu orðið “heimsendir.”
Og þá fóru allir að væla.
Nú gætu einhverjir spurt sig hvort ég eigi við að við eigum ekki við nein vandamál að stríða. Ég er ekki að gefa neitt slíkt í skyn. Við eigum við raunveruleg og verulega nærstæð vandamál að stríða. Bráðnun íss á heimsskautunum er 20 árum á undan spám. Líkur má leiða til þess að hlýnun hnattarins sé orðin sjálfbær. Hvað gerir fólk? Þeir sem væla ekki gera jafnvel minna gagn og annað hvort segja hnattræna hlýnun vera samsæriskenningu (sem jafnast nánast á við að segja þróunarkenninguna vera samsæri) eða segjast ekki nenna að hugsa um það. Við leysum vandamálið ekki þannig.
Stjórnmálamennirnir eru jafnvel verri. Í Evrópu væla þeir yfir kreppu og segja vísindamennina vera með óþarfa handaveifur. A-ha. Auðvitað er fátækt milljarðamæringanna mikilvægari en áframhaldandi líf fólks á jörðinni.
"Tvær menningar"-kenning C. P. Snow sést ekki aðeins í þeirri fávisku heldur einnig í almennu áhugaleysi fólks á vísindum. Svo virðist sem við viljum frekar lesa um lit nýjustu nærbuxa Paris Hilton en hlusta á þróun lausna á vandamálum mannkyns. Það kæmi mér til dæmis þægilega á óvart ef fleiri en helmingur lesenda (m. v. að þeir séu ekki allir sammála mér) vissi að loftsteinninn Apophis gæti lent á jörðinni innan 30 ára.
Auðvitað eigum við ekki að fela okkur í hellum eða búa í strákofum eða snjóhúsum. Við megum samt alveg við því að hlusta aðeins á hvað fólk sem veit eitthvað um málin (id est vísindamenn) hefur að segja áður en við byrjum að trúa því að Bandaríkjamenn hafi aldrei lent á tunglinu eða að við höfum ekki þróast af bakteríum. Hvað þá að gegndarlaus brennsla okkar á 5 kílómetra djúpum jarðlögum á yfirborði Jarðar hafi engin áhrif á loftslagið.
Jörðin er ekki of stór til að við getum haft áhrif á loftslag hennar. Lágt hlutfall koltvíildis í loftslaginu (38 þúsundustu af einu prósenti) gerir það þvert á móti auðvelt.
Á meðan fólk hangir í símanum tímunum saman og vælir og vælir yfir tveggja króna hækkun á bensínlítraverðinu eða 1% hækkun á tekjuskatti er fólk sem reynir að gera gagn að vinna sleitulaust, ekki að því að finna lausnir við hnattrænni hlýnun - þær eru til nú þegar - heldur að fá almenning og ríkisstjórnir til að byrja að nota þær.
Við höfum ekki rétt á að væla fyrr en við höfum reynt að gera eitthvað sjálf.
Það væri kannski ráð að almenningur myndi prófa að verja fimm mínútum dagsins í uppfærslu úr heimi vísindanna á kostnað, til dæmis, frétta af nærfatalausum Bandaríkjamönnum.