Pýþagóras hét maður. Hann var fæddur á grísku eyjunni Samos og stofnaði skóla á Sikiley. Skólinn var miklu meira en kennslustaður, að sönnu heil menntastofnun. Þar lærðu vissulega margir, námu heimspeki og stærðfræði en enginn skýr greinarmunur var gerður á þessu tvennu. Þar uppgötvuðu hinir svokölluðu pýþagóringar margt merkilegt og voru ruddu braut fyrir komandi kynslóðir, bæði stærðfræðinga og heimspekinga. Fyrir pýþagóringum var stærðfræði meira en verkfæri til að framkvæma reikninga, stærðfræði var það sem heimurinn snerist um. Allt í öllu. Pýþagóringar fundu skapara sinn í stærðfræðinni. Allt var gert úr þríhyrningum og ræðum tölum. Stærðfræðin var þeim heilög.

Dag einn gerði pýþagóringur nokkur, Hippasos að nafni, uppgötvun. E.t.v. höfðu margir gert sömu uppgötvun áður en ýmist hunsað hana og álitið ómerka eða hún verið þögguð niður. Hann hafði nefnilega uppgötvað að til voru þríhyrningar sem óhjákvæmilega höfðu minnst eina hlið sem ekki var ræð tala. Með öðrum orðum var engin leið að tjá þá hlið sem hlutfall tveggja heiltalna. Þessi staðreynd er í dag alþekkt og e.t.v. má furða sig á því að hún hafi leynst pýþagóringum svo lengi sem raun bar vitni. Engu að síður var þetta heimspeki þeirra reiðarslag. Þetta þýddi að til voru tölur sem ógerlegt var að tákna í samhengi við heilar tölur með viðunandi hætti og sýndi enn fremur að þær blöstu við í innstu helgidómum pýþagóringa, gullfallegu formi þríhyrnings. Í heimspeki Pýþagórasar voru heiltölurnar guðlegar og táknuðu hina mismunandi þætti heilagleikans. Að viðurkenna tilvist óræðra talna var líkt og að viðurkenna að hlutar raunveruleikans heyrðu ekki undir almættið. Þetta var óviðunandi. Hippasosi var drekkt samkvæmt sumum heimildum, aðrar sögur herma að hann hafi verið útlægur gerður úr samfélagi pýþagóringa.

Þrátt fyrir þetta var Pýþagóras merkilegur maður. Honum er eignaður fjöldi stærðfræðiuppgötvana og sannanna, þar á meðal ein merkasta stærðfræðiregla sögunnar, sem að öllu jöfnu er einfaldlega þekkt sem “Regla Pýþagórasar”. Hann hélt því fram að Jörðin og allar pláneturnar snerust kringum sameiginlega miðju, Sólina. Hann var mannvinur og friðarsinni og reyndist fjölmörgum hugsuðum og stærðfræðingum innblástur. Samt nægir þessi saga Hippasosar til þess að minnka allt þetta í einu vetfangi. Reynist hún sönn má draga stórlega í efa að nefna megi Pýþagóras vísindamann. Eini vísindamaðurinn í þessari sögu er Hippasos, sem sýndi hugrekki til þess að ganga gegn trú sinni fyrir sannindi sem hann gat ekki hafnað.

Villa Pýþagórasar var að láta ginnast af fegurð stærðfræðinnar. Vísindin hafa mikla fegurð til að bera enda væru varla jafnmargir sem gera sér mat úr þeim og raun ber vitni ef ekki væri fyrir fegurð þeirra. Hins vegar er algeng hugsunarvilla að draga rök af fagurfræði í stað þess að sjá fegurð í rökhyggju. Þ.e. að hrapa að ályktunum. Vísindin leyfa ekkert í þá veruna. Vísindamaður hefur sex skilningarvit, þ.e. röksemdina auk hinna fimm hefðbundnu, sem hann neyðist umfram allt til að beygja sig undir. Ef þessi skilningarvit hafa annað að segja en trú hans yrði hann umsvifalaust að hnika trú sinni. Slíkt er hins vegar í kristni og fjölda annarra trúarbragða talið meiriháttar synd.

Sumir segja að vísindin séu af sama toga og trúarbrögð. Að vísindi séu bara val á við trúarbrögð og trúarbrögðum hvergi rétthærri. Hins vegar eru vísindi í einu frábrugðin trúarbrögðum. Ef vísindamaður sæi epli falla upp á við af sjálfsdáðum væri hann nauðbeygður, a.m.k. meðan rannsókn stæði yfir, til að efast um sanngildi þyngdarlögmálsins. Reyndar er það einmitt það sem vísindin neyddust til að gera á tuttugustu öld. Þegar afstæðiskenningin kom fram neyddust vísindin til þess að gefa þyngdarlögmálið upp á bátinn fyrir enn fullkomnara líkan. Nú eru eðlisfræðingar ekki á eitt sáttir um eðli alheimsins en sífellt leitast þeir við að skapa líkan sem túlkar raunveruleikann sem best. Sá sem trúir af fullri sannfæringu getur hins vegar fengið allar mögulegar sannanir fyrir því að trú hans reynist röng en sannfæringu hans fæst ekki hnikað. Bryti þyngdarlögmálið í bága við trú hans yrði hann einfaldlega að standa á haus. Hann lagar ekki trú sína að umheiminum heldur umheiminn að trúnni.

Sannleikurinn er sá að persónuleg trú er góð og gild og órökstuddar kenningar eru, þrátt fyrir allt, nauðsynlegar öllum vísindum en nefnast þá reyndar hypothesis (bókstaflega: “neðar kenningu”). Hitt er annað mál að ef trú á kenningar getur ekki vikið fyrir sönnunargögnum er trúin orðin eyðingarafl. Þá hefur hún tekið að skyggja á rökhyggju einstaklingsins sem er það verðmætasta sem maðurinn á. Verðmæti rökhyggjunnar er allt í kringum okkur. Tölvan sem þetta er skrifað á væri ekki til ef ekki væri fyrir nútímaeðlis- og efnafræði. Bananinn væri ekki til í því formi sem við þekkjum hann ef ekki væri fyrir kynbætur og erfðafræði. Staðsetningargervitungl gætu ekki virkað sem skyldi ef ekki væri fyrir afstæðiskenningu Einsteins og stór hluti af orkuvinnslu jarðarbúa fæst með kjarnaklofnun. Allt er þetta afleiðing rökhugsunar og efahyggju. Því mega vísindalega þenkjandi menn ekki óttast trúarbrögð. Þeir verða að standa vörð um rökhyggjuna, því þrátt fyrir að hún virðist eilíf er rökhyggjan eitthvað sem vill falla í gleymsku á löngum köflum mannkynssögunnar. Verðmæti þekkingar nútímans er of mikið til að leyfa nokkrum að eyðileggja hana.
(\_/)