Hingað til hefur veturinn verið kaldari en síðustu ár. Við höfuðborgarbúar höfum fengið töluvert meiri skammt af snjókomu og kulda en venjulega. Fyrir norðan hefur einnig snjóað óvenju mikið það sem af er vetri og sést það best á snjódýptinni í morgun (14.12.06) þá voru 27 cm á Akureyri, og mesta snjódýpt á landinu var að Kálsárkoti sem er rétt innan við Ólafsfjörð.
Á meðan kuldi hefur einkennt veturinn hér hefur hann verið óvenjuhlýr á meginlandi Evrópu. Til dæmist var nóvembermánuður í Dannmörku sá hlýasti frá árinu 1768. Ótrúlega mikil rigning síðustu daga í Skandinavíu hefur valdið flóðum þar. Nær enginn snjór er kominn í Alpanna og ekkert frost þannig að ekki er hægt að framleiða snjó. Sum skíðasvæði þar eru nánast farin á hausinn.
En nú stefnir allt í það að breytingar verði í veðrinu. Samkvæmt nánast öllum veðurspám er gert ráð fyrir því að á mánudaginn munu veðrakerfin breytast og verða eins og þau hafa verið síðustu vetur. Sem sagt hlýindi með mikilli rigningu sunnanlands. Þá hættir að rigna í Skandinavíu og það kólnar í allri Evrópu og það fer að snjóa ölpunum.
Þetta virðist ætla að standa yfir í a.m.k. viku. Eftir það eru spárnar mjög breytilegar, sumar spá miklum hlýindum á meðan aðrar spá kuldum. Persónulega finnst mér hlýindin líklegri. Samkvæmt þeirri spá á að vera frost þar til á mánudag og ekki frysta fram að jólum. Samkvæmt spánni á að vera 0 - 5 stiga hiti á aðfangadag, léttskýað sunnanlands en smá skúrir eða él.
Þannig að ég spái rauðum jólum sunnanlands en hvítum eða gráum norðanlands.
Allt sem er hér að ofan er byggt á spám og gæti þetta farið allt öðruvísi. Það er alveg bannað að skamma mig ef veðrið verður ekki svona.
Allt hefur enda, pylsa hefur tvo.