Af einhverjum ástæðum hef ég mikinn áhuga á holdsveiki, og þar sem mér leiðist óendanlega mikið ætla ég að skrifa grein um þennan sjúkdóm.
Holdsveiki er smitsjúkdómur sem orsakast af bakteríu sem kallast Mycobacterium leprae(og er einmitt skyld bakteríunni sem veldur berklum). Hann gengur einnig undir nafninu Hansens-sjúkdómur, eftir norska lækninum Armauer Hansen sem var sá fyrsti til að sjá bakteríuna í smásjá.
Hann leggst á taugar og vefi í útlimum manna, sérstaklega á kaldari svæðum líkamans einsog á nefi, fingrum, tám og eyrum, auk miðtaugakerfisins.
Holdsveiki lýsir sér helst með tilfinningaleysi og doða, lömunum og krepptum vöðvum. Einnig getur hún valdið miklum afskræmingum á húð sjúklinganna. Ef ekkert er að gert, getur bakterían étið upp heilu líffærin, og sjúklingurinn verður blindur, missir nefið eða hendurnar og þess háttar.
Miklir fordómar ríktu gegn holdsveikum á öldum áður. Þá var þetta orð notað yfir alla sem þjáðust af einhverskonar húðsjúkdómum, svosem húðkrabbameini, sýfillis og psoriasis. Talið var að sjúklingarnir væru andsetnir, eða væru að gjalda fyrir syndir sínar. Þá var þeim oft útskúfað úr samfélaginu, og allt fram á tuttugustu öld voru holdsveikisjúklingar neyddir til að búa í sérstökum holdsveikranýlendum.
Sem betur fer hefur tækninni fleygt fram í rannsóknum á þessu sviði, og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lagt mikið af mörkum síðustu ár til að sporna við útbreiðslu holdsveiki, og hefur tekist að útrýma henni að mestu, þó hún sé enn landlægur sjúkdómur sumstaðar í Asíu og Afríku.
Ekki er enn vitað með vissu hvernig holdsveiki smitast, en talið er að bakterían komist á milli manna þegar einhver sýktur hnerrar eða hóstar, eða einfaldlega við öndun.
Holdsveikibakterían fjölgar sér mjög hægt miðað við margar aðrar svipaðar. Meðgöngutími hennar er venjulega um fimm ár, og einkenni taka ekki að gera vart við sig fyrr en eftir allt að tuttugu ár.
Sú meðferð sem beitt er gegn holdsveiki nú á dögum samanstendur af þrem lyfjum; Dapsón, Rifampisín og Klófazimín. Sjúklingarnir þurfa að taka lyfin í sex til tólf mánuði, eftir því hve langt þeir eru leiddir af sjúkdóminum. Ekkert bóluefni er þó til gegn honum. Er þessum lyfjum dreift frítt til allra holdsveikisjúklinga fram til ársins 2010.
Þó þessi lyf lækni sjúkdóminn venjulega að fullu, er ekki hægt að bæta skaðann sem hann hefur þegar valdið á vefjum. Því er nauðsynlegt að greina hann sem fyrst, svo hægt sé að koma í veg fyrir alvarlegar skemmdir á líffærum og útlimum.
Þó að engin holdsveiki sé á Íslandi nú á dögum, greinast enn hundruðir þúsunda tilfella á ári hverju úti í heimi. Semsagt er holdsveiki ennþá alvarlegt heilbrigðisvandamál, þótt tilfellum hafi fækkað mikið síðasta áratuginn. Flest tilfelli greinast á Indlandi, og þar næst á eftir koma Brasilía og Myanmar.