Vegna þess að um daginn birtist hér grein um fjölgreindarkenningu Gardners langar mig að birta útdrátt úr grein minni á Vísindavefnum um sama efni.

Sálfræðingurinn Howard Gardner telur að greindarhugtakið eigi að ná yfir alla getu fólks til að vinna úr upplýsingum og skapa eitthvað nýtt; samkvæmt henni er því ekki bara til ein gerð greindar heldur átta og jafnvel fleiri tegundir. Greindir Gardners eru: Málgreind, rök- og stærðfræðigreind, rýmisgreind, líkams- og hreyfigreind, tónlistargreind, samskiptagreind, sjálfsþekkingargreind og umhverfisgreind.

Til að styðja kenningu sína hefur Gardner meðal annars bent á að greindirnar séu (að hans mati) nokkuð vel afmarkaðar í heilanum; þannig sjá sum heilasvæði meira um eina greind en aðra. Til að styðja það að greindirnar séu aðskildar hefur Gardner líka horft til svokallaðra ofvita (e. savants, idiot savants), misþroska fólks sem hefur þó óvenjulega hæfileika á tilteknu sviði.

Í menntakerfinu hefur fjölgreindarkenningu Gardners verið tekið opnum örmum og segja má að hún sé þar einhvers konar forskrift fyrir námsskrá. Kenningin hefur meðal annars verið notuð til að skapa ýmsar nýstárlegar kennsluaðferðir sem sagðar eru henta hverri greind.

Innan sálfræði og próffræði eru aftur á móti ekki allir eins hrifnir og kenningin hefur verið gagnrýnd á ýmsum forsendum. Mörgum finnst til að mynda hæpið að byggja kenninguna á rannsóknum á ofvitum. Það er skrýtið að tala um háa rök- og stærðfræðigreind hjá fólki sem getur ef til vill nefnt vikudaga langt aftur í tímann en getur ekki með nokkru móti leyst afar einföld reikningsdæmi á borð við 9+7.

Það er líka alveg rétt að heilaskemmdir geta leitt til sérhæfðar skerðingar á getu en það réttlætir ekkert endilega að talað sé um þessa getu sem mismunandi greindir; að heilastöð sjái um eitthvað gerir það ekki sjálfkrafa að greind. Til að mynda eru til heilastöðvar sem sjá um að stjórna svefni og vöku, athygli, kynlífslöngun, svengd og þorsta, en fæstum dytti í hug að tala um svefngreind, kynlífsgreind eða matargreind.

Margir hafa líka gagnrýnt sjálfa hugmyndina um að tala um greindir og telja að Gardner teygi svo verulega á greindarhugtakinu að það nái í raun utan um hvað sem er.

Af ofangreindum ástæðum, og raunar fleiri, líta margir ekki á fjölgreindarkenningu Gardners sem vísindalega kenningu um hugarstarf heldur fremur sem hugmyndafræði eða heimspeki.

Sjá nánar á Vísindavefnum: http://visindavefur.hi.is/?id=5485