Enda gerði Sagan það að æviköllun sinni að vekja áhuga og forvitni fyrir vísindum. Hann skrifaði fjölmargar bækur um geimvísindi og vísindi yfirleitt, sem komust inn á metsölulista. Lykillinn að þeirri velgengni var að hann skrifaði þessar bækur gagngert fyrir “leikmenn”, fólk sem ekki var vísindamenntað, og útskýrði flókin fyrirbæri á skiljanlegan og oft skemmtilegan hátt. Raunverulega heimsfrægð hlaut hann þó fyrst með sjónvarpsþáttunum “Cosmos”, sem nánar verða ræddir á eftir.
Carl Edward Sagan fæddist árið 1934, inn í lítt efnaða fjölskyldu í Brooklyn, New York. Hann minnist þess þó ekki að hafa skort neitt; Í sumum bóka sinna minnist hann í framhjáhlaupi á glaðlega bernsku sína, og hvernig hann sökkti sér í vísindaskáldsögur H.G. Wells og Jules Verne á hverfisbókasafninu, og hvernig hann varð alltaf að skrapa saman nokkur sent á viku til að eiga örugglega fyrir nýjustu tölublöðunum af “Amazing Stories” og fleiri slíkum Sci-Fi tímaritum. Í kjölfarið varð hann mikill áhugamaður um “alvöru” vísindi, og varði flestum stundum sínum í bóklestur og ýmiskonar vísindapælingar.
Það varð því fljótlega ljóst hvert hugur hans stefndi. Hann tók BS í eðlisfræði 1954, mastersgráðu 1956, og árið 1960 fékk hann dokorsgráðu í stjörnufræði og geimeðlisfræði, allt úr Chicago-háskóla. Uppúr því fór hann, enn ekki orðinn þrítugur, að kenna í Harvard. Í krafti slíkrar stöðu varð nánast óhjákvæmilegt að hann blandaðist inni geimferðaáætlun Bandaríkjanna. Hjá NASA vann hann þó fremur við almennar geimrannsóknir og þekkingaröflun en tæknilega útfærslu Mercury, Gemini eða Apollo prógrammana.
1971 fékk hann prófessorsstöðu við Cornell-háskóla. Þar varð hann einn helsti talsmaður hinna ómönnuðu (og gagnslausu, að því er margir töldu) Pioneer og Voyager könnunargeimfara sem skotið var á loft á áttunda áratugnum. Þessum tækjum var ætlað að kanna ytri plánetur sólkerfisins, sem og þau gerðu. Það sem Sagan þótti hinsvegar jafn merkilegt, var að þessi geimför urðu fyrstu (og eru enn einu) tæki smíðuð af mannkyni til að fara útfyrir sólkerfi okkar. Fyrir hans tilstilli voru því settar sérhannaðar koparplötur á þessi för sem ætlað er að vera einskonar “flöskuskeyti” mannkyns til viti borinna vera í alheiminum. Hvort einhver (eða eitthvað) meðtekur þessi skilaboð einhverntíman á næstu milljónum ára, var í huga Sagans aukaatriði. Aðalmálið í hans huga var að jarðarbúar, þessir steinaldarmenn í geimrannsóknum, skildu eftir sig eitthvað sem sýndi öðrum viti bornum verum að við hefðum þó íhugað möguleikann á að annarsstaðar leyndist viti borið líf eða meðvitund.
Þrátt fyrir hina strang-vísindalegu menntun hans, lifði alltaf í honum litli strákurinn í Brooklyn sem gleypti í sig vísindaskáldsögurnar. Sagan var ávallt mjög trúaður á að líf væri til annarsstaðar í alheiminum. Þótt hann gæti ekki full-rökstutt þá kenningu sína, gat hann þó sýnt fram á að ógjörningur væri að “rökstyðja” hið gagnstæða. Þrátt fyrir þessa trú sína, hafði hann alla tíð skömm á svonefndum “úfólógistum”, fólki sem taldi sig hafa séð eða jafnvel komist í samband við geimverur. Þegar hann varð frægur fyrir þessar hugleiðingar sínar varð hann fyrir flóðbylgju af bréfum og símtölum frá ýmiskonar mis-skrýtnu fólki, sem þóttist hafa fundið í honum bandamann. Hann afneitaði alltaf öllu slíku kurteislega, hans hugleiðingar voru byggðar á því sem vísindalega var hægt að sanna, eða ekki að afsanna. Og ekki síður almennri rökhugsun og hæfilegum efasemdum.
Á áttunda áratugnum varð hann frægur fyrir skilmerkilegar og djúphugsaðar bækur sínar um geimrannsóknir og hinn ókannaða alheim, en heimsfrægð hlaut hann fyrir sjónvarpsþætti sína “Cosmos” sem sýndir voru um allan heim uppúr 1980. Í þessum þáttum er farið vítt og breitt yfir sögu mannlegrar þekkingar eins og hún leggur sig, og tengt yfir í merkilegar pælingar um framtíð mannkyns í alheiminum næstu þúsundir ára, og jafnvel lengur.
Þegar horft er á þessa þætti í dag, hefur inntak þeirra fullkomlega haldið gildi sínu, enda ekki verið að tala um mannkynssögu í áratugum, heldur öldum og árþúsundum. Hinsvegar verða áhugasamir nú, að fyrirgefa gamaldags tæknibrellurnar, og pælingarnar um gjöreyðingu heilla menningarsamfélaga í styrjöldum, m.a. hvort einhverskonar “sjálfseyðingarlögmál” gildi um öll menningarsamfélög. Slíkar pælingar áttu vel við í hápunkti Kaldastríðsins árið 1980, en virðast fremur útúr kortinu í dag – þó aldrei skyldi svosem segja aldrei.
En tilfellið er að Carl Sagan var einnig mjög eindreginn talsmaður afvopnunar. Hann hafði fulla trú á því að mannkyninð gæti hugsanlega framið kjarnorku-sjálfsmorð, og leit á það sem köllun sína reyna að koma í veg fyrir slíkt. Hann var einn af þeim frægu vísindamönnum sem settu fram kenninguna um “kjarnorkuvetur” – að allsherjar kjarnorkustríð myndi breyta loftslagi jarðar svo mikið að nánast öllu lífi yrði útrýmt.
Örlítið reyndi hann fyrir sér í skáldskap, og var skáldsaga hans “Contact” kvikmynduð árið 1997 með Jodie Foster í aðallhlutverki. Þess má til gamans geta að sonur hans Nick Sagan hefur getið sér gott orð sem sci-fi höfundur, ekki síst fyrir sjónvarp.
Í síðustu fullkláruðu bók sinni “The Demon Haunted World” sem kom út 1994, beinir Sagan spjótum sínum að þjóðfélagi nútímans, og hversu erfitt vísindi eigi uppdráttar þrátt fyrir alla tæknivæðinguna og betra flæði upplýsinga en nokkru sinni áður í mannkynssögunni. Hann leiðir í þessari bók góðum rökum að því að allskonar hjátrú og vitleysa vaði nú uppi og byrgi almenningi sýn á rökhugsun og góð vísindi, alls ekkert síður en á miðöldum.
Næsta bók hans “Billions and Billions” kom út að honum látnum, og var greinilega skrifuð af manni sem vissi að jarðvist sinni myndi senn ljúka. Í henni eru að finna pælingar um alheiminn og jörðina, þó nú væru þær jafnvel enn heimspekilegri en maður átti að venjast frá vísindamanninum Carl Sagan.
Þar sem honum auðnaðist ekki að ljúka við bókina, er henni lokið með síðustu dagbókarfærslum hans á spítalanum, og stuttum eftirmála eftir Ann Druyan, ekkju hans. Í þeim eftirmála reynir Druyan mjög að ítreka “trúleysi” eiginmanns síns, og þó að mannveran Carl Sagan sé vissulega dáin og horfin að eilífu, muni vonandi verk hans og hugsjónir lifa um aldir. Einhvernveginn hljómar þetta hálf hjákátlega með tilliti til fyrri skrifa Sagans, þar sem hann pælir bókstaflega útí hið óendanlega um óskiljanlegan órageim sem mannkyn hefur ekki ennþá, og mun kannski aldrei ná fullum skilningi á. Af skrifum hans má ráða að þó ekki aðhylltist hann nein trúarbrögð, var hann síður en svo trúlaus.
_______________________