“Geðlæknar eru hins vegar mismunandi, sumir eru f.o.f. í að stjórna lyfjameðferð en aðrir eru meira inni á þesarri ”psychodynamisku“ línu og funkera þá meira eins og sálfræðingar.”
“Sjálf fer ég ekki til miðla, langar stundum til þess, svona svipað og fara til sálfræðings.”
Þetta eru tilvísanir í umræður á Femin.is þar sem sálfræðingar komu eitthvað við sögu. Þetta eru því miður tvö dæmi um frekar algengan misskilning um nám og störf sálfræðimenntaðs fólks.
Ég vil strax taka það fram að með þessari fullyrðingu er ég ALLS ekki að gagnrýna neitt sérstaklega þær konur sem ég vísaði í, og ef til vill er heldur ekki sanngjarnt af mér að taka það sem þær sögðu algjörlega úr samhengi. Ég er bara orðin afskaplega þreytt og í raun og veru sár yfir þeim ranghugmyndum sem almennt séð virðast gilda um sálfræði.
Það sem margir halda um sálfræði
Sálfræði snýst um að hjálpa fólki sem á við geðræn vandamál að stríða. Sálfræðingar telja að skýra megi öll vandamál fólks með tilvísun í æsku viðkomandi, á la Freud. Sálfræðingar túlka drauma fólks. Sálfræði er frekar list en vísindagrein. Sálfræðingar sálgreina fólk.
Hver er raunin?
Sálfræði sem fræðigrein hefur verið til í um 150 ár, en það var ekki fyrr en seint á 20. öld sem sálfræðingar fóru að fást við geðraskanir. Sú undirgrein sálfræði sem fjallar um geðræn vandamál kallast klínísk sálfræði. Klínískir sálfræðingar eru ekki nærri því allir Freudistar, og nú til dags á Freud ekki miklu fylgi að fagna innan sálfræði við HÍ, þar sem kenningar hans byggja ekki á vísindalegum gögnum, heldur fremur hans persónulegu reynslu og túlkun.
Til eru mun fleiri undirgreinar, og þar má nefna greinar eins og lífeðlislega sálfræði, þar sem heili og taugakerfi eru rannsökuð, þroskasálfræði, sem fjallar um hvernig fólk breytist á lífsskeiðinu, félagsleg sálfræði sem fjallar um manninn sem félagsveru, hugfræði, sem fæst við hugarferli, og atferlismótun, sem rannsakar áhrif styrkingar og refsingar á atferli fólks.
Þessar greinar eiga það sameiginlegt að fjalla um hug, heila eða hátterni. Hegðun fólks er algengasta rannsóknarefnið, en sumir sálfræðingar rannsaka hegðun dýra, notast við heilaskimun, mæla virkni einstakra taugafrumna eða gera hermiforrit af hugarferlum. Sálfræði er skyld greinum eins og málfræði, tölvunarfræði, læknisfræði, heimspeki, félagsfræði, líffræði og lífeðlisfræði, og reynir eins og flestar þessara greina að nálgast viðfangsefni sitt með VÍSINDALEGRI TILRAUNAAÐFERÐ. Sálfræði á því lítið skylt við greinar eins og dulspeki, stjörnuspeki, heilun, grasalækningar, draumaráðningar o.s.frv.
Þessar ranghugmyndir eru ekki bara pirrandi, heldur eru þær einnig mjög slæmar fyrir greinina, því þær valda því að fólk sem hefur ekkert með það að gera að vera í sálfræði fer í sálfræði. Það er sök sér, og þetta fólk hættir yfirleitt. Verra er að fólk sem hefur FULLT að gera í sálfræði fer að gera eitthvað annað.
Calliope