Ég horfði á mjög vandaðan og fróðlegan þátt í ríkissjónvarpinu í gær sem heitir “The Big Chill.” Þáttur þessi fjallar um gróðurhúsaáhrif mengunar af völdum mannsins og þá hugsanlegu afleiðingu hlýnunarinnar, sem af auknu magni gróðurhúsalofttegunda stafar, að stórt svæði í Norður-Atlantshafi kunni að fara inn í tímabil fimbulkulda og jafnvel ísaldar þegar á þessari öld.
Í stuttu máli er kenningin sú að vegna hlýnunarinnar í lofthjúpi jarðar bráðna jöklar á norðuhveli hraðar en áður og þannig rennur aukið magn ósalts vatns til sjávar. Þetta kann samkvæmt kenningunni að valda því að sjórinn í Norður-Atlantshafi léttist og við það hægist á, og jafnvel stöðvast, uppspretta úthafsfæribandsins svonefnda. Þetta leiðir til þess að Golf-straumurinn hættir að berast norður og loftmassinn við Norður-Atlantshaf mun kólna því hann fær þá engan varma lengur frá hinum hlýja Golf-straumi.
Þannig sýnist mörgum vísindamönnum að hlýnunin í lofthjúpi jarðar, af völdum gróðurhúsalofttegunda sem mannskepnan spýr út í loftið, kunni að verða einungis skammgóður vermir – hlýnunin gæti sem sagt leitt til ísaldarástands í Norður-Atlantshafi.
Þetta gæti skollið á mjög hratt, raunar á seinni hluta 21. aldarinnar. Og ef/þegar þetta gerist munu búsetuskilyrði í löndunum við Norður-Atlantshaf – þ.e. á Íslandi, Bretlandseyjum, Skandinavíu og víðar – spillast mjög og mikilla áhrifa mun gæta á öllum sviðum samfélaganna.
Í lok þáttarins er minnst á nýjar rannsóknir vísindamanna í Norður-Atlantshafi sem sýna að seltustigull – frá yfirborði til undirdjúps – hefur minnkað, raunar um 20% á örfáum árum. Þetta er sterk vísbending um að kenningarnar sem hér um ræðir séu á rökum reistar og að þegar sé farið að hægjast á “vélinni” sem knýr úthafsfæribandið mikla.
Þetta eru váleg tíðindi sem ekki má skella skolla eyrum við. Taka ber þessum vísindamönnum alvarlega.
En hvað er til ráða? Vatnið sem nú rennur úr bráðnandi jöklum á norðurhveli er nú þegar svo mikið á ársgrundvelli að mér sýnist helst að breytingarnar verði enn hraðari en okkur órar fyrir. Og jafnvel þótt við legðum bílum okkar þá hefur magn gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum aukist svo mikið að jöklarnir myndu halda áfram að renna með offorsi til sjávar og minnka seltumagnið í Norður-Atlantshafi.
Þegar maður hugleiðir þessa válegu þróun, og þróunina á öðrum sviðum umhverfismála jafnframt, þá fallast manni í raun hendur. Það virðist blasa við að innan skammrar tíðar munu verða geysimiklar breytingar á lífsskilyrðum hér á jörð. Nú þegar er farið að gæta hlýnunar í lofthjúpi jarðarinnar. Sjávarborð á eftir að hækka og landssvæði fara undir sjó. Búsetuskilyrði eiga eftir að breytast mikið víða á jörðinni. Og fjölmennt mannkynið á eftir að halda áfram sínum upptekna hætti og aðeins af veikum mætti reyna að sporna gegn þróuninni; pólitík og vísindi eiga ekki skynsamlega samleið. Allt á eftir að harðna; veðráttan og baráttan um brauðið. Það eina sem maður virðist geta gert er að horfa upp á hörmungarnar hellast yfir okkur en reyna af mætti að takast á við afleiðingarnar hverjar svo sem þær verða.