Ekki nóg með að Gabbler er að velta þessu fyrir sér hér á íslandi heldur hefur NASA verið að athuga þennan möguleika í löngum flugferðum í gegnum geiminn í framtíðinni. Hægt væri að nota súrefnisframleiðslu plantna (ef nægt sólarljós er) til að halda lífi í geimförum. En nóg um það… hér kemur þetta.
Ör-Lífhvolf er einfaldlega flaska eða brúsi (2-25 lítrar) sem inniheldur örsmátt lokað vistkerfi svipað og gerist hér á jörðinni nema í margfalt minni skala. Ekkert fer inn eða útúr lífhvolfinu nema útfjólubláir geislar inn og geislahitun út. Allt sem lífið þarf á að halda er inní flöskunni þegar lokið er sett á. Örverurnar og plönturnar sem hafðar eru í lífhvolfinu endurnýta stórann hluta af þeim efnum sem eru til staðar. Vatnið, kolvetnið og súrefnið gengur á milli lífvera og endurnýtist í sífellu.
Ætla ég hér að rekja í stuttu máli hvernig hægt er að búa til sitt eigið lífhvolf með lítilli fyrirhöfn.
Eins og ég sagði áður þá eru svona Ör-Lífhvolf höfð í flöskum eða brúsum og eru algjörlega þétt og lokuð fyrir umhverfinu. Hvorki kemst loft eða raki út eða inn. Nauðsynlegt er að ílátið sé algjörlega þétt til að lífhvolfið verði sem óháðast utanaðkomandi umhverfi. Varla væri mikið mark takandi á þessu ef hægt væri að hleypa inn “fersku” lofti.
Efni og áhöld:
1. Flaska, brúsi eða lokað fiskabúr (2-100 lítrar).
2. Fín sjávarmöl.
3. Viðarkol (svipað og notuð eru við að sía landa (fæst í blómabúðum)).
4. Pottamold
5. Viðarbútar, trjábörkur og laufblöð.
6. 1-? margar inniplöntur sem vilja mikinn raka (ekki kaktus eða þykkblöðunga).
7. Nokkri vatnsdropar og úðabrúsi.
Sniðugt er að nota sem ílát stóru kringlóttu vatnsbrúsana sem eru ofaná vatnstækjunum. Þeir eru um 20 lítrar held ég og alveg glærir. Selecta minnir mig flytur þetta inn.
Venjulegar inniplöntur eiga alveg að duga í þetta. Ef þú vilt hafa mikið af vatni er sennilega hægt að finna einhverjar plöntur í fiskabúðum sem eru bæði fyrir vatn og loft. Svo eru líka til aðrar tegundir af svona lífhvolfum sem eru fullar af vatni. Og þá eru þau stundum með sniglum og dótti með.
Hægt er að gera tilraunir með hinar og þessar plöntur. En allar verða þær reyndar að vera fyrir mikinn raka.
Jæja hvernig gerir maður þetta?
1. Blandaðu saman viðarkolunum og mölinni og settu á botninn í brúsanum. Þykktin ætti að vera svona sirka 3cm. Ef þú ert með lítið gat á brúsanum þá gæti verið gott að nota langa spítu (rakettuprik) til að ýta þessu til og jafna út.
2. Legðu pottamoldina yfir þar til hún verður um það bil 8cm djúp og liggur ofaná viðarkolunum og mölinni (Blandast sem minst).
3. Úðaðu smá vatni yfir moldina til að gera hana raka. Ekki bleyta hana of mikið því það er auðveldara að bæta meira seinna. 0.2 - 0.5 lítrar ættu að duga.
4. Undirbúðu plönturnar til að fara í brúsann með því að hrista moldina af rótunum og leggja þær varlega á hliðina ofaná dagblað eða eithvað álíka. Skoðaðu vel hvort ræturnar eru skemmdar og kliptu í burtu allt það sem ekki á heima þarna. Einnig getur þú snyrt plöntuna sjálfa smávegis til.
5. Ákveddu hvernig þú vilt að uppröðunin sé (ef þú ert með stórann brúsa). Stórar hraðvaxta plöntur aftast og litlar hægvaxta fremst. Einnig gætir þú komið fyrir grjóti eða einhverju sem minnir á náttúruna. En til að byrja með er sennilega best að sleppa öllu skrauti.
6. Plantaðu plöntunum. Þetta getur verið mjög erfitt ef stúturinn er grannur. Best er að nota prikið (rakettuprikið) til að pota holu í moldina og reyna svo að troða plöntunni einhvernvegin ofaní hana :). Ekki verra að hafa smá reynslu sem kvensjúkdómalæknir við þessar æfingar. Ekki vitlaus hugmynd að koma smá mosa fyrir þegar búið er að setja plönturnar niður (svona til að auka fjölbreytnina).
7. Úðaðu nú svolítið meira af vatni yfir plönturnar og einnig á moldina ef hún hefur náð að þorna eithvað. Alls ekki ætti að nota mjög mikið vatn því þá er hætta á að rætur plantnanna byrji að rotna… ojiii. Hægt er að nota beina bunu á úðabrúsann til að skola niður mold sem fest hefur innaná glerið eða plastið.
8. Dreyfðu smá af laufblöðum, trjáberki og viðarflísunum milli plantnanna. Ekkert of mikið neitt… bara smávegis.
9. Lokaðu brúsanum! Skrifaðu niður hjá þér dagsetningu og tíma til að hafa þetta allt saman vísindalega gert. Ekkert vera að innsigla tappann því mjög líklegar þarftu að opna eftir smá tíma og bæta við vatni.
10. Láttu Ör-Lífhvolfið þitt nú á góðann stað þar sem sólin nær aldrei að skína. Beint sólarljós hitar loftið inní brúsanum allt of mikið og því ber að forðast það sem heitann eldinn. Best er að koma fyrir fiskabúraperu eða bara venjulegri 40-60 Watta peru og láta hana lýsa á Lífhvolfið 10-12 klst á dag. Í lagi er að koma Lífhvolfinu fyrir útí glugga ef hann snýr að norðri og sólin nær ekki að skína þar.
11. Fylgstu mjög vel með plöntunum næstu daga. Ef þær virðast slappast, gulna, þorna eða fölna þá skaltu bæta við smá vatni. Taktu þá bara tappann af og úðaðu með úðabrúsanum nokkrum gusum. Það fer að sjálfsögðu allt eftir stærð lífhvolfsins hversu mikið er hægt að bæta við. En mundu að verra er að taka vatn í burtu en að bæta við.
Jæja nú ætti þetta að vera tilbúið. Ef plönturnar virðast vera hraustar láttu þá brúsann alveg vera. Plönturnar og örverurnar í brúsanum ná jafnvægi. Ef þú bætir við áburði eða einhverju öðru gætiru raskað hárfínu jafnvægi og drepið allt í brúsanum.
Hvað er í raun að gerast?
Það sem gerist er að plönturnar og örverurnar lífa á hvoru öðru. Plönturnar nota ljósstífun til að framleiða súrefni og taka til sín kolvetni (co2 = o2 + c)úr loftinu og nota það til að vaxa. Örverurnar hinsvegar “borða” kolvetni frá plöntunum til að vaxa en nota til þess súrefni sem þær binda í kolvetninu (c + o2 = co2). Annars er ég nú ekki mjög góður í efnafræði… en svona held ég að þetta gerist allavega. Plönturnar og örverurnar geta ekki lifað endalaust með þetta jafnvægi því eithvað af mjög mikilvægum efnum eyðist vegna smæðar kerfisins. Vistkerfi jarðarinnar er nógu stórt til að þetta jafnvægi haldist nánast fullkomlega.
Ef Ör-Lífhvolfið lifir í nokkrar vikur gætir þú tekið eftir því að plönturnar hætta að vaxa. Þetta er vegna þess að Ör-Lífhvolfið er búið að mynda jafnvægi á milli þess kolvetnis sem er í loftinu, jarðveginum og plöntunum.
Það gæti verið gaman að bæta við einhverju dýrum eins og ánamaðk eða bjöllu. Passaðu þig bara á því að bæta ekki við skordýrum sem éta plöntur. Leiðinlegt að koma að Ör-Lífhvolfinu einn morguninn með engum plöntum en bara einni feitri bjöllu.
Jæja… Nóg í bili.
Kveðja Gabbler.
ps…. ef þú ert nógu vísindalega sinnaður til að prufa þetta… endilega láttu mig vita hvernig gékk… Takk.
“Það sem aldrei hefur gerst getur alltaf gerst aftur”