Það var gott veður í morgun svo ég ákvað að drífa mig, labba eitthvað áleiðis upp Hlíðarfjall, jafnvel upp á brún og skoða snjóaðstæður. Auðvitað kippti ég skíðunum með því ég hélt að ég gæti jafnvel rennt mér eitthvað niður.
Smellti á mér bakboka, keyrði upp í Hlíðarfjall(rétt dreif), og byrjaði að labba upp. Og þvílíkt vanmat! Ég gerði mér enga grein fyrir því hvað það er kominn mikill snjór þarna uppi og þegar ég labbaði meðfram stólalyftunni upp var ekki óalgent að snjórinn næði mér vel áleiðis upp að mitti. Svona millistíft púður.
Vegna þess að snjórinn var svo mikill og ég bara einn í þetta skiptið ákvað ég að nenna ekki að fara lengra en eitthvað aðeins upp strýtubrekkurnar. Fór í klossana, smellti skíðunum á og fór af stað.
Fyrstu metrarnir meðan ég var í strýtubrekkunum voru virkilega sweet, en um leið og hallinn minnkaði í fjarkanum varð snjórin skíðunum mínum ofviða og ferðin fór niður í nánast ekki neitt.
Nú er bara að panta sér lengri og breiðari skíði og fara í meiri halla, lengra upp í fjall:D!
Svo er bara að vona að þetta haldist í fjallinu því að þá er þetta rosaleg byrjun á vetrinum…