“Mun öflugri örgjörvar
Bandaríski tölvuframleiðandinn IBM tilkynnti í gær að tekist hefði að framleiða nýja tegund hálfleiðararásar, sem er mikilvægasti hlutinn í örgjörvum, en þeir stýra vinnslu tölvu, ekki síst hraða vinnslunnar. Mun hálfleiðararásin vera mun öflugri en eldri tegundir en fulltrúar fyrirtækisins sögðu að þessi nýja rás gæti unnið á 110 GHz hraða en örgjörvar í dag vinna jafnan á 1,5 GHz hraða.
Talsmenn IBM sögðu að nýir örgjörvar fyrirtækisins hefðu að geyma efni, sem þeir kalla ”SiGe 8HP“. Bætir það germaníum við innviði sílikonsins sem er meginuppistaða flestra örgjörva. Þessi tækni var kynnt til sögunnar af IBM þegar árið 1989 en hefur fram að þessu að mestu aðeins verið notuð í einfaldari raftækjum, s.s. farsímum.
Sagði í yfirlýsingu IBM að örgjörvarnir nýju yrðu komnir á markað undir lok þessa árs. Framleiðendur örgjörva hafa lagt mikla áherslu á að framleiða æ öflugri örgjörva í þeirri von að það gæti orðið til að efla á nýjan leik markað með tölvur.”
Veit einhver meira um þetta? Verður þetta fyrir almenning eða bara fyrir ofurtölvur sem keyra servera? Gaman væri að fá frekari upplýsingar um þetta.
Góðar stundir.