iBOOK
Fyrir um það bil tveimur klukkustundum kynnti Apple nýja útgáfu á skólatölvu sinni, iBook. Tölvan er öll hin fegursta og minnir um margt á Titanium ferðavélina sem kom út fyrir skömmu. Gamla iBook sló algjörlega í gegn á sínum tíma og hefur selst mjög vel, þá sérstaklega á skólamarkaði. Sama stefna er tekin með nýju tölvuna ef marka má síðu Apple í Bandaríkjunum. Tölvan er mjög stílhrein, rétt rúmir þrír sentimetrar á þykkt og einungis 2,5 kíló að þyngd. Örgjörvinn er 500 megariða og er sem fyrr G3. Hægt er að fá hana með 64 eða 128 MB vinnsluminni en hægt er að bæta við allt að 512 MB í hana að auki. Hörðu diskarnir eru 10 og 20 GB og er það valið við kaup. Tengimöguleikarnir eru sömu og áður og ber þar mest á FireWire tenginu. Skjárinn er ennþá einungis 12.1 tommu en upplausnin verið aukin upp í 1024x768 pixla. Það sem er þó skemmtilegast við tölvuna er drifið. Ódýrasta útgáfan ($1,299) kemur með geisladrifi, næsta ($1,499) er með DVD drifi, svo kemur ein með geislaskrifara ($1,599) og þetta toppast svo með combo drifi sem er bæði skrifari og DVD spilari ($1,799). Það má alveg reikna með því að þessi tölva verði upppöntuð frá byrjun alveg eins og gerðist með Titanium tölvuna. Áætlað er að fyrstu tölvurnar verði seldar í miðjum maí en hvenær hún kemur hingað til lands höfum við ekki á hreinu. Nú er bara að sitja um Apple búðina hér heima og kaupa eitt stykki þegar hún lendir.