Nú er nokkuð síðan sett var inn grein hér á þetta áhugamál. Mig langar því að leggja mitt af mörkum og vekja máls á tilteknu atriði sem trúlega snertir okkur alla sem fylgjumst með straumum og stefnum í vélbúnaði. Mér finnst líka yfirlitið yfir greinarnar hérna bera nokkurn brag af því að menn séu að skamma Tölvulistann. Tölvulistinn er að mínu mati búinn að fá sinn skammt, a.m.k. í bili.

Eftirfarandi greinarstúfur birtist á www.jonas.is 30. okt. 2003:

“Lifun er hórukassi
Fyrir fáum áratugum var íslenzk blaðamennska siðvædd að vestrænni fyrirmynd með skörpum skilum milli auglýsinga, skoðana og annars efnis blaða. Auglýsingar í efnisformi voru fyrirlitnar og kallaðar hórdómur. Þetta var skammgóður vermir. Með aukinni markaðshyggju og almennu siðleysi í þjóðfélaginu seig aftur á ógæfuhliðina, fyrst með svonefndri kostun í ljósvakamiðlum og síðan með svonefndri kynningu í prentmiðlum. Niðurlæging fjölmiðlunar er svo orðin alger í blaði eins og Lifun, fylgiriti Morgunblaðsins. Þar er allur texti meira eða minni kynning vörumerkja, meira að segja mataruppskriftirnar. Blaðið er rangnefnt og ætti að heita Hórukassinn.”

Hvað varðar þetta okkur sem fylgjumst með vélbúnaði? Á netinu er fjöldinn allur af síðum sem fjalla um vélbúnað. Mér segir svo hugur að flestir okkar sem stundum þennan vef séum líka á öðrum síðum að drekka í okkur upplýsingar (reviews) um íhluti. Síðan förum við gjarnan með þessar upplýsingar á korkana hérna og látum ljós okkar skína. Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort við setjum það niður fyrir okkur hversu vandaðar þessar síður eru? Hversu góðar eru upplýsingarnar?
Hvað kostar í tíma og peningum að gera út góða vélbúnaðarsíðu og hvernig er það þá fjármagnað? Mér finnst ég oft lenda í því að vera lesa lélega texta (reviews) um vélbúnað. Þessir textar eru oft mjög froðukenndir og bera þess sterkan keim að vera “kynning” vörumerkis en ekki fagleg umfjöllun. Sumar vélbúnaðarsíður virðast ekki hafa þessi skil milli auglýsinga og efnis sem Jónas er að tala um. Þannig er umfjöllunin í raun dulin auglýsing. Góðar síður hljóta að kosta mikla peninga. Það er eðlilegt að bransinn (þ.e. framleiðendur og seljendur vélbúnaðar) borgi þessar síður. Þeir eiga þó að koma hreint fram og ekki að reyna að skrökva sig inn á neytendur í s.k. kynningum. Það er líka eðlilegt að þeir sem sæki þessar síður (þ.e. við) borgum fyrir okkur og látum fé af hendi rakna eins og stundum er farið fram á.
Ég velti þessu hér með upp til umhugsunar. Að lokum bendi ég á tvær síður sem ég fer gjarnan á og mér finnst nokkuð ómengaðar af kynningum.

http://www.digit-life.com/
Þessi síða er oft með ágæta umfjöllun (review) um skjákort og reyndar ýmislegt fleira.

http://www.lostcircuits.com/
Þessi er með góðar greinar og kemur hreint fram í því að biðja um framlög til síðunnar sbr.
“If you enjoyed reading this article and found it useful, please consider making a small donation to LostCircuits.
Thank you!”

Ef þið hafið góða reynslu af einhverjum síðum þá góðfúslega deilið því með okkur hinum.

Kveðja,
FlipFlop