Ég hef núna í marga marga MARGA mánuði verið á NAT veiðum til þess að shara internet tengingunni minni á milli tveggja tölva. Ég hef prófað hin og þessi forrit og það er munur á því hversu vel þau nýtast. Það skal tekið fram að hversu ótrúlegt sem það er hefur Sygate ekki virkað hjá mér!
Winproxy (www.winproxy.com) - virkar frábærlega! 30 daga demo fáanlegt á staðnum, leyfir ALLS konar meðhöndlun til að opna ports, bæði UDP og TCP og tengingar inn eða út. Að auki er hægt að stilla þannig að Winproxy starti sér ÁÐUR en notandi loggi sig inn. Þ.e.a.s þú bara kveikir á internettölvunni og skiptir þér ekki meir af henni.
All_Aboard (www.internetshare.com) - ef eitthvað er það þægilegra en winproxy, en er ekki ALVEG jafn meðhöndlanlegt. All_Aboard er með port mappings möguleika, en bara út á við. Þannig að það er ekki hægt að fikta við þetta til að komast á Mplayer og svoleiðis, sem vill fá að tengjast INN líka. Heftir ekki mikið þó það sé demo, en það eru MIKLU fleiri möguleikar í Business edition, sem eins og mátti búast við, er ekki til reynslu.
NAT32 (www.nat32.com) - er með þetta í testi núna. Frekar pirrandi klukkutími sem að demoið leyfir manni að tengjast og leyfir manni ekki að nálgast marga fítusa eins og port mappings. Virkar þó andskoti vel.
ComSocks (www.linkbyte.com) - þetta forrit er eins og einhver hafi klónað winproxy og gert svona almúgaútgáfu af því. Nákvæmlega sömu möguleikar, nema hvað í port mappings er ekki hægt að mappa mörg port í einu, eða t.d. frá porti 2300 til 2400. Einnig er held ég ekki hægt að láta forritið fara í gang með tölvunni strax í byrjun.
Samt frábært forrit, óheft og öflugt. Ef ekki væri þetta forljóta nafn….
Internet Connection Sharing - Þetta er það sem fylgir með WinME og, að ég held, Win98SE. Ég prófaði þetta og var bara ánægður með lausnina. Virkar ágætlega, en leyfir engin port mappings. Fer þó sjálfkrafa í gang þegar að þú tengist netinu svo að það er punktur.
Öll þessi forrit geta tengst t.d. counterstrike serverinum sjálfkrafa. Winproxy er stillanlegast og öflugast að mínu mati, en ekki láta litla þrjótinn í þér dreyma um að redda bara keygenerator og ná honum þannig. Ég segi ekki meir um það að svo stöddu. Mér hefur enn ekki tekist til að fá Gamespy til að stofna eða joina leik í Baldur's Gate 2.. Frekar leiðinlegt, en ég lifi.
Vona ég svo að þetta komi þér að einhverju gagni.
“He who studies evil, is studied by evil.”