En hver er mælikvarðinn á raunveruleg afköst ?
Ekki er laust við það að fólk tapi áttum þegar kaupa á tölvu. Slíkt er flóðið af megabætum(Mb), megabitum(MB), megariðum(Mhz), gígabætum(Gb) og gígariðum(Ghz) sem í boði er að varla er nokkur leið fyrir meðalmann að henda reiður á þetta allsaman.
Flestir neytendur halda að tiftíðni (Mhz tala) örgjörva tölvunnar segi til um hversu öflug hún er og kaupa sér því tölvu eftir því. Keppast því sumir framleiðendur við það að framleiða örgjörva með sem flestum Mhz. En Mhz stendur fyrir; milljónir aðgerða á sekúndu.
Í þessu stríði framleiðanda hefur Intel vinninginn með Pentium örgjörvalínunni sinni og hyggst fyrirtækið senda frá sér örgjörva í lok árs sem mun fara yfir 3Ghz.
Hvernig munu neytendur bregðast við?
Munu neytendur þá kaupa örgjörva frá AMD sem aðeins tifa uppað rúmum 2,3Ghz?
Og hvað með Apple, nú eru Apple tölvur að malla svona í 800-1,25 Ghz. Eru þetta ekki margfalt lakari tölvur?
Almenningur er ekki nógu vel upplýstur um það sem raunverulega er að gerast inní tölvunni þeirra. Það er ályktun flestra eins og fyrr segir að fleiri milljónir aðgerða skili sér beint í meiri afköstum en það þarf ekki endilega að vera.
Örgjörvar er ekki forspáir. Þeir eru í raun bara reiknisverk sem vinnur útfrá gefnum forsendum eða skipunum. Nútíma örgjörvar vinna út frá ákveðnu setti af grunnskipunum og er fjöldi þeirra misjafn eftir gerð örgjörvans.
Til eru tvennskonar grunngerðir örgjörva; CISC(Complex Instrution Set of Commands) og RISC(Reduced Instrutions Set of Commands). RISC örgjörvar eru mikið notaðir í miðtölvur, netþjóna og flestar afkastameiri tölvur. RISC örgjörvar komast að sömu niðurstöðu við útreikninga sína og CISC örgjörvar en gera það með færri aðgerðum.
Fyrsta PC tölvan sem kom á markað á níunda áratugnum var með CISC örgjörva. Ákveðinn staðall var þannig skapaður og þeir örgjörvar sem notaðir eru í PC tölvur á heimilum í dag byggja á sama grunni og eru því af CISC gerð. Í þá hefur hinsvegar verið bætt töluvert mikið af RISC skipunum en grunnurinn helst sá sami. CISC kjarninn takmarkar afköstin að miklu leiti. Því er sífellt leitast við að fá tiftíðni örgjörvana til að vera meiri til að ná upp afköstunum.
Fyrirtækið AMD hefur verið þekkt fyrir að framleiða örgjörva sem að skila hlutfallslega meiri afköstum miðað við færri Mhz en örgjörvar frá helsta samkeppnisaðilanum Intel.AMD nær þessu með því að framleiða örgjörva sem hafa fleiri RISC skipanir í sér en eru í kjarna örgjörva frá helsta samkeppnisaðila sínum Intel.
Þrátt fyrir hið mikla stríð sem á sér stað í PC heiminum og þau gríðarlegu stökk sem hafa orðið í tiftíðni örgjörva þar hefur þróunin hjá Apple verið mun hægari.
Apple tölvur hafa nokkuð þó náð að halda markaðshlutdeild sinni og þá sérstaklega meðal grafískra hönnuða og auglýsingateiknara sem vinna með þungar myndir.
Lykilatriðið hér er að Apple notar 64 bita PowerPc örgjörva sem eru hreinræktaðir RISC örgjörvar. Afköst Apple tölva er því mun meiri hlutfallslega séð en sambærilegrar PC tölvu.
PowerPC örgjörvar komu fyrst fram á sjónarsviðið árið 1994 og var grunngerð þeirra sameiginlegt hönnunarverkefni IBM, Apple og Motorola.
Þar sem Apple framleiðir ekki lengur vélbúnað þá hefur Motorola þróað og framleitt örgjövana í Apple tölvurnar undanfarin ár. IBM hefur haldið sér fyrir utan þetta samstarf og frá árinu 1994 þróað sína eigin örgjörva sem byggjast á PowerPC grunninum. Slíkir örgjörvar eru notaðir í öllum stærri vélum fyrirtækisins sem og í ýmsum stjórntækjum og miðlægum tölvum út um allan heim.
Í dag er IBM komin lengra í þróun örgjörva en nokkur annar framleiðandi. IBM hefur í dag undir höndum vinnsluhæfan 128bita PowerPc örgjörva en til samanburðar þá eru INTEL og AMD ennþá að rembast við að þróa sinn fyrsta almennilega 64bita örgjörva.
Yfirburðir IBM eru ekki öllum ljósir þar sem PowerPC örgjörvar eru ekki algengir í tölvuumhverfi almennings og því samanburðurinn erfiður.
Það er þó stutt í að þetta breytist. Þann 14. október síðastliðinn gaf IBM frá sér fréttatilkynningu þess efnis að í um mitt ár 2003 muni fyrirækið setja á markað PowerPC örgjörva sem ætlaður er fyrir heimilistölvur. Hönnun örgjörvans byggir á kjarna örgjörva sem hannaður var til notkunar í ofurmiðlurum fyrirtækisins. Mun þessi örgjörvi koma til með að tifa í byrjun á 1,8Ghz og má gróflega áætla að hann muni skila tvisvar til þrisvar meiri afköstum heldur en 3Ghz örgjörvinn sem Intel ætlar að senda frá sér í lok þessa árs.
Í dag eru flestir örgjörvar framleiddir með 0,18míkróna bili milli leiðara. Til að ná fram meiri tiftíðni þarf að minnka bilið milli leiðaranna. 3Ghz örgjörvi Intel sem væntanlegur er um áramótin er t.d. með 0,13míkróna bili milli leiðara. Þegar skipt er úr framleiðslu örgjörva úr 0,18míkrón í 0,13míkrón þarf að reisa nýja verksmiðju vegna þess að allt framleiðsluferlið og tækin þurfa að miðast við hvert bilið milli leiðara örflögunnar á að vera.
Örgjörvaverksmiðjur eru gríðarstórar og ná yfir hundruð hektara lands og er framleiðsluferlið er gríðarlega langt og kostnaðarsamt. Við byggingu nýrrar örgjörvaverksmiðju hleypur kostnaðurinn á margföldum fjárlögum íslenska ríkisins og er það því ekki á færi hvaða fyrirtækja sem er að fara út í slíkar framkvæmdir.
Því er spáð aðeins 4 fyrirtæki hafi efni á því að halda þróun örgjörva áfram eftir árið 2005 þegar 0,09míkróna örgjörva munu líta dagsins ljós. Þessi fyrirtæki eru IBM, AMD, Intel og Sun. Vegna bágrar fjárhagstöðu sinnar kemst Motorola ekki á þennan lista.
Hvað gerist þá? Hver á þá að framleiða vélbúnaðinn fyrir Apple? Hvað varður um allar þær milljónir notenda sem elska Apple og vilja halda áfram að nota þær tölvur við leik og störf?
Apple hefur staðið sig frábærlega við þróun hugbúnaðar og notendaviðmóts. Apple menn hafa í dag yfir að ráða einu fullkomnasta og notendavænsta stýrikerfi sem til er á markaðnum. En það er ekki nóg ef vélbúnaðurinn til keyrslu þess er ekki til staðar. Það er nokkuð ljóst að Apple mun árið 2005 verða háð því að IBM útvegi þeim PowerPC örgjörva ef starfsemin á ekki að leggjast niður.
Vegna þessarar staðreyndar hafa sprottið upp að undanförnu miklar umræður á veraldarvefnum um hvort IBM muni hreinlega ekki bara kaupa Apple og nota fyrirtækið og vörur þess til að fara í beina samkeppni við bæði Intel og Microsoft. Þykir ljóst að þær PowerPC tölvur sem framleiddar yrðu af IBM undir merkjum Apple myndu slá PC tölvum með Intel örgjörvum og Windows stýrikerfi ref fyrir rass bæði í afköstum og notendaviðmóti.
Hingað til hefur framboð á tölvuleikjum fyrir Apple tölvur verið heldur takmarkað og hefur það verið ein helsta ástæða þess að PC tölvur eru meira keypta inná heimilin. Þetta kann þó að breytast í kjölfar þess að IBM mun hefur tekið að sér að framleiða næstu kynslóðir af leikjatölvum bæði fyrir SONY og NINTENDO byggða á PowerPC tækninni. Auðvelt ætti að vera að endurforrita þá tölvuleiki sem framleiddir yrðu fyrir þessar tölvur yfir í PowerPC viðmótið sem að Apple tölvurnar nota. Í framtíðinni myndi því væntanlega gríðarlegt magn tölvuleikja verða fáanlegt fyrir Apple tölvur með lítilli fyrirhöfn.
Playstation3 er væntanleg á markað fyrri hluta 2004 og vélin fyrir NINTENDO um hálfu ári síðar. Þessar tölvur munu innihalda gríðarlega öfluga útgáfu af PowerPC örgjörva sem gengur undir vinnuheitinu “The Cell” og má ætla að vopnaðar honum muni þær slá við öllum PC tölvum í dag.
Það sem gerir“The Cell” svo sérstakan er að hann mun ekki einungis koma til með að þjóna sem grunnreikniverk tölvunnar heldur mun örgjörvinn einnig sjá um hljóð, grafík og samskipti tölvunnar út á við, bæði við veraldarvefinn sem og aðrar tölvur. Kubbar og tengispjöld sem séð hafa um þetta áður munu því detta út og umfang tölvunnar minnka töluvert.Vegna þessara einstöku eiginleika “The Cell” er gert ráð fyrir því að ódýrari útgáfur hans verða settar í farsíma, lófatölvur, ískápa, bíla og margt fleira.
Það er óhætt að segja að framtíðin sé björt hjá IBM á næstu árum ef allt gengur að óskum. Þessi heimur tekur þó stöðugum breytingum og ný uppfinning getur komið fram í dagsljósið á morgun sem kollvarpað getur öllum þeim hugmyndum sem við höfum í dag um örflögur og möguleg reiknisafköst þeirra.
In the future there will be no jobs