Um meðferð vopna gilda vopnalög nr. 16/1998. Um meðferð annarra vopna en skotvopna gilda reglur V. kafli laganna. Í 1. mgr. 30. gr. laganna kemur fram að vopnaburður á almannafæri er bannaður. Þó er heimilt að bera á sér bitvopn þar sem eðlilegt og sjálfsagt getur talist, svo sem við vinnu eða veiðar eða í öðrum tilvikum þegar engin hætta er því samfara. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar sömu laga er bannað að flytja til landsins, framleiða, eignast eða hafa í vörslum sínum, ýmis vopn t.d. bitvopn (hníf o.s.frv.) ef blaðið er lengra en 12 sm enda sé það ekki ætlað til notkunar við heimilishald eða atvinnu. Þá á bann 2. mgr. við fjaðrahníf, fjaðrarýting, fallhníf, fallrýting, stunguvopn eða önnur slík vopn, sverð, kaststjörnu, kasthníf eða önnur slík vopn. Fjaðrahnífar eru þannig útbúnir að blaðið er falið í skaftinu. Með því að ýta á hnapp skýst blaðið fram fyrir áhrif fjaðrarinnar. Fjaðrarýtingar eru sama eðlis að öðru leyti en því að í stað hnífsblaðs er rýtingsblað eða stingur. Fallhnífur eða fallrýtingur hefur sömu virkni, en útbúnaðurinn er þannig að opinu á skaftinu er snúið niður og ýtt á takka og fellur þá hnífsblaðið niður vegna þunga síns. Undir ákvæðið mundu falla svokallaðir „Butterfly“ hnífar sem eru þess eðlis að skaftið er tvískipt og þegar það er opnað kemur hnífsblaðið í ljós. Hægt er að opna skaftið með snöggri handarhreyfingu. Þannig eru allir hnífar með sjálfvirkri opnun eða eru opnaðir með snöggri handarhreyfingu þannig að hnífseggið kemur í ljós, bannaðir. Almennir vasahnífar, eins og mikið eru notaðir af ferðamönnum, t.d. Swiss army knife, þessir rauðu litlu, þar sem notandi þarf að toga upp hnífsblaðið eru leyfðir. allt sem þú þarft að vita