Ég var í gærkvöldi staddur í grillveislu með góðum hópi ungra mæðra og krakka. Einhvernveginn atvikaðist það að eftir matinn festust konurnar allar við að horfa á einhverja þvælubíómynd sem fékk tárin til að renna niður kinnar.
Ég ákvað að fara með krakkana í smá skurð sem var þarna rétt hjá sem í rann lækur. Sandkassaleikföngin voru tekin með svona til að svala mokstrarþörf einhverra.
Við komum að læknum og það er stokkið í lækinn og vaðið svoldið. Allt í einu hrópar einn snáðinn að hann hafi séð fisk skjótast undir einn bakkann. Ég fer og kanna málið og sé að það eru nokkur hornsíli þarna í kös. Krakkarnir verða áhugasöm og einhver vill veiða þau. Það er farið í veiðikeppni og koma sandkassatólin að góðum notum. Krakkarnir voru komnir út um allan læk og fyrstu fiskarnir komnir í stóru fötuna. Skóflur, sigti og drullukökuform voru notuð til að skófla fiski upp og koma fyrir í fötu. Hálftíma síðar erum við þess fullviss að ekki er einn einasti fiskur eftir í læknum og kíkjum í fötuna. 17 hornsíli í ýmsum stærðum, frá 2,5 cm alveg upp í 5 cm boltasíli. 10 augu lágu á fötubarminum og einstaka puttar fóru ofaní til að pota.
Nú var kominn tími til að fara að koma sér heim á leið og allir vildu taka með sér fiskana sína. En eftir smá fortölur og sérstaklega þegar að krakkarnir komust að því að sílin myndu eflaust enda í að synda niður klósettfossinn þá voru allir sáttir við að sleppa þeim aftur í lækinn svo við gætum bara veitt þau seinna aftur.
Þegar við komum aftur í húsið var hellt upp í heitt kakó, sagðar veiðisögur af boltasílum og fleiri veiðiferðir planaðar.

Millennium