Laxveiðin í sumar Ég ætla að aðeins að skrifa um laxveiði síðasta sumars, vonandi öllum til skemmtunar og fróðleiks.

Í sumar veiddust um 72200 laxar sem verður að teljast mjög fín tala. Það er hinsvegar 14% minni veiði en seinasta ár, en þá veiddust um 84100 laxar. Mikill munur er á svokölluðum hafbeitarám og sjálfbærum ám. Hafbeitarár eru ár þar sem seiðum er sleppt í ána, þau ganga niður í sjó og koma aftur eins og venjulegir laxar. Þessir fiskar ná hinsvegar ekki að hrygna, oftast vegna lélegra skilyrða í ánum, og deyja því þegar í árnar er komið. Það gerir þó ekkert til þar sem að nýjum seiðum er sleppt aftur í árnar. Sjálfbærar ár eru þær sem standa undir stofni sínum án utanaðkomandi hjálpar.

Dæmi um hafbeitará eru Rangárnar tvær. Úr Ytri-Rangá komu 10700 laxar í ár og um 4300 veiddust í Eystri-Rangá. Laxá í Dölum gaf um 1400 laxa svo að munurinn er augljós. Rétt er þó að segja frá því að í margar þær ár sem eru taldar til sjálfbæru ánna eru ár þar sem fiskar eru teknir í klak og seiðum þeirra sleppt í ánna að vori. Þetta er gert til að styrkja stofna ánna. Sem dæmi má nefna Miðfjarðará sem gaf ótrúlega flotta veiði, eða 4004 laxa.

Miklir þurrkar einkenndu þetta sumar, sérstaklega á Vesturlandi og Suð-vesturhorninu. T.d. lá við að Laxá í Kjós þurrkaðist öll upp, sem hafði gífurleg áhrif á veiðina framan af. Kjósin endaði þó með 1404 laxa, rétt um 100 löxum minna en í fyrra.

Laxá á Ásum kom verulega á óvart í ár með í kringum 1100 laxa en var í fyrra með um 550 laxa. Það er frábær veiði miðað við það að einungis er veitt á tvær stangir í henni. Í Laxá í Leirársveit er líka veitt á tvær stangir og endaði hún í 900 sem er eitthvað undir því sem veiddist í fyrra. Þetta eru því með betri veiðiám landsins, ef reiknaður er út fjöldi laxa á stöng. Í kringum 5 laxar á stöng dag hvern.

Sjálfur veiddi ég ekki lax í sumar, enda var enginn túr farinn í því skyni. Gaman væri að heyra hvernig öðrum gekk í sumar.

Allt hef ofangreint hef ég eftir ýmsum greinum af www.votnogveidi.is og myndina tók ég líka þaðan. Afsaka allar stafsetningavillur sem kunna að finnast í textanum.
omglolwutfail