Sælir veiðimenn og -konur til sjávar og sveita
Ég er einn af fjölmörgum skotveiðimönnum sem hef verið að feta mín fyrstu skref í skotveiðiíþróttinni undanfarin haust ásamt nokkrum góðum félögum. Því miður höfum við félagarnir ekki haft tök á því að fylgja veðruðum skyttum í margar veiðiferðir til þess að læra réttu handtökin enda skila veiðiferðirnir okkur síður en svo alltaf miklum afla. Hvað um það, við teljum þetta skemmtun sem fátt annað jafnast á við. Það sem okkur hefir einmitt þótt krefjandi og skemmtilegt við veiðiskapinn er að læra á fuglinn og veiðistaðina.
Sem ungir og vel gefnir menn reynum við að bera virðingu fyrir því umhverfi sem við veiðum í svo og bráðinni sjálfri. Það skiptir okkur mun meira máli að ná góðu skoti og fella einn fugl en að fíra öllu magasíninu út í loftið, fella tvo fugla á meðan 3 fljúga særðir í burtu. Og svo framvegis.
Spurningin sem ég er að velta fyrir mér og ég vona að þið getir svarað er þessi: Verður veiðiskapurinn skemmtilegri eftir því sem maður veiðir meira eða verður maður bara vandlátari þegar maður er orðinn betri veiðimaður? Er skemmtilegast þegar maður kann lítið og veiðir lítið og þess vegna verður hver felldur fugl miklu meiri sigur?
Þegar við ungu sveppirnir rekumst á harnaði veiðinagla í ferðum okkar verður maður var við talsvert ólíkan hugsunarhátt. Menn sem fara á eitt morgunflug og finnst 10 fuglar hreinasta skömm eða 50 rjúpur eftir fyrstu helgina langt frá því að vera ásættanlegt.
Ég fyrir mína parta kvíði fyrir því að verða svo góður veiðimaður að ég verði ekki sáttur fyrr en ég er gersamlega búinn að fylla kistuna og allar veiðiferðirnar eru súrar nema ég mokveiði.
Eða hvað haldið þið?
Pís
S