Hucknall ánægður í Kjósinni
Hann lengist listinn yfir fræga fólkið að utan sem kemur hingað til lands í ýmsum erindagjörðum. Nú síðast var hér staddur Mick Hucknall, söngvari hljómsveitarinnar Simply Red, ásamt Chris DeMargary, saxófónleikara sveitarinnar og voru þeir að veiðum í Laxá í Kjós í þrjá daga. Luku þeir veiðum á hádegi á þriðjudaginn og höfðu sex laxa upp úr krafsinu. “Mick var hæstánægður. Ég held að hann hafi varla vitað hvað veiðistöng var áður en hann kom hingað, en samt veiddi hann flesta laxa þeirra félaga, fimm minnir mig. Hann var algerlega heillaður af þessu. Þetta er annars þrælhress náungi og laus við frekju og hroka. Hann tók lagið í veiðihúsinu og það var eftirminnilegt,” sagði Ásgeir Heiðar, leigutaki Laxár í samtali við Morgunblaðið. Nærri 600 laxar eru komnir á land úr ánni og segir Ásgeir það viðunandi þar sem skilyrði hafa alls ekki verið góð stóran hluta veiðitímans.