Veiðisaga frá Texas
Föstudagur, 1. nóvember 2002. Fyrsta helgi á dádýraveiðitímabilinu í Texas er hafin. Svili minn Sean og ég keyrðum á F-150 pickupnum hans Sean frá Dallas til Liberty Hill í Suður-Texas. Eftir um þriggja tíma keyrslu mættum við á hlaðið heima hjá Paul sem Sean vinnur með. Einnig var Brad vinur þeirra þar. Við smá bjórdrykkju og smökkun á öðrum guðaveigum (kona Pauls vinnur á krá) var sett á ráðin varðandi veiðina og haldið síðan í háttinn.
Laugardagur, 2. nóvember. Vaknaði klukkan 4:30 og gerði mig klárann. Restin af þessum svokölluðum “veiðimönnum” var að drepast úr þynnku þannig að ég var víst einn á ferð í þetta sinn. Eftir að hafa farið í camouflage gallann labbaði í um 20 mínútur norður af húsinu og fann ég veiðistaðinn sem Paul hafði bent mér á kvöldið áður. Það var undir trjám sem höfðu stórar og sveignar greinar þannig að ég gat falið mig undir trénu í skjóli trjágreina og laufblaða. Hafði ég útsýni yfir tvær 200 metra trjálínur sem mynda V-laga rjóður og sat ég alveg á “botninum” þannig að þetta var góður staður til að spotta bráðina. Dádýrin koma vanalega út úr trjálínunni á morgnana þegar það birtir til og á kvöldin þegar það byrjar að rökkva. Sat ég þar í um þrjá klukkutíma og sá ekki neitt dýr. Af og til heyrði ég byssuskot úr fjarlægð þar sem aðrir veiðimenn voru að munda byssur sínar. Byssan sem ég brúkaði var Remington 700 BDL .30'06 með Bushnell x9 sjónauka. Eftir það labbaði ég aftur að húsinu og sá að einhver hafði veitt kvenkyns dádýr og hékk það í einu af trjánum. Frétti ég að Paul hafði verið að labba út úr dyrunum og séð bráðina og farið aftur inn til að ná í byssu og skotið síðan frá dyragættinni! Fallegt kvendýr, um fjögurra ára gamalt. Síðan var ég spurður nokkrum sinnum yfir daginn af hverju ég hafði farið svona langt frá húsinu þegar ég hefði getað skotið út úr svefnherbergisglugganum!! Ég bara minnti viðkomandi á það að ég hafði allavega farið á veiðar heldur en að sofa út vegna þynnku eins og sumir gerðu. Setti þá menn hljóða!
Síðan var horft á ameríska fótboltann yfir daginn og seinnipartinn gerðu menn sig klárann fyrir næstu lotu. Fór ég á sama veiðistað, vildi ekki gefa upp von um að fá eitthvað þar. Sat ég þar grafkyrr í um klukkutíma og renndi augunum eftir trjálínunni í von um bráð. Dádýr eru mjög stygg og meðvituð um umhverfi sitt, þau nota lyktarskyn, heyrn og augun og skynja alla hreyfingu í kringum sig. Þau fela sig inná milli trjánna og eru mjög fljót að hlaupa ef þeim finnst hætta steðja að þeim. Allt í einu ég sá karlkyns dýr (aðeins karlinn er með horn) aðeins á ská til hægri koma út úr trjánum og gekk það beint fyrir framan mig í um tuttugu metra fjarlægð. Þessu átti ég alls ekki von á. Greinilega hafði verið of kyrr í of langan tíma og það hafði ekki verið mín var. Ég setti riffilinn nær kinninni og horfði í gegnum sjónaukann á rifflinum til að ná góðu skoti en átti í mestu basli við að finna dýrið í sjónaukanum. Meðan ég er að leita kemur styggð á dýrið og það hleypur aftur inná milli trjánna. Hjartslátturinn kominn uppí 160 og ég er blótandi sjálfum mér í sand og ösku við að hræða það í burtu. Þá sá ég í gegnum sjónaukann að dýrið stoppar í um 80 metra fjarlægð og snýr við til að sjá hvað það var sem hræddi það. Með leifturhraða miða ég á höfuð bráðinnar og án hiks toga ég í gikkinn og skotið hleypur af. Í gegnum reykinn og blossann af skotinu sá ég dýrið falla flatt niður á jörðina. Ég stóð upp og gekk til þess og sé að byssukúlan hefur farið inn um kinnina og út um aftanverðan hálsinn, það hefur dáið samstundis. Fallegt dýr með sex punkta horn, giska á um 50-55 kíló. Dádýrin hér í suðurhluta Texas verða ekki stór vegna þess hve mikill skortur er á fæðu fyrir þau. Þá er ekkert annað að gera en að draga það í átt að húsinu og fékk ég Brad til að aðstoða mig við það.
Þegar þangað var komið setti ég reipi utan um hornin og dró það upp í tré til að getað skorið innyflin úr. Setti ég framlappirnar yfir hálsinn og skar í skinnið frá brjóskinu alveg niður að endaþarmi. Síðan skar ég út lungun, hjartað, lifrina og restina af innyflunum. Passaði mig að skera ekki í þarmana því það hefði skemmt kjötið svo ekki hefði verið hægt að borða neitt af því. Sagaði mjöðmina í tvennt og sprautaði síðan vatni yfir allt saman. Gaman, gaman. Lét ég dýrið síðan hanga yfir nótt til að kæla það niður. Velkomin í sláturhús Nonna! hehe! Síðan um kvöldið var borðað dádýrakjöt frá seinasta veiðitímabili og skálað í bjór.
Sunnudagur, 3. nóvember. Vaknaði klukkan 4:30 og fór á sama stað. Jafnvel þó ég sá ekki fram á að fá eitthvað meira þá er alltaf smá séns. Var þar í um tvo tíma en sá ekki neitt og gekk þá aftur upp að húsi. Sá þar að Sean hafði náð í eitt kvenkyns dýr frá sínum stað og hékk það við hliðina á hinum tveimur. Alls höfðum við þá þrjú dýr. Byrjaði ég á því að skera/rífa skinnið af bráðinni minni, langaði að ná því heilu til að búa til góðan feld úr því. Eftir það var bara að skera kjötið af, framlappirnar, bakvöðvana, afturlöppunum var haldið heilu og skorinn hver vöðvi af seinna meir. Restin fór í bjúgur eða hakkað kjöt og var þá allt kjöt af dýrinu skorið af. Einnig sagaði ég af hornin svona til minningar. Lögðum við af stað heim eitthvað um fimm leytið. Núna er frystihólfið fullt af ljúffengu dádýrakjöti, vantar bara uppskriftabók og einhvern til að sannfæra konuna mína á að borða þetta allt saman!!!