Það hefur komið mér á óvart hversu margir eru þeirrar skoðunar að IE eigi að vera eini vafrinn sem notaður sé. Þetta er sjónarmið sem ég er mjög á móti.
Reyndar eru það sjaldnast eða jafnvel aldrei menn sem þekkja mikið annað en Windows sem láta slík orð út úr sér, en það þó gerist. Ástæðan fyrir þessari skoðun er mjög augljós þeim sem þekkja marga vafra.
Netscape.
Ég man eftir því að Netscape var eini vafrinn sem var notaður eitthvað að ráði. Þetta var á tímum Netscape 3.X og IE 3.X. Ástæðan var sú að IE 3.X var svo mikið djöfulsins drasl að varla var orðum að því hægt að koma. Þó var IE fyrri til að styðja ýmisleg þægindi, til dæmis myndir sem bakgrunna í töflum, en það bætti ekki. HTML þýðandinn var í stöppu og JavaScript-vélin var tóm vitleysa. En svo kom Netscape 4.X og IE 4.X. Þá fóru fleiri og fleiri að nota IE, vegna þess að mönnum var að verða ljósara að HTML-þýðandinn í Netscape væri nú ekki neitt til að státa af heldur. Málið er bara að fyrir tíma 4.X vafranna voru menn ekkert að gera flókið HTML. Þegar IE 5.X steig fram á sjónarsviðið voru næstum því allir að nota IE, eins og það er í dag. IE er ágætisvafri sem þýðir HTML næstum því algerlega rétt, á meðan Netscape HTML þýðandinn virðist ekki hafa þróast neitt síðan 4.0, sem er einmitt nokkuð langt síðan að kom út.
Og vegna þess að einu HTML vandamálin sem koma upp í dag eru Netscape-vandamál, hata menn Netscape, eðlilega. Netscape er viðbjóður eins og kunnugir vita.
En þá koma oft þessi fleygu orð: “IE ætti að vera eini vafrinn á markaðnum”. Þetta hræðir mig pínulítið. En þetta er líka vegna þess að menn halda gjarnan að IE og Netscape séu, og komi til með að vera einu vafrarnir í framtíðinni. Raunin er hinsvegar önnur.
Eins og margir vita hefur stýrikerfið Linux notið æ meiri vinsælda. Margir hafa nöldrað yfir því að IE sé ekki til fyrir Linux þegar hann er til fyrir t.d. Solaris og nokkur önnur UNIX kerfi. Netscape er aftur á móti til fyrir Linux en er hann þar jafnvel enn meira djöfuls drasl en hann er á Windows. MacOS er eina kerfið sem ég hef séð Netscape *næstum því* haga sér sæmilega á, en þar er hann nú samt drasl. IE á Mac er hvort sem er mun betri heldur en Netscape á Mac.
Nú líður að því að við fáum nothæfar útgáfur af því sem almúginn gjarnan kallar Netscape 6, en ég ætla að kalla hann Mozilla í þessari grein.
Mozilla M18 er nýjasti Mozilla vafrinn. Hann hefur verið að þróast frá M1, og er til rit yfir hvernig hann skuli þróaður upp að M22. Mozilla er þeim kostur gæddum að hann er “opensource”, sem þýðir að hann er tiltölulega fljótlega portaður yfir á nánast öll stýrikerfi. Annað er það að hann sýnir síður alltaf nákvæmlega eins. Þeir sem hafa prófað síður sínar fyrir margar gerðir vafra hafa eflaust tekið eftir því að munur er á Netscape á milli Windows, Linux og MacOS, sem og IE á milli Windows og MacOS, þó að munurinn þar sé reyndar orðinn mjög lítill. Munurinn á Mozilla á milli stýrikerfa er aftur á móti nákvæmlega ekki neinn, nema fræðilega sökum leturgerðaskorts. Mozilla mottóið var allavega einhvern tíma að styðja það sem Netscape sér, það sem IE sér, og helst meira. Þ.e.a.s., menn hyggast vinna að því að hægt sé að skoða síður rétt og almennilega í vafranum Mozilla.
Fyrir mitt leyti hrópa ég húrra fyrir Mozilla, þar sem þar er kominn almennilegur vafri sem er opensource. Það er tvennt sem er að honum, og það er að hann er ekki óendanlega stöðugur, né þá hraðvirkur. Reyndar finnur maður það alveg á 200MHz vél hvað viðmótið er þungt, þó að HTML-vélin sé alveg í fínu lagi hvað varðar hraða. Allavega, þetta tvennt kemur til með að lagast frá M18 og upp í M22, og á meðan er Mozilla vel meira en nothæfur. Eina síðan sem ég hef rekist á sem mætti betur fara í Mozilla er einmitt Hugi.is, en á öðrum munum sé ég ekki marktækan mun á milli Mozilla og IE.
En nóg um Mozilla. Ég skrifaði ekki þessa grein til að fjalla aðallega um Mozilla. Fleiri og fleiri flytjast yfir í Linux, og jafnvel önnur kerfi. BeOS er annað kerfi sem er lítið nema gott um að segja, nema einmitt það að það vantar vafra sem er af minnsta viti gerður. Meðfylgjandi afri BeOSsins, NetPositive er vægast sagt drasl, og enn hefur ekki tekist að porta Mozilla á árangursríkan hátt síðan í útgáfu M8. Það er til dæmis eina ástæðan fyrir því að ég nota sjálfur ekki BeOS að jafnaði, þ.e.a.s. skortur á almennilegum vafra (þó að sem vefforritari þurfi ég reyndar IE/Win í vinnunni hvort sem er).
Á UNIX er dálítið til sem heitir KDE. KDE er svokallaður “window manager” (sem er einhvers konar viðmót) sem er notað ofan á hið svokallaða X Windows, sem er lang-algengasta gluggaumhverfi UNIX heimsins. Af lögfræðilegum ástæðum (hvað varðar forrit sem KDE er háð) sem ég nenni ekki að rekja hér hef ég einungis nýlega tekið upp á því að nota KDE sjálfur, og þá hina ungu útgáfu 2.0. KDE er frægt í UNIX fyrir það að vera dálítið líkt Windows, og held ég að það sé alveg óhætt að segja að hann sé hvað þróaðastur af þessum “window managerum”. Þar er innbyggður vafri sem heitir Konqueror. Það er vafri sem kom mér stórkostlega á óvart þegar ég prófaði hann í KDE 2.0 er hann semsagt einn af tveimur vöfrum sem ég gjarnan nota þegar ég nota UNIX. Mozilla og Konqueror eru báðir opensource, svo að þeir eru báðir mjög auðflytjanlegir á milli stýrikerfa. Hugsa ég þó reyndar að það sé talsvert í það að einhver nenni að flytja Konqueror inn á eitthvað sem er ekki UNIX-byggt (eins og Linux er).
Síðast en ekki síst má nefna hinn ekki-svo-gamla vafra, Opera. Opera er vafri sem kostar mann peninga ef maður er að nota hann á ákveðin stýrikerfi, en er samt ágætis vafri eftir því sem ég best fæ séð. Það voru nokkrir gallar sem pirruðu mig óendanlega þegar ég prófaði hann seinast, sem reyndar var fyrir talsverðu síðan.
Opera er frír á t.d. BeOS. Hann er víst til fyrir Linux líka, og get ég ímyndað mér að hann sé frír þar líka. Hann er hinsvegar “closed-source” og myndi ég aldri nota hann á Linux sjálfur þess vegna, sérstaklega ekki þar sem ég hef Mozilla til að velja líka, sem er einmitt open-source. Opera er hinsvegar kostur sem má taka fram yfir Netscape á Linux, þar sem Netscape er auðvitað líka closed-source. Heyrði reyndar einhvern tíma að Netscape hafi gefið út source kóðann að Netscape, en ég veit ekki til þess að maður geti notað hann eitthvað án þess að vera reyndur C forritari. Hvaða fífl sem er getur notað source kóðann að Mozilla ef menn bara lesa leiðbeiningarnar. Sömu sögu er að segja með Konqueror.
Nú hef ég talið upp 5 vafra sem eru vel nothæfir fyrir hinn almenna notanda. IE, Netscape 4, Mozilla (a.k.a. Netscape 6), Opera og Konqueror.
IE er leiðinlegur að ákveðnu leyti, en þó er HTML þýðandinn eiginlega eins góður og þeir verða. IE er góður fyrir notandann, en mjög slæmur kostur fyrir vefarann, vegna þess að hann fyrirgefur ólöglegan HTML kóða. Þ.e.a.s. þó að menn vefi eins og simpansar, sést síðan líklega í IE, þó að hún ætti ekki að sjást í neinum vafra. Einnig er IE lokaður vafri, sem þýðir að hann er ekki til, og kemur ekki til með að verða til í stýrikerfum eins og BeOS og Linux. Hvað Windows og MacOS varðar er hann samt fínn kostur.
Netscape 4 virðist vera nákvæmlega jafn óþolandi og leiðinlegur á hvaða stýrikerfi sem er. Það er misjafnt eftir stýrikerfum, en almennt er hann mjög óstöðugur ofan á það að HTML-þýðandinn er vægast sagt óáreiðanlegur, sem og að hann fylgir ekki stöðlum nógu vel.
Mozilla (a.k.a. Netscape 6) hefur ágætis HTML-þýðanda, þó ennþá ögn ófullkominn, fínan JavaScript-stuðning, sem og að hann er open-source sem þýðir að hann er til á nánast öll stýrikerfi og ætti samkvæmt kenningunni að þróast hraðar. Mozilla er reyndar ennþá í þróun (M18 af M22) svo að hann er einfaldlega ekki tilbúinn. Hann er nothæfur þegar maður hefur ekkert betra að velja úr, og reyndar tvímælalaust betri en Netscape. Einn helsti gallinn við Mozilla finnst mér samt vera hraðinn á viðmótinu. Fyrir UNIX er reyndar hægt að fá ýmiss konar umgjarðir sem hjálpa mikið, en þetta er samt sem áður vandamál á Windows, MacOS og væntanlega BeOS þegar Mozilla verður til á það.
Opera veit ég ekki nógu mikið um til að dæma, en nógu slæmt finnst mér að hann er ekki frír á helstu kerfin. Það er nóg til að ég persónulega útiloki hann, en samt verð ég að mæla með því að menn athugi hann, séu þeir tilbúnir til að hósta upp peningum nema þeir séu á BeOS (eða Linux). Það að Opera kostar peninga þýðir þó að framleiðendur hans eru háðir því að hann seljist, sem þýðir að þeir hljóta að leggja sitt af mörkum við að halda honum samkeppnishæfum.
Konqueror er sá eini sem styður ekki JavaScript á nógu góðan hátt, en að öðru leyti tel ég hann fínan. HTML-þýðandinn er prýðilegur (þó að hann sé reyndar ekkert fullkominn), en mín spá er að hann eigi eftir að vera fínn eftir nokkrar útgáfur í viðbót. Það sem ég tel vera helsta kost hans er að hann er mjög léttur og er auðvitað open-source (eins og allt KDE-verkefnið og allt sem þarf til að keyra það), en hvað varðar galla hans má nefna að hann JavaScript-stuðningur er lélegur, sem og að hann kemur ekki til með að verða notaður á annað en UNIX-kerfi, nema þó fræðilega Windows.
Mér fannst réttast að vekja umræðu á þessu sökum þeirrar leiðinlegu skoðunar að IE sé eina vitið í dag, og að það ætti einfaldlega að banna aðra vafra. Það þætti mér reyndar í góðu lagi ef IE væri open-source, þ.e.a.s. studdur af öllum stýrikerfum, en til að viðhalda samkeppni í stýrikerfabransanum er auðvitað mjög mikilvægt að almennilegur vafri sé til á þau öll. BeOS er gott dæmi um stýrikerfi sem myndi tvímælalaust njóta meiri vinsælda ef forritaúrval væri meira og ef nothæfur vafri fylgdi stýrikerfinu.
Í ljósi þess langar mig að benda á hversu ólíklegt það er að Microsoft flytji IE yfir á Linux vegna þess að með því væru þeir eingöngu og aðeins að stuðla að því að notendur færðu sig algerlega úr Windows yfir í Linux. Það er þeim óhætt að setja IE t.d. á Solaris vegna þess að hinn almenni notandi er svo innilega ekkert á leiðinni að nota Solaris til daglegra starfa.
Fleimið ÞETTA, herramenn. ;)