Þetta er alveg rétt. Ég er vefforritari sjálfur og oftar en ekki spyr fólk “Já, svona HTML og eitthvað?”, sem mér finnst frekar óþolandi. Því hef ég tekið upp á því að kalla mig einfaldlega forritara (enda það sem ég er kallaður á launaseðlinum mínum).
Enn í dag spretta upp lítil 1-5 manna fyrirtæki sem sérhæfa sig í vefsíðugerð, en eru þá fyrst og fremst í hönnun og HTMLi (hvort sem það er DreamWeaver, textaritill eða hvað). Almenn vefsíðuhönnun er hinsvegar vægast sagt mettaður markaður. Hinsvegar er stanslaus eftirspurn eftir gagnvirkum vefum, og meirihluti vefa sem eru gerðir í dag eru gagnvirkir og má þá einmitt nefna PHP sem mjög algenga og ágæta lausn, ásamt ASP (fyrir þá sem… þú'st), JSP, Perl og annað. Ég ætla að láta í friði að dæma eitt fram yfir annað, enda mjög misjafnt eftir verkefnum hvað sé hentugast að nota.
Svo eru menn eins og þú. Vefarar. Ég skil ykkur svo vel. Svo erum við. Forritararnir. Saman smíðum við jú þessa vefi og er því alveg óhætt að segja að við nærumst á vinnu hvorra annarra. Aftur á móti þurfum við að tala við kúnna, og kúnnar eru, eins og flestir í bransanum vita, gjörsamlega óþolandi þraut í óæðri endann. Hinn almenni kúnni, að minnsta kosti. Kúnnar sem vita hvað þeir eru að tala um eru auðvitað pjúra brill, en því miður eru þeir í minnihluta.
En vegna þess að það er einmitt ekki í kúnnans verkahring að vita neitt í sinn haus, höfum við verkefnastjóra sem sjá um að tala við þessar elskur fyrir okkur svo að við þurfum ekki að baktala þá fyrir fáfræði þeirra, og þeir þurfa ekki að baktala okkur fyrir hroka og æðruleysi okkar.
Svo að er þetta tíminn til að sérhæfa sig? Alveg tímælalaust. Það sem við munum sjá í framtíðinni er enn meiri aðskilnað vefara og forritara, og ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða að sjálfstæður vefari á ekki eftir að komast mikið í framtíðinni, þó að það hafi svo sannarlega verið mikill peningur í því hingað til. Allir vilja gagnvirka vefi, gagnagrunnstengda og allt það, en forritin á bakvið síðurnar eru auðvitað alltaf að verða stærri og flóknari, og því þarf betri vefara og hönnuði til þess að koma þessum forritum sem best og auðveldast á framfæri.
Ég hef aftur á móti enga trú á fyrirtæki eða einstakling sem hyggst vinna fyrir sér með annaðhvort eingöngu forritun, eða eingöngu vefun.
Hvað varðar hljóð- og vídjóvinnslu á vefum… þá hef ég bæði litla trú og lítinn áhuga á þeim efnum, a.m.k. hvað varðar nánustu framtíð. Þegar það er komið eitthvað mikið af vídjói og hljóði inn í vefsíður hafa þær eiginlega misst tilgang sinn. Það eru helst auglýsingar og demo og slíkt sem þurfa eitthvað þvíumlíkt, og við eigum svosem ekkert eftir að sjá mikla þróun í þeim málum á vefsíðum sem slíkum. A.m.k. lítið sem við gætum ekki léttilega gert í dag ef við hefðum almennt meiri bandvídd á milli notenda.
Allavega, þetta voru pælingar, ásamt öðru.