Nú er yfirleitt teljari á flestum vefjum enda lítið gaman að halda úti vef þar sem maður veit ekkert um aðsóknina. Hérna ætla ég að leggja fram tillögur um hvernig hægt er að byggja upp teljara og óska eftir fleirum og gagnrýni á þær tillögur sem ég kem.

Þegar byggja á teljara er einfaldasta og augljósasta leiðin að búa til eina röð fyrir hvert hitt - þá auto_increment, ip tölu, slóðin sem viðkomandi er á, [upplýsingar úr kökum um hvort viðk. hafi heimsótt síðustu n mín], [innihald 'main' breytunnar (flestir eru með einhverja breytu sem stjórnar því hvaða aðalsíða er í gangi)], dagsetning, [upplýsingar um hvort viðk. sé innskráður, ef slíkt er fyrir hendi á vefnum].

Svona form á teljara getur verið mjög þægilegt. Það er einfalt að byggja hann og það er hægt að fá mjög greinargóðar upplýsingar úr honum um hegðun notanda og ákveðna hópa notenda ekki síst ef fólk getur skráð sig inn á vefinn.

Ókostirnir eru hinsvegar greinilegir; taflan verður fljótt ógurlega stór (ég er með vef sem opnaði um miðjan október og nú eru komnar 1.073.012 raðir í hann) og ef fyrirspurnir taka ógurlega langan tíma, þannig að þessi lausn er frekar hæpin ef hanna á vef fyrir 3. aðila.

Önnur aðferð sem mér dettur í hug er +1 aðferðin en hún er þannig að fjöldi heimsókna er geymdur í einni tölu og hún síðan hækkuð með hverjum notanda sem kemur á vefinn. Þetta má síðan útfæra betur, flokka heimsóknir eftir dögum eða klukkustundum og taka saman hvað oft er farið á hvern hluta síðunnar.

Þessi aðferð hefur þá kosti að mjög fljótlegt er að sækja fjölda heimsókna. Hún myndi því líklega henta betur þegar smíða á vef fyrir 3. aðila - en núna þyrfti hinsvegar að ákveða fyrirfram hvaða upplýsingar maður vildi fá úr teljaranum.

Ókostir við þessa aðferð eru þá þeir að illmögulegt er að fá upplýsingar um heimsóknir eftir á sem ekki var hugsunin að fá til að byrja með. Ákveða verður hvað menn vilja fá þegar teljarinn er smíðaður.

Þegar ég pæli í því er líklegast best að notast við báðar tegundir teljarans.
—–

Þetta voru þær tvær aðferðir sem mér datt í hug svona í svipinn. Þær má örugglega útfæra enn frekar og líklega eru til sniðugri aðferðir … en endilega segið hvað þið gerið, svo lengi lærir sem lifir.