Íslensk vefhýsingarmál Það er sama hvert litið er í þessu ágæta þjóðfélagi, hvergi er sá staður hérlendis þar sem ég sé hýsingu sem mig langar í. Það er ekki endilega út af þeirri staðreynd að hýsing á Íslandi er aðeins yfirverðlögð, heldur út af því að svo virðist sem flest vefhönnunarfyrirtæki Íslands hafa ákveðið að gefa sér að allir sem kaupa sér vefsvæði séu hálfvitar.

Ég á enn eftir að finna eina lausn á þessu blessaða Alneti sem er (1) innanlands, (2) með SSH aðgang að skel, (3) með aðgang að undirlénum, (4) með möguleika á fjölda FTP aðganga og stjórnun þeirra, (5) möguleika á að stjórna sínum eigin póstföngum og svona mætti lengi telja.

Ég er orðinn langþreyttur á að íslenskar lausnir geti ekki og nenni ekki að keppa við erlendar lausnir. Allt sem ég bið um að mér sé sýnd tilhlýðleg virðing og mér þar með ekki boðið 5MB vefsvæði og tölvupóstfang.

Berum saman. “Símafyrirtæki X sem ekki er Síminn” býður upp á 50MB í geymslu sem grunnpakka sem kostar 2.500 í uppsetningu og svo 1.490 í mánaðargjöld. Nú langar mér í PHP og þeir setja það upp fyrir mig fyrir lítinn 2.000 kall. Án MySQL er PHP vita gagnslaust, og þar sem ég hef ekki gaman að textaskjölum fæ ég mér það og borga 2.000 fyrir. Þá borga ég 350 krónur fyrir að þeir geymi þetta á þjóninum hjá sér á mánuði. Allt gott og vel, nema ég vil fá góðar upplýsingar um hver er að koma inn á vefinn minn. Ég kaupi því 2.490 króna tölfræðipakka og borga 500 krónur á mánuði fyrir að safna þessum upplýsingum. Ég er alsæll, enda kominn með allt sem ég þarf fyrir og borga ekki nema rétt rúman 37 þúsund kall fyrir pakkann fyrsta árið.

En á PHP ekki að vera sjálfsagt? Á MySQL ekki að fylgja með? Svo fremi sem ég veit kemur það uppsett á FreeBSD og er auðvelt að setja upp á sambærilegum útgáfum Linux. Hvað með tölvupóstföng? Á ég að þurfa að borga 450 krónur og hringja í starfsmann þegar ég vil tölvupóstfang. Og af hverju fæ ég þá ekki að breyta lykilorðinu mínu? Lífið er erfitt.

En vippum okkur yfir Atlantshafið. Lítum aðeins á erlenda kosti. Hjá hýsingarfyrirtækinu sem ég er hjá núna (og það er ekki besti kostur markaðarins) get ég fengið fyrir 3.750 krónur árlega fengið 1GB af plássi, sem að vísu er takmarkað með 10GB af bandvídd. En þeir bjóða mér líka

- ótakmörkuð undirlén
- endalausa FTP aðganga sem ég get búið til sjálfur án þess að hringja í starfsmann
- CGI (sem hefði kostað 2.000 kall aukalega hjá vinum okkar í “Símafyrirtæki X sem ekki er Síminn”)
- PHP
- Hægt að breyta villusíðum
- FrontPage stuðningur (2.000 kall þar)
- SSI
- Endalausa MySQL gagnagrunna þar sem ég fæ 1 hjá “Símafyrirtæki X sem ekki er Síminn”
- Endalausa tölvupóstaðganga sem ég get sett upp sjálfur
- Stjórnborð fyrir allt sem ég þarf að gera
- Tölfræðiþjón í stjórnborðinu
- Og svo margt margt fleira.

En hljómar þetta ekki eins og auglýsing? Ef þetta hljómar eins og auglýsing er það vegna þess að þetta er svo ótrúlegt, og okkur Íslendingum svo frumstætt, að allt lítur út fyrir að brögð séu í tafli.

En ég vil velja Ísland. Ég vil styrkja íslenskt atvinnulíf. Ég vil bjóða notendum upp á þjónustu þótt það sé “þessi tími mánaðarins” hjá Farice. Ég vil bjóða upp á íslenskt niðurhal.

Þess vegna geri ég þetta tilkall til forstöðumanna íslenskra frumkvöðla á Internetinu. Ég bið ykkur:

- gerið ykkur grein fyrir að sumir notendur ykkar kunna til verka
- hættið að láta einfaldar breytingar á þjónustu reiða á símkerfið
- lækkið verð
- hækkið fjölbreytileika

Og hvernig væri svo að vera með eitt stykki vélarhýsingu eins og hægt er að fá erlendis? Ég kem með tölvuna, mér er sköffuð stöðug og hröð tenging, ég borga, allir græða.