Í ítarlegri könnun á hraða vefforritunarmála lentu forritunarmálið í eftirfarandi sætum.
1. PHP
2. ASP
3. ColdFusion
4. JSP/Java
Þó var bent á (það sem rétt er) til dæmis varðandi Java, að það er fleira sem skiptir máli í vefforritun heldur en hraði. Java var varið á þeim forsendum að það væri hægt að gera mun meira en t.d. í PHP og ASP, sem er rétt.
Það er nákvæmlega sama sagan með PHP og ASP. Undir þeim kringumstæðum sem verulegt álag er við lýði, ættirðu að finna mun á PHP og ASP, en að öllu jöfnu finnurðu hann ekki. Það sem er líklegra til að hægja á er gagnagrunnurinn sem þú notar. Nú er MySQL langoftast notaður með PHP, og eins og kunnugir vita er MySQL fáránlega hraðvirkur. Ég tel því raunverulegan hraða forritunarmálsins ofmetinn, en auðvitað fer það algerlega eftir verkefnum.
Sem dæmi, þú myndir alveg finna hraðamun á Huga eftir því í hverju hann væri skrifaður, vegna þess að þar erum við að tala um geðveikislegt álag.
PHP á Windows er ekkert meira vesen en PHP á UNIX, höfum það á hreinu. Það getur verið að það sé vesen ef maður vill endilega nota IIS, en hvers vegna maður ætti *endilega* að vilja IIS fer framhjá mér, þar sem vefþjónar á borð við OmniHTTPd eru engu síðri, og menn geta auðvitað alltaf valið Apache ef þeir nenna að setja hann upp.
En nú þekki ég því miður hina skammarlegu lausn Visual Basic, sem ASP er einmitt byggt á (og þess vegna oft kallað VBScript).
Í ASP tekurðu oft 10 línur í að gera það sem þú tekur 3 línur í með PHP. Einnig má ekki gleyma því að kerfisstýrastuðningur PHP tekur ASP, ColdFusion og meira að segja Java í boruna (án spaugs, PHP gengur á fleiri stýrikerfi en Java).
Ef þú vilt nota COM+ eða álíka, þá getur verið að það sé skynsamlegra að nota ASP, en hvers vegna þú ættir að nota COM+ nákvæmlega, hefur alltaf farið framhjá mér. Ég hef aldrei heyrt COM+ betur útskýrt en svo að það séu einfaldlega library… sem hafa verið til í formi .so skráa á UNIX og DLL skráa á Windows eins lengi og C hefur verið til, ef ekki lengur.
Þeir sem hafa einhverja tilfinningu fyrir því hvað getur kallast alvöru forritun, hljóta að velja PHP fram yfir ASP, einfaldlega vegna þess að ASP er mjög leiðinlega sett upp sem forritunarmál (VBScript, þ.e.a.s.).
Og auðvitað má ekki gleyma því að allt sem þú þarft til að keyra PHP, er frítt. Til að keyra ASP frá Microsoft, þarftu að borga talsverðan slatta af peningum.
Allir forritarar sem hafa talsverða reynslu af VBScript eða VB, sem og einhverju öðru, eru sammála um það að BASIC er byggt upp á fáránlegan máta, og á meðan flóknu hlutirnir eru gerðir einfaldir í því, eru einföldu hlutirnir flæktir óþarflega mikið. Í PHP er skítlétt að gera meira eða minna hvað sem er, og ég þekki ekkert sem er ekki hægt að gera í PHP sem er hægt að gera í ASP.
En þetta fer, eins og venjulega, allt eftir því hvað þú þarft að gera. :) Það sem ég get sagt þér að PHP *hefur* fram yfir ASP, er skemmri þróunartími, lægri kostnaður, hraði, samhæfni við stýrikerfi og samhæfni við venjur annarra forritunarmála. Hafir þú unnið við forritun til lengri tíma veistu auðvitað að allir þessir hlutir geta skipt verulega máli.
Og já, alveg rétt. Margoft hafa komið upp öryggisgallar í ASP (svo ekki sé nú minnst á IIS) sem eru algerlega óviðsættanlegir fyrir þá sem þurfa að gera eitthvað af alvöru. Ég get hiklaust fullyrt að PHP/Apache hefur ekki 5% af þeim öryggisgöllum sem ASP/IIS hafa.