Þrátt fyrir mikla umræðu um kosti þess að skrifa valid HTML kóða og almenna samstöðu um að það sé rétta leiðin til að smíða vefsíður virðast mörg fyrirtæki hérna heima ekki líta svo á að þetta skipti í raun neinu máli. Fyrirtæki eins og INNN (Bara svo ég nefni nærtækt dæmi.) halda áfram að spýta út vefsíðum byggðum á úreldri þekkingu. Er ástæðan þekkingarleysi eða sjá þessi fyrirtæki engan hag í því að breyta því sem virðist virka svo vel utanfrá ?
Ef við tök vef eins og stod3.is, sem er sennilega gerður á þessu ári, og skoðum hann aðeins betur sjáum við að hann er byggður með sömu aðferðum og meiri hluti allra vefja var gerður frá miðjum síðasta áratug fram til dagsins í dag. Það er ekkert DTD, og því er ekki hægt að fara yfir hann því hann fylgir engum fyrirfram settum reglum. Þetta er dæmigerður template vefur í raun. Pop-up glugginn á forsíðunni er strax skotinn niður í FireBird vafranum mínum auk þess leynast þarna ein eða tvær JS villur. CSS-ið er heldur ekkert til að hrópa húrra yfir, það mætti endurskrifa og stytta heilmikið sýnist mér. Leitarvélum eru ekki gerð nein skil (description, keywords) og svo mætti lengi telja.
INNN er auðvitað bara eitt dæmi. Fleiri dæmi væru t.d ECWeb sem er frekar ungt fyrirtæki á villigötum. Sem betur fer eru hérna heima aðilar sem vilja gera vel eins og Hugsmiðjan. Skoðið vefina þeirra og tekið eftir því að þeir virðast vera komnir uppá lagið með að gera virkilega góðar síður. Þeim tekst reyndar ekki alltaf alveg 100% upp en þeir eru að reyna og eiga mikið hrós skilið fyrir það.
Þrátt fyrir alla umræðuna um notkun á stöðlum, aðgengi vefsíðna o.s.frv virðist þekkingin ekki skila sér alla leið. Hvað er það sem veldur að ykkar mati ?