Kæru áhugamenn um vefsíðugerð,

Ég hef stanslaust verið að velta fyrir mér, og nánast liðið illa út af því, að fólk sem er að byrja að nýta sér Internetið sér til fróðleiks, til að hjálpa öðrum og jafnvel bara til að skemmta sér fær ekki nægjanlega mikinn stuðning í því sem það tekur sér fyrir hendur. Nú er ég einfaldlega að tala um byrjendur í vefsíðugerð. Ég hef orðið var við það, þar sem ég hef notað Internetið til að gera heimasíður öðrum til skemmtunar, að stanslausar fyrirspurnir koma frá fólki sem er að reyna að byrja sínar eigin vefsíður og spyrja mig jafnvel beinlínis: “Hvernig á að gera vefsíðu?”. Mér finnst að það sé vandamál hér á Íslandi, og vafalaust í öðrum löndum einnig, að það eru ekki til nægar leiðbeiningar til að íslendingar, krakkar, unglingar o.s.frv. geti nýtt sér heimasíðugerð. Það er sérstaklega stuðningur sem vantar við að koma þessum byrjendum á stað. Á meðan ég er að semja þessa grein vil ég benda á að ég er að hjálpa mörgum vina minna að læra HTML. Ég vil leggja mitt af mörkum en stanslaust fleiri fyrirspurnir koma inn svo ég ræð ekkert við þetta. Hvernig væri ef við, hér á áhugamálinu vefsíðugerð, myndum nú taka okkur saman og reyna að gera vefsíðugerðaráhugamálið meira fyrir byrjendur. Jú, það eru auðvitað korkar, tenglar o.s.frv. inn á hjálparsíður - en svo fáar eru á íslensku að krakkar, unglingar og fólk sem ekki hefur þekkingu í ensku getur alls ekkert komið sér áfram. Mig langar, og ég mun vera stuðningsmaður þess í einu og öllu að upp verði tekið upp eitthvað, sem gæti til dæmis verið horn fyrir byrjendur til að leita í. Ég skal þá með ánægju, ef það verður leyst, benda öllum sem áhuga hafa á vefsíðugerð á vefsíðugerðarsvæði Huga og þar með þetta svæði.

Þetta er hins vegar einungis hugmind og ég get alls ekki ætlast til þess að þetta gerist án þess að fólk leggji sig fram. En mig vantar ekki og stuðningur minn mun ávallt vera hér, svo framarlega sem ég verð ekki undir valtara.

Vinsamlega segið skoðun ykkar á málinu og reynum að leysa það svo byrjendur geti leitað í Huga og lært HTML, fengið aðstoð við að velja sér forrit til vefsmíða og að fleira fólk geti einnig komið sér inn í grunn PHP.

Kveðja,
Friðrik Már Jónsson