Ágætu spilarar, velunnarar og aðrir lesendur:

Nú þykir mér hart vegið að þeim góða félagsanda sem hefur fylgt þeim hópum
er leggja stund á fjöldamorð í keppnisskyni í hin snilldarlega Unreal
Tournament. Eins og flestum er kunnugt var í upphafi stofnuð sérstök
spjallrás þar sem spilarar öttu kappi í umræðum um málefni er varða
tölvuleikinn og rásin stóð því fyrir mikilli félagslegri uppbyggingu með það
að markmiði að fólk sem hefur það að sameiginlegu áhugamáli að hanga yfir
tölvuskjánum með lyklaborð og mús að vopni. Þessi rás þótti með tímanum vera
ströng fyrir hina frjálslyndu hópa og var því tekið til þeirra úrræða að
stofna til annarrar spjallrásar með sama markmið en önnur sjónarmið þegar
tekið er til stjórnunar og eftirlits á rásinni. Sel ég það eigi dýrar en ég
keypti það, en svo virðist sem ekki hafi verið vilji stjórnenda að deila
réttindum sínum með meðspilurum sökum vantrausts og fyrri glappaskota og var
því ekki unnt að ræða það frekar.

Nýja rásin fékk nýstárlegra nafn sem gat því haldið sér þegar framhaldsútgáfa Unreal leikjanna kæmi út, en hennar er enn beðið. Þarna var ákveðið að haga rásarstjórnun á mjög svo frjálslegan og jákvæðan máta. “Sameinaðir stöndum vér” var mottóið og stemmingin batnaði mjög, auk þess sem hress framkoma fólks á rásinni jók á gleði nýrra spilara því auðvitað veitir ekki af að bjóða alla nýja velkomna og bjóða þeim aðstoð við hvers kyns vandamál sem geta komið upp þegar verið er að koma sér inn í hlutina. Glatt var oft á hjalla og mikið um umræður og þá um alla mögulega hluti, hvort sem þetta tengdist keppnishaldi, vinaleikjum eða bara einfalt spjall ungs fólks.

Þetta varð til þess að hin gamla rás tapaði vinsældum sínum, en vildi þó ekki breyta til og athuga betur hvernig á þessu stæði. Þröngsýni stjórnenda gagnvart samspilurum sínum hafði hlaupið með þá í gönur og erfitt var nú að snúa við blaðinu. Þá kemur að hinum ámælisverðu aðgerðum sem ég vildi einmitt fordæma eins vel og unnt er. Nokkrir af stjórnendum gömlu rásarinnar reyndust svo miklir hræsnarar að óprúttnir tóku þeir sig til og tæmdu samkeppnisrásina og lokuðu henni. Þarna þótti illt í efni og pilarar neyddust til að skríða aftur á gömlu rásina og sleikja sár sín. Þar sem þessi félagslegu tengsl manna reyndust ekki sterkari en þetta er næsta víst að UT samfélagið getur ekki haldið áfram hinu óbilandi trausti sem fólk hafði gagnvart hverju öðru.

Rásin er enn lokuð og þykir mér verr að viðkomandi einstaklingar sem að þessu stóðu skuli ekki sjá hversu illa þeir fóru með samspilara sína og það að svona hegðun veki ekki óhug stofnanda gömlu rásarinnar sem eflaust hefur ekki búist við að meðstjórnendur færu að leggjast svona lágt, sama hvað gengi á gagnvart öðrum rásum. Þá síður að slíkt eigi sér stað vegna einfaldrar öfundsýki.

Ég fordæmi svona hegðun og barnaskap, þar sem þetta er öllum til ama og birtir engan veginn fallega mynd af þeim sem standa við hlið misnotendanna sem góðir og samviskusamir stjórnendur.

Með von um batnandi tíma,
Barnuts
[Krafla burnout]