Ef þú ert ekki byrjaður/byrjuð í framhaldsskóla og langar að læra latínu, þá skaltu fara í MR, þar er heil deild sem einbeitir sér nánast bara að latínu, auk grísku og fornfræða. Auk þess er hægt að velja deildir með minni háttar latínu eða latínu sem val.
Hægt er að fá latínu sem valáfanga í mörgum framhaldsskólum, ég veit allavega að MA, MH og Flensborg bjóða upp á latínuval. Flestir skólar með fjölbrautarkerfi bjóða upp á að búa til nýja áfanga ef nægur áhugi er fyrir hendi, það má láta reyna á það. Hvergi hefur þó verið eins mikið kafað í latínuna eins og í MR, enda ekki að ástæðulausu sem hann er enn kallaður latínuskólinn.
Ef þú ert ekki í framhaldsskóla, ert ekki á leiðinni í framhaldsskóla eða ert í skóla sem býður ekki upp á latínu er ýmislegt til ráða: Til eru góðar kennslubækur sem hægt er að læra án kennara. Má þar nefna tungumáladeildina á efstu hæð í Eymundsson Austurstræti, þar eru nokkrar “Teach yourself Latin” bækur. Í flestum bókabúðum er líka hægt að fá bækurnar “Latneskir lestextar” og “Latnesk málfræði” eftir Kristin Ármannsson, þær teljast mjög góðar.
Svo má finna ýmislegt efni á netinu. Hér er til dæmis fín síða til að læra latínu
http://sprachprofi.de.vu/og hér er síða með tenglum á ýmis tungumálanámskeið:
http://www.word2word.com/coursead.htmlÞví miður eru símenntunarfélögin (Mímir og námsflokkarnir) ekki með nein latínunámskeið en hins vegar er kennd latína í Háskóla Íslands og ég er nokkuð viss um að það þurfi ekki neinn fyrirfram grunn í latínu til að fá inngöngu á þá deild. Stúdentspróf er þó að sjálfsögðu skylda fyrir háskóla.
Ég vona að þetta hafi komið að gagni.