Ok, en fyrst ég hef fyrir því að skrifa þetta, þá bið ég þig að lesa vandlega.
1) Staðreynd sem er hafin yfir allan vafa: Orðið var upphaflega “tölva”.
2) Staðreynd sem er hafin yfir allan vafa: Sumt fólk er farið að segja “talva” í nf. et. stað “tölva”.
3) Mín fullyrðing: Þessi breyting fylgir engri reglu, hún er bara afleiðing af misskilningi.
Útskýring: Tungumál breytast. Um það verður ekki deilt. Sumar
breytingar eru breytingar sem fylgja reglum, þ.e. eru afleiðingar af
almennri tilhneigingu í málinu. Dæmi um slíka almenna tilhneigingu er þegar óalgengar sterkar sagnir verða veikar (þiggja, þá, þágum, þegið > þiggja, þáði, þegið). Þetta er almenn tilhneiging, ekki aðeins í íslensku, heldur öllum tungumálum, líka t.d. forngrísku: sterka beygingin er eldri en veika beygingin vinnur á því hún er reglulegri og auðveldari; algengar sagnir eins og “vera” eru líklegri til að vera sterkar og/eða óreglulegar. (Sjá smávegis um þetta
hér.) Það sem mér gengur til með þessu dæmi er að sýna dæmi um
breytingu sem er reglubundin en ekki bara tilviljanakennd: sterkum sögnum fækkar hlutfallslega og veikum sögnum fjölgar.
Það er auðvitað rétt að mörg orð með a í orðstofninum í nf. et. hafi ö í aukaföllum (t.d. “gata”, “skata”, “fata”). Aftur á móti er engin almenn tilhneyging hjá orðum sem beygjast eins og “tölva” að breyta beygingu sinni yfir í að beygjast eins og þessi orð. Og þetta er líka staðreynd sem er hafin yfir allan vafa: það bara er ekki almenn tilhneiging í íslensku hjá orðum sem hafa ö í stofni sínum að breyta þessu ö-hljóði í a-hljóð í orðstofninum í nf. et. (Eða megum við kannski búast við því að önnur orð með ö í orðstofninum fari að fá a í orðstofninum í staðinn fyrir ö? Megum við t.d. búast við að Sölvi verði bráðum Salvi og Nökkvi verði Nakkvi, möskvi verði maskvi o.s.frv.? Ef þetta væri almenn tilhneiging í málinu, þá mætti búast við slíku.)
Þess vegna segi ég að þótt það séu til orð sem beygjast reglulega eins og “karfa”, þá er engu að síður
breytingin frá því að beygjast eins og “völva” yfir í að beygjast eins og “karfa” ekki regluleg og endurspeglar ekki almenna tilhneigingu í málinu. Og þess vegna hrífur það einfaldlega ekki á rök mín - og er hreinn og beinn útúrsnúningur - að benda á að beygingin karfa, körfu, körfu, körfu sé regluleg og þ.a.l. líka talva, tölvu, tölvu, tölvu. Nemurðu spekina? (Því ég er ekki að tala um beyginguna, hvort hún sé regluleg, heldur breytinguna, flutninginn úr einum beygingarflokki yfir í annan: hann er ekki reglulegur.)
Og tilgátan um að þetta sé
áhrifsbreyting (til aðgreiningar frá reglubundinni breytingu) frá orðinu “karfa” er ekki heldur mjög sannfærandi; reyndar vantar öll rök fyrir því að annað orðið hafi haft áhrif á hitt. Þá væri nú sennilegra að þetta væri almennari áhrifsbreyting frá beygingarflokknum sem orðin “karfa”, “fata”, “skata” og “gata” tilheyra sökum þess að orð í beygingarflokknum sem “tölva” og “völva” tilheyra eru svo miklu færri og þess vegna lagi fólk þau frekar að beygingarflokknum sem er algengari. En vandinn er að það eru engin gögn sem styðja þá tilgátu. Það eina sem við vitum er að sumt fólk segir “talva” þótt orðið sé “tölva”, rétt eins og sumt fólk segir “mér hlakkar til” og “eitthver” og þar fram eftir götunum. Nemurðu spekina?
Vituð þér enn, eða hvað? Jæja, þú þaft ekki að vera sammála mér, en vonandi skilurðu núna hvað ég er að segja.
Bætt við 20. febrúar 2007 - 06:05 Ég kannski bæti örlitlu við í þeirri von um að segja eins skýrt og mögulegt er hvað ég á við: úr því að þú nefndir orðin “röskva” og “slöngva” má geta þess að ef breytingin væri regluleg, þá ættu þau líka að skipta um beygingarflokk eins og “tölva”; fólk ætti þá að hafa tilhneigingu til að segja “Raskva” og “slangva”. En þessi tilheniging er bara ekki til staðar, það er ekki almenn tilheniging hjá orðum í þessum beygingarflokki til þess að skipta um beygingarflokk.