Vonandi að einhver hafi að þessu ofurlítið gaman og kannski jafnvel eitthvað gagn.
—
Vandræði:
Er þetta ekki gamalt orð yfir það að það sé erfitt að róa? Það er sem sagt vandróið í vandræði.
Rétt notkun er þá samkvæmt því að menn lenda í vandræði, en ekki í “vandræðum” (engar ræður í spilunum).
—
Að taka pól-í-hæðina:
Einhvern veginn virðast nánast allir telja að hæðir hafi einhverja póla, sem hægt er að taka, sbr. að taka hinn og þennan pólinn í hæðina.
Þetta er hins vegar upphaflega komið úr sjómannamáli og heitir að taka pólíhæðina, sem er hæð Pólstjörnunnar yfir sjávarmáli. Þeir sem tóku ranga pólíhæð áttu á hættu að villast af leið og því skipti það öllu máli að taka rétta pólíhæð (en ekki að taka réttan pól í einhverja hæð).
—
Að hellast úr lestinni:
Svo virðist sem lestarvagnar séu oft á tíðum í slæmu jafnvægi og væntanlega opnir að ofan, því margir hafa orðið fyrir því undarlega óhappi að hellast úr lestinni :)
Þetta er auðvitað misskilningur á annars ágætu orðtaki og rétt er að segja að menn heltist úr lestinni.
Þetta mun vera komið úr gömlu máli, frá þeim tíma þegar hestar voru helsti fararskjótinn, en þá gat komið sér illa ef hestur varð haltur og gat ekki fylgt lestinni lengur.
—
Krummafótur:
Þegar ég var lítill strákur fór ég stundum í krummafót. Ég vissi reyndar ekki nákvæmlega hvað krummafótur var, þ.e. hvers vegna það var kallað krummafótur, en ég gerði mér í hugarlund að krumminn hlyti að vera með svona útskeifa fætur eða eitthvað slíkt.
Síðan komst ég að því fyrir ekki svo löngu að þetta er bara danska. Danir segja nefnilega “krummed fod”, eða aðþrengdur/krumpaður fótur. Gamli íslenski krummafóturinn er sem sagt bara gömul dönskusletta, hugsanlega tilkomin af misskilningi :)
—
Ljósár:
Mér finnst alltaf svolítið fyndið þegar menn nota orð sem menn skilja ekki alveg, til að leggja áherslu á það sem þeir eru að segja :)
Sérstaklega hef ég gaman að því þegar menn nota orðið ljósár til að leggja áherslu á hvað eitthvað tekur langan tíma, sbr. “Þetta bréf ætlar að verða mörg ljósár á leiðinni.”
Þetta finnst mér sem sagt fyndið vegna þess að ljósár er ekki tímaeining, heldur lengdareining, þ.e. sú vegalengd sem ljósið fer á einu ári (fyrir þá sem ekki vissu það).
—
Akurnesingar (smá tuð):
Ég hef stundum velt fyrir mér hvaðan orðið “Akurnesingur” kemur. Allir vita jú að það er átt við fólk frá Akranesi, en hvers vegna akurinn er skyndilega orðinn einn þegar menn tala um fólk þaðan er mér hulin ráðgáta.
Mér finnst þetta einstaklega leiðinleg afbökun, svona svipað og ef menn færu allt í einu að tala um Akraeyringa í stað Akureyringa.
—
Jæja, ætli ég láti þetta ekki duga sem mína fyrstu grein hérna. Sjáum til hvort þær verða einhverntíman fleiri :Þ
Endilega rífið þetta í ykkur og ég sé til hvort ég næ að svara einhverju (sé það þess eðlis að svars sé æskts).
Svona í lokin kannski ein spurning: Veit einhver hver er rétt fleirtala af A? Mér finnst einhvernveginn rökrétt að það sé A, en máltilfinningin mín vill endilega hljóðvarpa því í Ö. Þannig að ég er ekki alveg viss hvort er réttara - eða það er allvega gaman að velta því fyrir sér (finnst mér).
0100100100100000011000010110110100100000010001000110000101110110011010010110010000100001