Í seinni tíð hef ég unnið mikið með útlendingum sem tala ensku, og einmitt lent mjög oft í því að ætla að segja ég nenni því ekki, á ensku. En enda bara á ömmm ööö, eða hreinlega bara: I dont nenn it man.

Ok… til að við getum farið að þýða orðið að nenna yfir á ensku þá þurfum við fyrst að skoða hvað það þýðir.

Í fyrstu var ég fljótur að afskrifa þessa leit með því að þýða: “ég nenni því ekki”=“I dont feel like it”. Og í langann tíma var ég sáttur með þá þýðingu. En einn daginn þegar ég lenti(fyrir slysni, það gerist eiginlega aldrei sko) í því að horfa á Oprah Winfrey, að ég skipti um skoðun.

Málið var það að það var einhver kelling sem átti voða erfitt og var vælandi og Oprah var að hugga hana og sagði: “Do you feel like talking about it”. Sem myndi þá þýðast yfir í “Nenniru að tala um þetta”, og það einhvernveginn þýðir bara ekki það sama.

“I dont feel like it” er einhvernveginn tengt einhverjum kvenlegum tilfinningum, á meðan “Ég nenni því ekki” er meira tengt leti.
Dæmi:
“I dont feel like going to work today” Þýðir að þú vilt ekki fara í vinnuna af því að þú ert annaðhvort veikur, eða þú vilt vera heima hjá þér og gráta.
“Ég nenni ekki í vinnuna í dag” Þýðir að þú ert of latur til að fara í vinnuna. Og eina tengingin við veikindi er að þú munt líklega hringja þig inn veikan svo þú getir hangið heima allann daginn að horfa á sjónvarpið.

Ok, þannig að þá var ég kominn aftur á byrjunar-reit. Næsta þýðing sem mér datt í hug var: “Im too lazy to do it”

En þar sem þessi þýðing er ekki byggð á sögn þá lendir maður mikið í vandræðum þegar maður ætlar að reyna að nota hana.
Til dæmis þegar maður ætlar að nota hana í spurningu, sbr. “Nennirðu að skutla mér í vinnuna?” myndi þá þýðast sem: “Are you too lazy to drive me to work?”
Þegar maður notar þýðinguna í þessu samhengi þá er eins og hún hafi með sér vissa árásargirni. Eins og manneskjan sem er að spurja sé bæði að biðja um far í vinnuna en kalla mann letihaug í leiðinni.

Önnur dæmi þar sem maður lendir í vandræðum:
Gefum okkur það að Karlmaður nennir aldrei að laga til, og er hinn mesti sóði. Konan hans er orðin mjög pirruð á því og hreitir því í hann:“Ég nenni ekki alltaf að laga til draslið eftir þig”. Sem myndi þýðast yfir í “I'm too lazy to always be cleaning up after you”. Og eins og þeir sem hafa verið í sambandi þekkja eflaust mjög vel, þá er mjög slæmt að gefa færi á góðu come-backi þegar maður er að rífast og þessi setning gefur færi á mörgum. Maðurinn gæti til dæmis sagt: “Well mabey you should work on being less lazy then”

Af þessu gefnu þá vil ég álykta að orðið að nenna hafi í rauninni ekkert með leti að gera. Ástæðan fyrir því að maður nenni ekki einhverju getur verið leti, og leti getur verið gefin til kynna í notkun orðsins… En orðið sjálft eitt og sér, gefur ekki endilega til kynna leti.

Þannig að enn eina ferðina þurfti ég að pæla frá byrjun. En eftir öll þessi ár í að pæla í þessu held ég að ég skilji núna hvað orðið þýðir. Við einhvernveginn skynjum öll hvað það þýðir, og notum orðið mikið. En ef maður biður einhvern um að útskýra þá fær maður yfirleitt svarið:“Tja… það er eiginlega erfitt að lýsa því” En núna er ég dottinn niður á þýðingu sem ég held að ég sé sáttur með, og er hún svohljóðandi(ef notkunin væri:ég nenni því ekki):
“I could do it, but I would rather do something else, or nothing at all.”

Ok, ok… ég veit að það er erfitt að nota þessa rullu í töluðu máli, en í sannleika sagt þá er ég búinn að komast að því að það er bara engin leið til að þýða “að nenna” beint yfir á ensku, en… Næst þegar ég er í vinnunni og segi “I dont nenn it man” við einhvern. Og hann spyr “What do you mean?”. Þá get ég sagt honum þýðinguna hér að ofan og… ef við tökum öll höndum saman og byrjum að nota orðið þegar við erum að tala við útlendinga. Þá kannski eftir sona 20-30 ár, gæti orðið að nenna kannski orðið fyrsta hreina myndin af almennilegri íslenskuslettu í enskri tungu.(Og god knows að þeir eiga það skilið… þeir eru búnir að lauma svo fokking mörgum slettum frá sér inn í okkar mál).