Bloggsíður og íslenska eru erkióvinir. Bloggsíðurnar eru að vinna.

Þegar venjulegur unglingur sest við tölvuna og skráir sig á bloggsíðuna sína, reiðubúinn með safaríka sögu um hversu ofurölvaður hann var um helgina, er eins og sagan yfirtaki málfræðistöðvar heilans. (Forritarar kannast við þetta sem buffer overflow.) Einfaldir hlutir eins og fallbeyging verða skyndilega óviðáðanleg viðfangsefni. Í einu skiptin sem unglingar nota hástafi nota þeir þá vitlaust. Nokkrar setningar af bloggsíðum, völdum af handahófi:

- - - -

“En á morgunn er Miðvikudagur og þá er stærðfræði og íslenska og eitthvað, og á morgunn í íslensku fer ég í próf,, En svo fer ég bara að spila eða teikna!..”

“vá hef ekkert til að blogga um þannig þetta verður bara mjögmjögmjög stutt blogg fyrir þá sem eru búnir að vera að kvarta undan bloggleysi”

“æi sorry fólk er ekki byrjhuð að sæta mig við þetta verð bara að gera það en mér þikkir alltaf vænt um þig vænt um þig * mín(kiss)0kv * babe”

“Í dag þá vaknaði ég snemma fór að taka til í herberginu mínu á svolitið eftir en klára það bara á morgun en hjálpaði múttu við að taka til í dag svo fór ég náttúrlega að horfa bverlyhills 90210 oh þeir eru svo snildar þættir ég bara dýrka þa svo ákvað systa að við myndum skella okkur í sund eftir kvöldmat það var bara notalegt og vorum til hálf níu því ég var að drifa mig til þess að fara að horfa á everwood hehe alvena þá hef ég ekkert fleir að segja í billi” (Já, þetta er ein setning.)

“helló það er soldið að frétta en það er svolítið sem maður myndi ekki segja á bloggsíðu en ef þið þekkið mig skulið þið bara koma og spurja mig en annars er ekkert fleira að frétta svo að endilega komið og spurjið mig (ef þið þekkið mig og ef þið eruð forvitin um að vita þetta” (Þetta var allt bloggið.)

- - - -

Til að létta á minnis- og málfræðistöðvum bloggara hef ég útbúið lista yfir ástæður þess að ég fyrirlít blogg. Ef skrifað yrði eftir þessum viðmiðum yrði útkoman jafnvel skiljanleg. Með læt ég fylgja hvaða takka þarf að nota og hversu langt er í þá m. v. staðlaða fingrasetningu.

1. Notaðu punkta og skiptu í efnisgreinar.
Krefst notkunar:
<.>, 2 cm frá baugfingri.
<Enter>, 6 cm frá litlafingri.

2. Notaðu hástafi við upphaf setninga (á eftir punktinum).
Krefst notkunar:
<Shift>, 4 cm frá litlafingri.

3. Notaðu bil á milli orða.
Krefst notkunar:
<Space>, beint undir þumalfingri.

Þeim sem telja sér bókstaflega ófært að teygja puttana örstutt eða hreyfa úlnlið sinn agnar ögn ættu að halda sig sem fjærst tölvum (og fyrst á það er minnst, flestum ökutækjum). Og fyrir alla muni, skrifið um eitthvað!

Og hvers vegna er ég að skipta mér af bloggum annarra? Því þetta er bráðsmitandi, og fólk sem ég taldi mig þekkja hefur jafnvel fallið í þá gryfju að skrifa fyrir með einföldu i eða vikudagana með stórum staf! Jafnvel visir.is er morandi í stafsetningarvillum.

Reyndar hef ég áhyggjur af að þetta skipti fólk engu máli, allavega ekki miðað við þessi viðbrögð við leiðréttingu:

“Ef þú þykist vera einhver rosa harður gaur og þykist kunna allt í íslensku, afhverju leyfiru okkur Reykjvíkingunum ekki bara að skrifa illa”

“þetta er BLOG SÍÐA! Stafsetning skiptir ENGU máli á bloggi.”

Með þessu áframhaldi mun íslenskan brátt skiptast í mállýskur eftir landshlutum eða bloggsvæðum, hálf þjóðin mun leysast upp í borgarastyrjöld, eftirlifandi fólk mun gleyma hálfum íslenska orðaforðanum og mun þar af leiðandi ekki geta tjáð sig, og þeir fáu sem kunna íslensku geta ekki tjáð sig við neinn annan því enginn skilur þá. Loks, áður en langt um líður, verðum við öll orðin frumstæðir prímatar.
Og hvað ætlið þið að blogga um þá?